Þorsteinn Sæmundsson, dr. í jarðfræði frá háskólanum í Lundi, vísindamaður við Háskóla Íslands og formaður Jarðfræðafélags Íslands er gestur Ingvars P. Guðbjörnssonar í Pólitíkinni í þessari viku. Þorsteinn hefur lengi sinnt rannsóknum á sviði jarðvísinda, aðallega tengdum ofanflóðum og náttúruvá. Þáttinn má finna hér.
Í þættinum ræða þeir um náttúruvá, ýmsa atburði sem hafa orðið á síðustu mánuðum og árum í náttúrunni, s.s. snjóflóð, skriðuföll og jarðhræringar á Reykjanesi.
Hvað er að gerast á Reykjanesi?
„Þetta virðist vera rytmi á Reykjanesskaga. Við erum með þrjú til fimm hundruð ára gostímabil og sex til átta hundruð ára goshlé með sjálftavirkni,“ segir Þorsteinn þegar hann spáir í það sem er að gerast á Reykjanesskaga.
„Ég held að menn séu nokkuð sammála um að líkurnar á að við séum að fara inn í þetta gosvirknitímabil séu að aukast. Eftir því sem þessi skjálftavirkni heldur áfram vilja menn meina að líkurnar á að eldgos hefjist núna aukist. En hversu lengi þetta verður. Við sjáum í sögunni að það eru kannski áratugir þar sem er eldvirkni í einhverju af þessum sex eldstöðvarkerfum sem eru á Reykjanesskaganum. Síðan getur komið 100-150 ára goshlé og svo tekur þetta sig upp aftur og gengur út skagann. Líkurnar á að við séum að fara inn í þetta eru að aukast,” segir Þorsteinn.
Síðasta gostímabil á Reykjanesskaga hófst um árið 800 og lauk árið 1240.
Þurfum að efla rannsóknir og þekkingu
Þeir ræða um mismunandi hlutverk viðbragðsaðila, vöktunaraðila og vísindamanna.
Einnig ræddu þeir um skipulagsmál, stjórnmálalega ábyrgð í þeim efnum og hvort þeir sem fara með skipulagsvald búi yfir nægilegri þekkingu á náttúrunni til að geta ákveðið með ábyrgum hætti hvar skuli byggja upp til framtíðar.
Þá barst einnig í tal færni nútímafólks til að lesa náttúruna, um ábyrg ferðalög um náttúruna og um vinsæla ferðamannastaði sem geta verið hættulegir.
„Margir sem ekki þekkja náttúruna yfir höfuð gera sér enga grein fyrir því hvað þar er til staðar,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn segir að frekari kortlagningar sé þörf, það þurfi að byggja upp meiri þekkingu og að þrefalda til fjórfalda mannafla sem sinnir rannsóknum á þessu sviði hér á landi. Setja þurfi fókus í að skilja þau ferli sem eru í gangi í náttúrunni. En þetta kosti bæði tíma og aukið fjármagn.
Hann segir Íslendinga hafa sofið á verðinum varðandi náttúruvá. Gamlir bóndabæir séu byggðir á tryggari stöðum en oft gerist með byggingar í dag. Setja þurfi aukna áherslu á fræðslu til að auka þekkingu á náttúrunni. Auk þess sé oft ekki nægilega vel gætt að því að horfa í náttúruna á ferðamannastöðum þar sem hættur geti leynst. Greina þurfi hættur og vara við þeim.