Verið að reyna að breiða yfir staðreyndir í Fossvogsskóla?

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi:

Hvernig má það vera að börn sem stunda nám í Foss­vogs­skóla séu í höfð í skóla þar sem ít­rekað finnst hættu­leg mygla? Þrátt fyr­ir þær aðgerðir sem farið hef­ur verið í í skól­an­um fannst hættu­leg mygla þar í des­em­ber. Fyrst núna er verið að greina frá þess­um niður­stöðum sem er al­ger­lega óá­sætt­an­legt fyr­ir þau börn sem eru veik og verða sam­kvæmt lög­um að sækja skól­ann. Er hér verið að reyna að hylma yfir óþægi­legt mál fyr­ir Reykja­vík­ur­borg með því að draga það að birta niður­stöður? Það er einnig merki­legt að skýrsl­ur sem Verkís hef­ur unnið vegna Foss­vogs­skóla hafa ekki verið birt­ar held­ur aðeins minn­is­blöð úr þeim.

Tvær hættu­leg­ar teg­und­ir

Þegar skól­an­um var lokað var það meðal ann­ars vegna tveggja hættu­leg­ar teg­unda af myglu, kúlustrý­nebba og litafrugga sem get­ur valdið al­var­leg­um veik­ind­um. Við síðustu sýna­töku kom í ljós að þessi mygla er enn til staðar í skól­an­um. Það voru tek­in sýni á 14 stöðum og það fannst kúlustrý­nebba á 11 stöðum og litafrugga á fimm stöðum ásamt fjölda annarra teg­unda af myglu. Í skól­an­um fannst ekki mikið af myglu sem er að koma utan frá, held­ur er þessi hættu­lega mygla að grass­era inn­an skól­ans í því bygg­ing­ar­efni sem þar hef­ur verið notað. Al­mennt séð telst vöxt­ur myglu­sveppa inn­an­húss vera heilsu­spill­andi eins og staðfest er í leiðbein­andi regl­um Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar (WHO) um inni­loft í sam­bandi við raka og myglu. Það er því ljóst að Reykja­vík­ur­borg fær fall­ein­kunn fyr­ir það hvernig staðið hef­ur verið að mál­um við Foss­vogs­skóla. Það er hræðilegt að áfram sé að finn­ast mygla í skól­an­um, að börn þurfi að vera í um­hverfi sem er heilsu­spill­andi og séu orðin al­var­lega veik vegna myglu. Hvað á þetta að ganga lengi svona? Ég hef heyrt það áður að fara eigi að taka á þessu, ég ein­fald­lega held að Reykja­vík­ur­borg ráði því miður ekki við þetta verk­efni. Þegar búið er að eyða yfir 500 millj­ón­um í viðgerðir á hús­næði þá býst maður við betri ár­angri. Það er al­ger­lega óá­sætt­an­legt að hættu­leg­ar myglu­teg­und­ir séu að finn­ast í skól­an­um eft­ir all­an þenn­an tíma og alla þessa pen­inga sem farið hafa í end­ur­bæt­ur. Hef­ur ekki verið farið eft­ir þeim ráðlegg­ing­um sem gefn­ar hafa verið af sér­fræðing­um við úr­bæt­ur á skól­an­um? Það er spurn­ing sem Reykja­vík­ur­borg þarf að svara.

Reykja­vík­ur­borg ræður ekki við verk­efnið

Það ætti að vera orðið öll­um ljóst að Reykja­vík­ur­borg ræður ekki við þetta verk­efni. Reykja­vík­ur­borg hef­ur ekki náð að tryggja börn­um og kenn­ur­um í Foss­vogs­skóla heilsu­sam­legt vinnu­um­hverfi. Bar­átta for­eldra barna í Foss­vogs­skóla hef­ur tekið um þrjú ár og stend­ur enn. Það er dap­urt að for­eldr­ar þurfi að leiða þessa bar­áttu þegar skýrt er sagt á vefsíðu Reykja­vík­ur­borg­ar hver ábyrgð skóla- og frí­stundaráð sé : „Gæt­ir þess að leik­skól­ar, grunn­skól­ar, frí­stunda- og fé­lags­miðstöðvar og frí­stunda­heim­ili á veg­um borg­ar­inn­ar búi við full­nægj­andi hús­næði og að ann­ar aðbúnaður sé fyr­ir hendi.“ Kenn­ar­ar og börn búa ekki að full­nægj­andi hús­næði í Foss­vogs­skóla, for­eldr­ar hafa orðið að berj­ast fyr­ir því að hús­næðið sé rann­sakað á viðun­andi hátt, berj­ast fyr­ir sjálf­sögðum rétt­ind­um barna sinna. Það er skýr skylda okk­ar sem sitj­um í skóla- og frí­stundaráði að bregðast við þegar upp koma mál líkt og í Foss­vogs­skóla.

Hvaða áhrif hef­ur mygla á börn til framtíðar

Stóra spurn­ing­in núna er hins veg­ar hvaða áhrif mun þetta hafa til framtíðar á þau börn sem eru veik og munu önn­ur börn veikj­ast áður en búið er að taka á þessu. Þar sem skýrt er kveðið á um að það sé skylda borg­ar­inn­ar að búa börn­um og starfs­fólki hús­næði sem er full­nægj­andi hver er þá rétt­ur þeirra barna og starfs­manna sem hafa verið í hús­næði sem hef­ur ekki verið heilsu­sam­legt? Er Reykja­vík­ur­borg skaðabóta­skyld gagn­vart þeim sem hafa veikst? Og hvernig á núna að taka á þeim mikla vanda sem er í Foss­vogs­skóla?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. mars 2021.