Aldrei undir vald umræðustjóranna

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Á fimm ára af­mæli Vöku, fé­lags lýðræðissinnaðra stúd­enta árið 1940 gerði Bjarni Bene­dikts­son (eldri) eig­in­leika for­ystu­manna í stjórn­mál­um að um­tals­efni. Nú 81 ári síðar eiga ábend­ing­ar Bjarna er­indi til okk­ar sem höf­um lagt stjórn­mál fyr­ir okk­ur til lengri eða skemmri tíma.

Til að taka að sér for­sjá í mál­um þjóðar þarf alltaf mikla þekk­ingu: „Stjórn­mála­maður­inn verður m.a. að þekkja land sitt, gæði þess og tor­fær­ur, þjóð sína, kosti henn­ar og galla, viðskipti henn­ar við aðrar þjóðir og geta gert sér grein fyr­ir, hver áhrif at­b­urðir með þeim muni hafa á hag henn­ar,“ var boðskap­ur Bjarna til stúd­enta en bætti við: „Svo verður hann [stjórn­mála­maður­inn] að þekkja sjálf­an sig, mann­legt eðli, veil­ur þess og styrk­leika.“

Stjórn­mál­in eru ekki vís­indi, held­ur list­in að sjá hvað er mögu­legt á hverj­um tíma og fram­kvæma það. En það er ekki nægj­an­legt að koma auga á mögu­leik­ana held­ur verður stjórn­mála­maður­inn að hafa „skyn á að velja þann rétta“. En hann þarf einnig að hafa burði – kjark – „til að standa með því, sem maður tel­ur rétt, og þora að fram­kvæma það, hvað sem taut­ar“.

Freistni stjórn­mál­anna

Bjarni bend­ir á að þekk­ing­una á góðum stjórn­un­ar­hátt­um sé hægt að fá með námi en list­in að stjórna rétt og þrekið til að fylgja mál­um eft­ir lær­ist ekki og er fáum gefið.

Í huga Bjarna hlýt­ur starf stjórn­mála­manns­ins ætíð að verða erfitt en erfiðast þar sem lýðræði rík­ir: „Ann­ars staðar geta stjórn­mála­menn látið sér í léttu rúmi liggja, hverja dæg­ur­dóma störf þeirra fá. En í lýðræðislandi verður hver sá, sem halda vill áhrif­um sín­um, þ.e. sá, er trú­ir á eig­in málstað, að sann­færa al­menn­ing um, að ákv­arðanir hans og at­hafn­ir séu rétt­ar. Þetta leiðir þann, sem til for­ystu hef­ur verið sett­ur, eðli­lega oft í þá freistni að velja held­ur þá leiðina, sem al­menn­ingi er geðþekk­ari, held­ur en hina, sem for­ystumaður­inn tel­ur rétta. En um leið er for­yst­an far­in og stjórn­mála­maður­inn þar með bú­inn að bregðast skyldu sinni.“

Ára­tug­um síðar voru skila­boðin þau sömu. Í ára­móta­ávarpi 1969 sagði Bjarni, þá for­sæt­is­ráðherra: „Eng­in skömm er að því að falla vegna þess, að maður fylg­ir sann­fær­ingu sinni. Hitt er lít­il­mót­legt, að ját­ast und­ir það, sem sann­fær­ing, byggð á bestu fá­an­legri þekk­ingu, seg­ir að sé rangt.“

Virðing fyr­ir skoðunum

Í blaðagrein árið 1942 hélt Bjarni því fram að sá gerði lítið gagn í stjórn­mál­um sem ekki feng­ist við þau af ein­hverri innri þörf. Sjálf­ur hefði hann lagt stjórn­mál­in fyr­ir sig vegna þess að hann væri sann­færður um að ef ís­lensku þjóðinni ætti að vegna vel yrði sjálf­stæðis­stefn­an að ná fram að ganga. Hann hefði hins veg­ar oft strengt þess heit að hætta af­skipt­um af stjórn­mál­um: „En þegar til hef­ur átt að taka, þá hef­ur mér fund­ist ég vera minni maður, ef ég legði eigi fram krafta mína til þess að vinna fyr­ir það, sem ég álít rétt.“

Bjarni var sann­færður um að andi frels­is, jafn­rétt­is og lýðræðis væri Íslend­ing­um í blóð bor­inn. Í ávarpi á þjóðar­hátíðar­deg­in­um 1945 sagði hann meðal ann­ars: „Vís­vit­andi mun­um vér og seint feta í fót­spor þeirra, sem svipt hafa sjálfa sig rétt­in­um til gagn­rýni eða mögu­leik­an­um til að láta í ljós skoðanir sín­ar. Og fáir eru oss síður hneigðir til að sækja nokk­urt mál út í ystu æsar, né eru því and­víg­ari, að níðst sé á mönn­um eða sá mátt­ar­meiri láti kné fylgja kviði.“

En í dag­legu þrasi gleym­ist oft að „játa öðrum hið sama frelsi og vér heimt­um sjálf­um oss til handa“. „Þegar við virðum ekki skoðanir hver ann­ars er gengið gegn lýðræðinu, sem fær ekki staðist nema viður­kennt sé, að sjón­ar­miðin eru mörg og skoðan­irn­ar þar af leiðandi ólík­ar.“

Styrk­ur flokks

Þessi orð Bjarna Bene­dikts­son­ar eru góð áminn­ing til okk­ar sem berj­umst fyr­ir frelsi ein­stak­ling­anna til orðs og at­hafna und­ir merkj­um Sjálf­stæðis­flokks­ins og stönd­um vörð um sjálf­stæði þjóðar­inn­ar. Það hef­ur verið styrk­ur flokks­ins að virða ólík­ar skoðanir. Við höf­um ýtt und­ir rök­ræður og tek­ist á stund­um harka­lega á. Á lands­fund­um fær suðupott­ur hug­mynda að sjóða. Og það hef­ur oft verið magnað að verða vitni að því hvernig sam­keppni hug­mynda og hörð skoðana­skipti leysa úr læðingi póli­tísk­an kraft sem and­stæðing­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa aldrei skilið né staðist.

Kraft­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins felst í dag­skrár­valdi al­mennra flokks­manna sem skilja „að þótt þröng­sýni sé að neita, að sjón­ar­miðin séu mörg og skoðanir hljóti því að vera ólík­ar, þá er sú víðsýni mest að kunna að rata hinn gullna meðal­veg, svo að sem flest­ir megi vel við una,“ svo vitnað sé til orða Bjarna 17. júní 1945. Sá er þetta skrif­ar hef­ur haldið því fram að í öfl­ug­um stjórn­mála­flokki skilji flest­ir mik­il­vægi þess að stilla að lok­um sam­an strengi – að kon­ur og karl­ar, ung­ir og gaml­ir standi sam­an í bar­átt­unni um grunn­stef sjálf­stæðis­stefn­unn­ar.

Sjálf­stæðis­menn hafa því neitað að beygja sig und­ir vald umræðustjóra sam­tím­ans. Aldrei fallið í sömu gryfju og þeir sem helst kenna sig við umb­urðarlyndi og víðsýni en eiga erfitt með að bera virðingu fyr­ir and­stæðum skoðunum. Þeir vita að í þeirri gryfju glat­ar flokk­ur­inn til­gangi sín­um og verður hvorki upp­spretta nýrra hug­mynda eða hreyfiafl fram­fara.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. febrúar 2021.