Nokkrar vikur verða að sekúndum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Ávallt ber að stefna að því að bæta þjón­ustu hins op­in­bera, gera hana skil­vik­ari og ein­fald­ari. All­ir þeir sem fjár­fest hafa í hús­næði þekkja það að þurfa að þing­lýsa viðeig­andi papp­ír­um. Þing­lýs­ing­ar gegna þýðing­ar­miklu hlut­verki í fjár­mála- og viðskipta­lífi lands­manna. Það á ekki bara við um at­vinnu­rekst­ur held­ur einnig ein­stak­linga. Sá sem vill stofna til rétt­inda yfir eign get­ur bæði aflað veðbók­arvott­orða og rann­sakað fast­eigna­bæk­ur hjá sýslu­manni og gengið þannig úr skugga um hverj­ir eiga rétt­indi yfir eign­inni og hvaða kvaðir hvíla á henni.

Fram­kvæmd þing­lýs­inga hef­ur verið hand­virk fram að þessu. Á þessu ári verða ra­f­ræn­ar þing­lýs­ing­ar loks að veru­leika. Það mun ger­ast í nokkr­um skref­um. Ég bind von­ir við að áfanga­sigr­um fari fjölg­andi á næst­unni um leið og fyrstu ra­f­rænu færsl­urn­ar fara að ber­ast til þing­lýs­ing­ar og verk­efnið kemst á al­menni­legt skrið. Ra­f­ræn­ar af­lýs­ing­ar, sem telja um 40% skjala hjá sýslu­manni, eru nú þegar til­bún­ar til notk­un­ar og fjár­mála­stofn­an­ir geta nýtt sér þá lausn.

Ný fram­kvæmd mun auka ör­yggi í viðskipt­um og um leið stytta af­greiðslu­tím­ann til muna. Þing­lýs­ing­in verður að jafnaði fram­kvæmd á fá­ein­um sek­únd­um með sjálf­virkri ákv­arðana­töku þing­lýs­inga­kerf­is­ins. Það er ekki á hverj­um degi sem við sjá­um af­greiðslu rík­is­ins stytta úr nokkr­um vik­um niður í nokkr­ar sek­únd­ur en það á svo sann­ar­lega við hér.

Ra­f­ræn­ar þing­lýs­ing­ar munu ótví­rætt leiða til hagræðing­ar fyr­ir sam­fé­lagið í heild og þá einkum fyr­ir þá sem koma að þing­lýs­ing­um og byggja rétt sinn á þing­lýs­ingu. Áætlaður ár­leg­ur ávinn­ing­ur rík­is­ins, fyr­ir­tækja, banka, líf­eyr­is­sjóða og annarra aðila er á bil­inu 1,2 – 1,7 millj­arðar króna. Erfitt er að meta ann­an ávinn­ing, svo sem tímasparnað fyr­ir ein­stak­linga og fyr­ir­tæki, en hann er ótví­ræður þegar við snú­um frá fornri fram­kvæmd að nú­tíma­leg­um og sta­f­ræn­um stjórn­sýslu­hátt­um.

Stjórn­völd eiga að bjóða upp á framúrsk­ar­andi þjón­ustu, skjóta af­greiðslu mála og ein­fald­ar lausn­ir þar sem það á við, líkt og í þessu til­viki. Okk­ur ber ætíð að leita leiða til að ein­falda líf bæði al­menn­ings og fyr­ir­tækja og það má ekki vera þannig að ríkið sé Þránd­ur í götu hefðbund­inna viðskipta. Stjórn­end­ur fyr­ir­tækja í sam­keppn­is­rekstri átta sig flest­ir á því að þó svo að hlut­irn­ir hafi einu sinni verði gerðir með ein­hverj­um ákveðnum hætti þá þýðir það ekki að þannig þurfi það alltaf að vera, sér­stak­lega þegar betra fyr­ir­komu­lag er fyr­ir hendi. Þeir verða að til­einka sér nýja tækni og laga sig að breytt­um aðstæðum. Hlut­verk okk­ar stjórn­mála­manna er að ein­falda líf fólks og tryggja að ríkið og þjón­ustu­stofn­an­ir þess drag­ist ekki aft­ur úr held­ur sinni verk­efn­um sín­um eins og best verður á kosið hverju sinni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. janúar 2021.