Ólöglegar og villandi gangbrautir

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Umferðaröryggi barna er einn mikilvægasti þáttur umhverfismótunar í þéttbýli. Í þeim efnum ber að forgangsraða í þágu yngstu vegfarendanna. Það ætti að vera forgangsatriði að lagfæra gangbrautir á gönguleiðum barna til og frá skóla og koma þar upp skiltum og góðri lýsingu eins og lög kveða á um. Í borginni er víða pottur brotinn í þessum efnum, Grafarvogurinn er því miður engin undantekning. Lengi hefur verið bent á að þar þurfi víða að bæta umferðaröryggi, einkum á leiðum barna til og frá skóla.

Gerð var úttekt á umferðaröryggismálum í Grafarvogi árið 2014, tekin saman skýrsla um helstu slysastaði og lagðar fram tillögur að úrbótum. Skýrslan var afhent borgaryfirvöldum en hefur líklega rykfallið í skúffum borgarkerfisins þar sem enn bólar nánast ekkert á nauðsynlegum úrbótum. Sama er að segja um þær samgöngubætur sem lofað var þegar Korpuskóla var lokað. Þær áttu að tryggja umferðaröryggi barna úr Staðarhverfi á leið í og úr skóla. Þeim framkvæmdum átti að vera lokið fyrir skólabyrjun en er enn ekki lokið.

Nýr tæknibúnaður skynjar þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikir LED götulýsingu. Þá kviknar einnig lýsing í gangbrautarmerkinu og viðvörunarljós fyrir akandi umferð.

Það er því miður ljóst að umferðarlögum og reglugerðum hefur ekki verið fylgt eftir við gerð gangbrauta í Reykjavík. Samkvæmt umferðarlögum eiga gangbrautarmerkingar að vera Zebramerktar en slíkar gangbrautir eru orðnar fáséðar í Reykjavík. Auk þess vantar gagnbrautaskilti mjög víða sem og lýsingu við gangbrautir. Mikið ósamræmi er í gönguþverunum um alla borg og ekki síst í Grafarvogi. Ýmsar útfærslur eru notaðar eins t.d. upphækkanir, götumynstur í alls konar litum og með alls konar afbrigðum, götukoddar og línur og sums staðar eru alls engar merkingar þar sem gert er ráð fyrir gönguþverunum. Allt misræmi í merkingum gönguþverana eru í raun alvarleg lögbrot því það dregur úr umferðaröryggi gangandi vegfarenda.

Fram hafa komið tækninýjungar sem bæta umferðaröryggi gangandi vegfarenda til muna. Má þar nefna tækni sem gerir gangandi vegfarendur sýnilegri þegar þeir fara yfir gangbrautir. Um er að ræða tæknibúnað sem skynjar þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikir þá LED götulýsingu. Þá kviknar einnig lýsing í gangbrautarmerkinu og viðvörunarljós fyrir akandi umferð. Slíkum gangbrautum verður komið upp á fimm stöðum í borginni að tillögu okkar sjálfstæðismanna í borgarstjórn og verður Fjallkonuvegur í Grafarvogi einn þeirra staða. En ef vel á að vera ætti að nýta slíka tækni við allar gangbrautir til að tryggja öryggi gangandi vegfarenda í svartasta skammdeginu. Ekki veitir af. Það á illa við að hvetja börn og unglinga til að ganga og hjóla í skóla og frístundir ef borgaryfirvöld gera ekki það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja sem best umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu 13. janúar 2021.