Viet Nam, Perdue

Vilhjálmur Bjarnason með blómum skreyttum Ho Chi Minh í Hanoi.
Mynd af nakinni stúlku að flýja napalmárás hafði mikil áhrif. Hún heitir Phan Thi Kim Phuc og varð velgjörðarsendiherra UNESCO.
Viet Nam-stríðinu lokið. Síðustu Bandaríkjamennirnir komnir frá Saigon um borð í flugvélamóðurskip.
Viet Cong-liði bíður yfirheyrslu fullur skelfingar. Ekki er vitað hvað varð um hann.
Nguyen Ngoc Loan lögregluforingi skýtur Viet Cong-liðann Nguyen Van Lém. Loan varð veitingamaður í Virginíu.

Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður skrifar:

Hinn frjálsi heimur er alls ekki gefinn og sjálfsagður. Sá er þetta ritar ólst upp þar sem hinn frjálsi heimur var allur í litlum hluta veraldar. Leiðtogar hins frjálsa heims voru þrír, hershöfðinginn Dwight D. Eisenhower og stjórnmálamennirnir Harold Macmillan í Bretlandi og Konrad Adenauer í Vestur-Þýskalandi. Þeir voru heimilisvinir í útvarpinu. Orð þeirra og gerðir voru í útvarpinu frá því snemma á morgnana. Skömmu síðar kom Charles de Gaulle, eftir endurkomu til valda, þegar hershöfðinginn hafði kallað landa sína til hlýðni við sig.

Þessu til viðbótar fylgdi oftar en ekki hvað var helst í Lundúnafréttum þennan morgun, eftir að leikinn hafði verið „Menuit“ eftir Boccherini.

Þessir fjórir heiðursmenn tóku sér það hlutverk að byggja upp Evrópu með stuðningi Marshall-áætlunarinnar, sem nefnd hefur verið »hornsteinn hagsældar« í Evrópu. Áætlunin er nefnd eftir bandaríska hershöfðingjanum og utanríkisráðherranum George C. Marshall, sett fram til að koma í veg fyrir að öfgaöfl næðu fótfestu í Evrópu að lokinni styrjöldinni.

Viet Nam

Utan hins frjálsa heims í Evrópu voru nýlendur Breta og Frakka í Afríku og Asíu. Þegar þær fengu frelsi varð til stjórnarfar af öllu tagi. Frakkland var nýlenduveldi. Ein nýlenda varð þeim óleysanlegt vandamál. Það var sá hluti Indo-Kína sem hét Viet-Nam.

Með samkomulagi kenndu við Genf frá 1954 var Viet-Nam skipt í tvo hluta, Norður-Viet-Nam og Suður-Viet-Nam. Kambodía og Laos fengu sjálfstæði en áttu í ýmsum erfiðleikum. Frakkar gáfu Indo-Kína eftir en „vandamálið“  var alls ekki úr sögunni. Afskipti Bandaríkjanna af Viet-Nam eru talin hafa hafist af alvöru 1955, afskipti sem stigmögnuðust í Viet-Nam-stríðinu, allt þar til yfir lauk 1975.

Fyrir utan fimm forseta Bandaríkjanna stjórnuðu hershöfðingjarnir Maxwell Taylor og William Westmoreland styrjaldarrekstri á staðnum. Sendiherra Bandaríkjanna í Saigon var lengst af Henry Cabot Lodge, reyndur stjórnmálamaður.

Varnarmálaráðherra Kennedy forseta, Robert McNamara, sá er endurreisti Ford-bifreiðaframleiðandann, viðurkenndi síðar að styrjaldarreksturinn hafi verið vonlaus frá upphafi.

Styrjaldarrekstrinum lauk með því að síðustu Bandaríkjamennirnir, ásamt sendiherranum, Graham Martin, komust undan með þyrlum af þaki bandaríska sendiráðsins í Saigon, um borð í flugmóðurskip á Tonkin-flóa. Þyrlum var hent í sjóinn til að sú næsta gæti lent.

Útvarp Reykjavík tilkynnti snemma morguns í lok apríl 1975, „Viet Nam-stríðinu lauk í nótt“.

Upplifun greinarhöfundar

Greinarhöfundur kom til Hanoi um miðja nótt haustið 2016. Á leið frá flugvelli til hótels, sem stóð af sér styrjöldina, var myrkur svo langt sem augað eygði. Í huga kom: »Hvað voru Bandaríkjamenn að gera hér?« »Hvert voru þeir komnir?« »Hvað vissu þeir 58.209 hermenn, sem féllu í Viet-Nam-stríðinu um tilgang stríðsins?« Stigmögnun: „Við höfum misst 40.000 unga menn, við verðum að klára stríðið.“  Perdue! Stríðið tapað!

Áhrif ljósmynda

Stríð var rekið í »beinni útsendingu«. Sjónvarpsstöðvar lýstu atburðum. Fréttaljósmyndarar voru nærri vígvellinum. Fréttamyndir breyttu almenningsálitinu í hinum frjálsa heimi. Bandarískri millistétt var nóg boðið.

Þessar ljósmyndir bættust við herafla bændaþjóðar í Viet-Nam. Nakta stúlkan á myndinni, Phan Thi Kim Phuc, lifði styrjöldina af. Hún er nú velgjörðarsendiherra UNESCO.

Nguyen Ngoc Loan gerðist veitingamaður í Bandaríkjunum eftir að hafa skotið Viet Cong-liðann Nguyen Van Lem. Ekki er vitað um örlög þess, sem bíður yfirheyrslu.

Ljósmyndir voru áhrifameiri en allur herafli Bandaríkjamanna. Viet-Nam stefnir hratt í að verða iðnaðarveldi, með verulegan greiðsluafgang og fjárhagslegt sjálfstæði.

Skáld orti

Þá er forsætisráðherra lagði blómsveig við grafhýsi Ho frænda orti íslenskt skáld;

Hverfull og skrítinn er heimurinn,

hugsjónir ganga úr skorðum.

Heiðrar nú Davíð Ho Chi Minh.

Hver hefði trúað því forðum?

(Stefán Vilhjálmsson)

 

Grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu föstudaginn 15. janúar 2021.