Íslenska bjartsýnin

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Lífs­ham­ingj­an ræðst að litlu leyti af því sem hend­ir okk­ur, en mestu leyti af viðhorf­um okk­ar og viðbrögðum. Lífs­leiðin er vandrataður veg­ur en já­kvæðni er góður veg­vís­ir.Lít­il en stór­huga þjóð á norður­hjara ver­ald­ar – vogskor­inni eyju á berangri Atlants­hafs­ins – byggði lífs­björg liðinna tíma á vænt­ing­um um bjart­ari daga. Íslensk tunga ber þess víða merki, enda skír­skot­ar tungu­málið gjarn­an til já­kvæðni og bjart­sýni. Fátt er nefni­lega svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Bót fylg­ir böli hverju og öll él birt­ir upp um síðir.

Fáir kveðja liðið ár með söknuði. Ástvinam­iss­ir, heilsu­brest­ur og at­vinnu­leysi urðu mörg­um áfall. Fólk missti heim­ili sín, lífsviður­værið og ör­yggið. Úr áföll­un­um verður ekki lítið gert. Þjóðin hélt í óvissu­för upp mik­inn bratta en af bjart­sýni má vona að ferðalagið framund­an verði aflíðandi veg­ferð í átt að betri tíð. Verk­efn­in framund­an verða krefj­andi – en með réttu hug­ar­fari má draga lær­dóm og leita tæki­færa. Um þetta ber dæmi­sag­an af ferðamann­in­um og heima­mann­in­um ágætt vitni.

Eft­ir stutta dvöl í fjallaþorpi gekk ferðamaður niður fjalls­hlíð í átt að sjáv­arþorpi. Á niður­leiðinni mætti hann heima­manni og tóku þeir tal sam­an. Ferðamaður­inn sagðist á leið til sjáv­arþorps­ins og spurði við hverju mætti bú­ast. Heimamaður­inn spurði hvaðan ferðamaður­inn væri að koma og hvernig hon­um hefði líkað. Ferðamaður­inn sagðist ný­kom­inn úr fjallaþorp­inu og reynsl­an hefði verið hrein hörm­ung. Hann hefði ekki skilið tungu­málið, hefði verið lát­inn sofa á mold­argólfi, veðrið hefði verið skelfi­legt og mat­ur­inn hreinn viðbjóður. Heimamaður­inn svaraði á þá leið að senni­lega yrði upp­lif­un hans af sjáv­arþorp­inu hin sama.

Örfá­um klukku­stund­um síðar geng­ur ann­ar ferðamaður niður fjalls­hlíðina í átt að sjáv­arþorp­inu. Hann mæt­ir heima­mann­in­um og spyr við hverju megi bú­ast í sjáv­arþorp­inu. Heimamaður­inn spyr hvaðan ferðamaður­inn hafi verið að koma og hvernig hon­um hefði líkað. Ferðamaður­inn sagðist ný­kom­inn úr fjallaþorp­inu og reynsl­an hefði verið stór­kost­leg. Hann hefði ekki skilið tungu­málið svo öll sam­skipti hefðu farið fram með áhuga­verðum handa­hreyf­ing­um, hann hefði verið lát­inn sofa á mold­argólfi sem hefði verið ógleym­an­leg lífs­reynsla og veðrið hefði verið slæmt sem hefði gert dvöl­ina eft­ir­minni­legri. Jafn­framt hefði mat­ur­inn verið sér­kenni­leg­ur en áhuga­vert hefði verið að setja sig inn í all­ar aðstæður heima­manna. Heimamaður­inn svaraði á þá leið að senni­lega yrði upp­lif­un hans af sjáv­arþorp­inu sú sama.

Við velj­um ekki all­ar aðstæður okk­ar en við eig­um val um viðbrögð. Lífs­ham­ingj­an ræðst að litlu leyti af því sem hend­ir okk­ur, en mestu leyti af viðhorf­um okk­ar og viðbrögðum. Lífs­leiðin er vandrataður veg­ur en já­kvæðni er góður veg­vís­ir.

Góður dag­ur byrj­ar að morgni. Nýtt ár slær nýj­an tón. Verk­efn­in fram und­an eru ærin en í þeim fel­ast jafn­framt fjöl­mörg tæki­færi. Horf­um björt­um aug­um fram á veg­inn. Hin ís­lenska bjart­sýni mun koma okk­ur langt. Gleðilegt ár.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. janúar 2021.