Á eigin skinni

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Skattheimta á að vera sanngjörn, hvetjandi og gagnsæ. Stefnan er einföld og skýr og við hana höfum við staðið undanfarin ár, ekki síst á því nýliðna.

Þessi gildi munu áfram ráða för og það er ekki þrátt fyrir yfirstandandi þrengingar, heldur ekki síst vegna þeirra. Þannig felst leiðin út úr kórónukreppunni ekki í auknum álögum á heimili og fyrirtæki, heldur þvert á móti í að létta þeim róðurinn til að komast í gegnum erfiðasta tímann. Í þessum anda hafa nýlegar breytingar verið og nú í upphafi árs taka gildi fjölmargar skattalækkanir fyrir heimili og fyrirtæki, auk nýrra og framlengdra hvata.

Stöðug lækkun skatta

Undanfarið höfum við verið á skýrri vegferð skattalækkana og nú um áramótin tók gildi seinni áfangi breytinga á tekjuskatti einstaklinga. Þannig lækkaði grunnþrep tekjuskatts, að teknu tilliti til meðalútsvars, úr 35,04% í 31,45%. Hlutfallið var 36,94% árið 2019. Samhliða hækkuðu þrepamörk upp í miðþrep tekjuskatts úr 337 þúsund krónum á mánuði í 349 þúsund krónur, og þrepamörk í háþrepi úr 945 þúsund krónum á mánuði í 979 þúsund krónur.

Með þessu lækkar skattbyrði allra, mest hjá þeim tekjulægstu, og ráðstöfunartekjur aukast verulega. Sama markmið býr að baki hækkun á neðri skerðingarmörkum vegna barnabóta sem tók gildi á sama tíma, en við þær breytingar aukast ráðstöfunartekjur foreldra sem á bæturnar treysta um allt að 15%.

Enn fremur hækka skattleysismörk erfðafjárskatts úr 1,5 milljónum króna í 5 milljónir og munu mörkin framvegis taka árlegri breytingu miðað við þróun vísitölu neysluverðs. Þá lækka krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi, tóbak o.fl. að raungildi, en hækkun ársins er minni en sem nemur verðbólgu frá síðustu uppfærslu.

Loks má nefna að jafnræði hefur nú verið komið á í skattlagningu söluhagnaðar sumarhúsa og auka íbúða, en um langt skeið hefur söluhagnaður sumarhúsa, ólíkt því sem gildir um aðra fasteign í sömu eigu, verið skattskyldur án undantekninga. Hinn skattlagði söluhagnaður hefur svo aftur leitt til bótaskerðingar sem bitnaði sérlega þungt á eldri borgurum.

Hvatar fyrir fólk og fyrirtæki

Auk þess að lækka álögur á einstaklinga hefur vinna síðustu mánaða ekki síst snúist um að skapa umhverfi þar sem fyrirtæki geta vaxið og ráðið starfsfólk. Þannig lækkar almennt tryggingagjald nú tímabundið úr 4,9% í 4,65%, en tryggingagjald í heild lækkar því úr 6,35% í 6,1%. Gjaldið hefur lækkað stöðugt undanfarin ár, en til samanburðar stóð það í 8,65% við upphaf árs 2013 og í 7,35% í upphafi árs 2016.

Þá hafa heimildir fyrir launagreiðendur til að fresta staðgreiðslu opinberra gjalda verið framlengdar, auk þess sem þingið samþykkti fyrir jól að auknar endurgreiðslur virðisaukaskatts myndu gilda áfram út árið 2021. Endurgreiðslurnar ná til fjölmargra þátta, en þar má nefna vinnu og viðhald við húsnæði, heimilishjálp og bílaviðgerðir.

Stuðningur við atvinnulífið felst þó ekki einungis í beinum aðgerðum í þágu fyrirtækja, heldur ekki síst í hvötum fyrir almenning til að taka þátt í viðspyrnunni. Í því augnamiði nær frítekjumark vaxtatekna einnig til arðs og söluhagnaðar hlutabréfa skráðra félaga, hvort sem er á aðalmarkaði Kauphallarinnar eða First North markaðstorginu, auk þess sem þakið var hækkað úr 150 þúsund krónum í 300 þúsund nú um áramót.

Afleiðingin er stóraukinn hvati almennings til að fjárfesta með tilheyrandi innspýtingu fyrir atvinnulífið og fjölbreyttari sparnaðarleiðum fyrir einstaklinga. Með fyrirhugaðri sölu hluta í Íslandsbanka í opnu útboði fjölgar svo fjárfestingarkostum almennings enn frekar.

Loks má nefna mál sem nú liggur fyrir Alþingi, þar sem lögð er til stóraukin frádráttarheimild frá skatti fyrir fyrirtæki og ný frádráttarheimild fyrir einstaklinga vegna framlaga til almannaheillastarfsemi. Með breytingunum stendur til að breikka tekjustofn almannaheillafélaga og auka á sama tíma frelsi einstaklinga til að ráðstafa fjármunum sínum án milligöngu ríkisins.

Hvert renna peningarnir?

Að lokum er vert að víkja að gagnsæinu sem áður var nefnt. Það er eðlileg og sjálfsögð krafa að sjá skýra mynd af því hvert fjármunir sem greiddir eru í skatta renna í raun. Það var veruleg framför þegar sundurliðun á greiðslum til ríkisins í formi tekjuskatts annars vegar og til sveitarfélags í formi útsvars hins vegar varð fyrst að veruleika á álagningarseðlum árið 2018.

Með rafrænum framtölum og stöðugri stafrænni þróun hjá hinu opinbera eru hins vegar tækifæri til að ganga umtalsvert lengra í upplýsingagjöf. Í þessu samhengi má líta til ástralska ríkisins, en á álagningarseðlum sínum sjá þarlendir skattgreiðendur sundurliðun upphæða og málaflokka sem skattgreiðslur þeirra renna til niður á dollara. Vinna við sams konar lausn hér á landi er þegar hafin í samstarfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Skattsins og ég hlakka til að kynna afraksturinn fyrr en síðar.

Á sömu braut

Leiðin út úr yfirstandandi þrengingum felst ekki í útþenslu hins opinbera, heldur öflugri verðmætasköpun atvinnulífsins sem rennir styrkum stoðum undir samkeppnishæft þjóðfélag. Þess vegna ætlum við að halda áfram á sömu braut skattalækkana og stuðningsúrræða á nýju ári. Með öflugum stuðningi og hvetjandi umhverfi mun einkaframtakið taka myndarlega við sér og viðsnúningurinn verður hraður samhliða því sem birtir til á næstu mánuðum. Afraksturinn finnum við öll, á eigin skinni.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum 6. janúar 2021.