Tollasamningur Íslands og ESB um landbúnaðarvörur verði endurskoðaður

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur óskað eftir því við Evrópusambandið að tollasamningur Íslands og ESB um landbúnaðarvörur verði endurskoðaður. Úttekt sýnir að forsendur samingsins hafa breyst og ójafnvægi er á milli samningsaðila, íslenskum útflytjendum í óhag.

Markmið tollasamningsins frá 2015 er að skapa tækifæri til aukinna viðskipta milli Íslands og ESB en hann hvílir á þeirri forsendu að jafnvægi sé á milli samningsaðila. Fyrr á þessu ári samþykkti ríkisstjórnin að utanríkisráðuneytið og atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið skyldu gera úttekt á hagsmunum Íslands af óbreyttum samningi með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa frá gildistöku hans. Úttektin var unnin í nánu samráði við hagsmunaaðila, forsvarsmenn bænda og afurðastöðva, verslunar og þjónustu, verkalýðshreyfinguna og samtök neytenda.

Niðurstaða úttektarinnar er að verulegt ójafnvægi ríkir í samninginum. Nýting íslenskra útflytjenda á kvótum til ESB er í flestum tilfellum lítil eða engin á meðan tollkvótar til innflutnings frá ESB hafa nær allir verið fullnýttir og umtalsvert magn flutt inn utan kvóta. Efnahagslegt mat utanaðkomandi ráðgjafa frá síðastliðnu vori og vitnað er til í úttektinni staðfestir þetta.

Sjá nánar frétt á vef utanríkisráðuneytisins hér.