Stefnt að sölu eignarhluta í Íslandsbanka á vormánuðum

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur fallist á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu á eignarhlutum í Íslandsbanka. Í því felst að ráðherra útbýr nú greinargerð sem lögð verður fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, auk þess að óska umsagnar Seðlabanka Íslands í samræmi við ákvæði laga.

Stefnt er að því að selja hlutina í almennu útboði og skrá öll hlutabréf í bankanum í kjölfarið á skipulegan verðbréfamarkað á Íslandi. Áformin eru í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en Íslandsbanki er í dag alfarið í eigu ríkisins.

Þróun á fjármálamörkuðum og afkomu bankans undanfarna mánuði styður við tillögu um að hefja sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Með söluferlinu fjölgar fjárfestingarkostum á markaði, en undanfarna mánuði hafa farið fram farsæl hlutabréfaútboð innanlands með mikilli þátttöku almennings.

„Í þessu samhengi má einnig líta til gengis bréfa í Arion banka, en bréf í bankanum hafa hækkað umfram innlenda hlutabréfamarkaðinn á árinu og er gengi þeirra um þessar mundir með því hæsta sem verið hefur frá skráningu á markað sumarið 2018. Það gefur óneitanlega góð fyrirheit“ segir Bjarni.

Lengi hefur verið talið mikilvægt að draga úr áhættu ríkisins í rekstri fjármálafyrirtækja með því að minnka eignarhald þess í bankakerfinu, sem í dag er það umfangsmesta í Evrópu. Með því að draga úr eignarhaldi ríkisins er jafnframt stuðlað að aukinni samkeppni og áframhaldandi áhersla lögð á traust, heilbrigt og hagkvæmt bankakerfi

Stefnt er að því að selja hlutina í almennu útboði og skrá öll hlutabréf í bankanum í kjölfarið á skipulegan verðbréfamarkað á Íslandi. Áformin eru í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en Íslandsbanki er í dag alfarið í eigu ríkisins.

Helstu markmið:

  • að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu;
  • að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði;
  • að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum;
  • að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma;
  • að auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta; og ekki síst
  • að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga.

Rétt þykir að undirbúa söluferli á þessum tímapunkti í ljósi góðrar stöðu bankans og hagfelldra aðstæðna á markaði. Eigið fé Íslandsbanka er nú metið á um 182 ma.kr., en í minnisblaði Bankasýslu ríkisins er lagt til að tekin verði ákvörðun um stærð hlutarins sem boðinn verður til sölu á síðari stigum söluferlis, með hliðsjón af áætlaðri eftirspurn. Stefnt er að því að útboð geti farið fram á vormánuðum, en málið hefur fengið ítarlega umfjöllun í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins og var rætt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Rétti tíminn til að selja

Tímasetningin er einnig hagfelld með tilliti til þess að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveirunnar. Þannig hafa stjórnvöld undanfarna mánuði ráðist í tugmilljarða aðgerðir sem felast bæði í beinum stuðningi, skattalegum aðgerðum og opinberum fjárfestingum.

Við það bætist umtalsverður samdráttur í skatttekjum, en gert er ráð fyrir um 320 milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs árið 2021.

„Með sölunni mildum við höggið af kórónukreppunni umtalsvert auk þess sem hún auðveldar okkur að fjármagna áframhaldandi aðgerðir fyrir fólk og fyrirtæki“ segir Bjarni.

Sjá nánar í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins hér.