„Með tillögunum í frumvarpinu sendum við skýr skilaboð til þeirra þúsunda sjálfboðaliða sem starfa við almannaheillastarfsemi um allt land og segjum einfaldlega, takk fyrir okkur,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra um frumvarp sem hann hefur nýlega mælt fyrir á Alþingi um framlög einstaklinga og atvinnurekenda til almannaheillastarfsemi.
Með frumvarpinu er lagt til að einstaklingum verði heimilt að draga framlög til almannaheillastarfsemi fyrir allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum sínum utan atvinnurekstrar. Samkvæmt frumvarpinu ber þeim sem styrkja almannaheillastarfsemi með þessum hætti að fá móttökukvittun frá móttakanda styrksins, en móttakandi sendir Skattinum í kjölfarið nauðsynlegar upplýsingar um gjafir eða framlög frá einstaklingum á hverju almanaksári. Umræddar upplýsingar eru í framhaldinu forskráðar á skattframtal einstaklings vegna næstliðins tekjuárs.
Enn fremur er lagt til að atvinnurekendur geti dregið framlög sem nema allt að 1,5% af árstekjum frá skattskyldum tekjum sínum, en hlutfallið er nú 0,75%.
Fjölþættar undanþágur frá skattgreiðslum
Samhliða auknum hvötum til að styðja við almannaheillastarfsemi eru lagðar til ýmsar undanþágur frá greiðslu skatta fyrir slíka aðila. Þannig er lagt til að þeir verði undanþegnir greiðslu tekjuskatts og staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum, auk undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts með nánar tilgreindum skilyrðum.
Enn fremur er lagt til að aðilar sem starfa til almannaheilla verði undanþegnir greiðslu stimpilgjalda og geti auk þess sótt endurgreiðslu allt að 60% greidds virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra. Þá er lögð til undanþága frá greiðslu erfðafjárskatts af gjöfum til aðila í almannaheillastarfsemi.
Breytingar í samræmi við umhverfið í nágrannalöndum
Samhliða framangreindum breytingum er lagt til að hugtakið almannaheill verði tekið upp í 4. grein laga um tekjuskatt í stað orðsins almenningsheill. Enn fremur er nánar tilgreint í ákvæðinu hvaða aðilar falla undir skilgreininguna, en til þeirra teljast meðal annars ýmis mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og íþróttastarfsemi, björgunarsveitir og neytenda- og forvarnarstarfsemi.
Verði frumvarpið að lögum eru breytingarnar taldar munu hafa neikvæð áhrif á skatttekjur ríkissjóðs sem nemur um 2 milljörðum króna á ári, en áhrifin eru ótímabundin.