Hvað varðar lífeyrissjóði um þjóðarhag?

Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður skrifar:

Það kann að vera nokkuð stórfenglegt að spyrja þeirrar spurningar sem felst í fyrirsögninni. Það er því rétt að svara spurningunni strax. Svarið er einfaldlega nei. Lífeyrissjóði varðar ekkert um þjóðarhag. Lífeyrissjóðir eru ekki hækjur við hagstjórn.

Lífeyrissjóðir hafa aðeins einn tilgang en hann er að tryggja sjóðfélögum lífeyri þegar starfsævi er lokið eða örorkulífeyri ef örorku ber að höndum.

Það gerist oft í umræðu um málefni og vandamál óskyld lífeyrissjóðum, að það sé talið verðugt eða viðeigandi að lífeyrissjóðir taki þátt í úrlausn vandamáls.

Þannig varð hagvöxtur eitt sinn umræðuefni á Alþingi. Umræðan tengdist auknum heimildum lífeyrissjóða að fjárfesta í óskráðum verðbréfum, einkum verðbréfum tengdum fyrirtækjum með óþekkta viðskiptasögu.

Þá taldi þingmaður nokkur það siðferðilega skyldu lífeyrissjóða að standa undir hagvexti á Íslandi á komandi árum. Annar þingmaður taldi það vera kröfu skattgreiðenda að lífeyrissjóðir stæðu undir hagvexti og stunduðu áhættufjárfestingar.

Áhættufjárfestingar í fyrirtækjum eða starfsemi með óþekkta rekstrarsögu er nákvæmlega það sem lífeyrissjóðir skulu forðast. Lífeyrissjóðir verða fyrst hættulegir þegar ákvarðanir um fjárfestingar eru teknar af þeim sem ekki hafa vit til.

Peningamálastjórn og lífeyrissjóðir

Nú er svo komið að ýmsir minni háttar menn hafa skyndilega orðið vit á peningamálastjórn.

Það er rétt að rifja upp grunnþætti peningamálastjórnar. Seðlabankar víða um lönd beita tækjum sínum á fjármálamarkaði til að viðhalda stöðugleika. Seðlabankar hafa fyrst og fremst áhrif á vexti af skammtímalánum.

Peningamálastefna getur tæpast ráðið við að ná fullri nýtingu framleiðsluþátta, eins og að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Seðlabanki getur stutt við að halda aftur af verðbólgu með verðstöðugleika og að viðhalda traustu fjármálakerfi.

Í sumum löndum geta seðlabankar ekki ráðið við að viðhalda verðgildi gjaldmiðils gagnvart öðrum myntum. Með verðgildi gagnvart örðum myntum er átt við fast gengi gjaldmiðils. Ef viðskipti og inngrip seðlabanka á gjaldeyrismarkaði er helsti áhrifaþáttur um gengi gjaldmiðils, þá kann það að vera vísbending um gjaldmiðilinn sjálfan.

Það er langsótt að verkfæri seðlabanka, þ.e. vextir á skammtímamarkaði, peningamagn eða viðskipti með ríkisvíxla og ríkisskuldabréf, eigi að valda greiðsluerfiðleikum fyrirtækja og einstaklinga vegna langtímalána.

Fyrirtæki og einstaklingar geta ekki borið ábyrgð á árangri peningamálastefnu seðlabanka. Fyrirtæki og einstaklinga varðar ekkert um þjóðarhag. Fyrirtæki og einstaklinga varðar um eigin hag, en verða að vera viðbúin eðlilegum aðgerðum seðlabanka.

Lífeyrissjóðir og gengi gjaldmiðla

Lífeyrissjóðir geta ekki borið ábyrgð á gengi gjaldmiðla. Sem fyrr segir ber lífeyrissjóðum að tryggja sjóðfélögum lífeyri. Hluti af áhættustýringu lífeyrissjóða er að koma í veg fyrir eignabólu á heimamarkaði. Stærðar sinnar vegna verða lífeyrissjóðir því að festa umtalsverðan hluta eigna sinna í erlendum verðbréfum, því í gríðarstórum heimi er lítil hætta á eignabólu í samanburði við íslenskar eignabólur.

Seðlabanki getur því aldrei vænst þess að lífeyrissjóðir hagi fjárfestingum sínum að geðþótta seðlabanka. Það að heimila ekki lífeyrissjóðum að fjárfesta í erlendum verðbréfum sýnir annaðhvort veikleika í peningamálastefnunni eða veikleika gjaldmiðilsins, nema hvort tveggja sé. Eindregin tilmæli eru sama eðlis.

Eitt sinn þegar hér voru gjaldeyrishöft sögðu ungir menn í riti:

  • „Lífeyrissparnaður í erlendri mynt er forsenda þess að halda stöðugleika á smærri myntsvæðum þar sem hlutdeild innflutnings er tiltölulega mikil af neyslu og sjóðasöfnun er ráðandi lífeyrisform. Hægt er að leiða út þá einföldu þumalfingursreglu að lífeyrissparnaður eigi að hafa sömu myntsamsetningu og almenn einkaneysla viðkomandi lands sem fyrir Ísland er um 40-50%. Hægt er að líta á þetta hlutfall sem lágmarkshlutfall erlendra eigna í safni íslenskra lífeyrissjóða.“

Nú virðist sem gjaldeyriseign Seðlabankans sé um 98% af niðurstöðutölu efnahagsreiknings Seðlabanka Íslands.

Fjárfestingarheimildir seðlabanka og lífeyrissjóða erlendis eru mismunandi og eru heimildir seðlabanka til muna þrengri. Erlendar eignir lífeyrissjóða eru einnig gjaldeyrisvarasjóður.

Samkomur seðlabankastjóra með stjórnendum lífeyrissjóða geta aldrei orðið annað en saklausir kaffifundir því seðlabanki hefur ekki boðvald yfir lífeyrissjóðum.

Ef seðlabankastjóri boðar til fundar um peningamálastefnu með lífeyrissjóðum, þá er það annaðhvort til almennrar kynningar eða þá að það kann að vera merki þess að veikleiki sé í stjórn peningamála og að lífeyrissjóðir verði að vera hækja.

Lífeyrissjóðir og kaupmáttur

Liðin þrjátíu ár hafa verið mikið hagsældarskeið. Með því að leggja mælikvarða kaupmáttar launa á hagsæld kemur eftirfarandi út, sjá töflu:

Kaupmáttarbreyting launa á ári síðan  
 
1990 2,07%  
1993 2,37%  
2013 4,46%  
2017 3,20%  
     
Heimild; Hagstofa Íslands
útreikingar V B  

 

Á lengri tímabilunum var böl og alheimsstríð með hruni fjármálakerfisins. Þá töpuðu lífeyrissjóðir sennilega um 15% af eignum sínum. Ungu mennirnir segja einnig í riti sínu:

  • „Ef Íslandi er alvara að ætla að tengjast aftur alþjóðahagkerfinu verða þessi þægindi mögulega að víkja tímabundið á meðan unnið er að því að opna aftur gjaldeyrismarkaðinn. Íslendingar verða líka að horfast í augu við það að með lítinn frjálsan gjaldmiðil er erfitt að lofa stöðugum kaupmætti, lágri verðbólgu og fyrirsjáanlegri greiðslubyrði húsnæðislána.“

Ekki er víst að lífeyrissjóðir hafi endurheimt tjón á eignum við hrun bankanna. Kaupmáttur launa miðað við neysluverðsvístölu hefur endurheimst og vel það. Lækkun kaupmáttar á hrunárum hefur endurheimst á árunum eftir hrun.

Greiðslur úr lífeyrissjóðum verða aldrei samkomulagsatriði milli „aðila vinnumarkaðarins“. Því er það enn ríkari skylda stjórnenda lífeyrissjóða að verja eignir lífeyrissjóða og réttindi sjóðfélaga svo sem nokkur kostur er.

Það er flókið mál að reikna út kaupmátt greiðslna úr lífeyrissjóðum. Forsendur iðgjalda gera ráð fyrir einhverjum kaupmáttarbreytingum launa til að tekjufall lífeyrisþega verði takmarkað við starfslok.

Með því að nota smiðsauga virðist sem þróun kaupmáttar lífeyrisgreiðslna sé ekki jafn glæsileg og þróun kaupmáttar launa.

Og ekki síst vegna þess þá geta eignir lífeyrissjóða ekki verið skiptimynt í kjarasamningum, ekki fremur en að eignir lífeyrissjóða geti orðið hækja peningamálastefnu.

Lífeyrissjóðir og kærleikur

Lífeyrissjóðir eru ekki kærleiks- eða góðgerðarstofnanir. Það eru engir varasjóðir í lífeyrissjóðum, því allar eignir lífeyrissjóða eru skuldbindingar við sjóðfélaga um greiðslu lífeyris. Lífeyrissjóðir geta ekki verið stuðningur við peningamálastefnu og gjaldmiðil og þaðan af síður verið skiptimynt í kjarasamningum.

Því eins og lögmaðurinn sagði:

  • „Kærleikinn til míns náungúngs er fögur kenning barnið gott. Og rétt. En í lífsháska ræður það lögmál að hver hjálpi sér.“

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu föstudaginn 4. desember 2020.