Bakvarðasveit fyrir skólana

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Kórónuveirufaraldurinn virðist nú í rénum, sem betur fer. Auk þess styttist stöðugt í bóluefni gegn honum. Enn sér þó ekki fyrir endann á þessum vágesti og því sjálfsagt að huga að öllum þeim ráðum sem draga úr sem flestum alvarlegum afleiðingum hans. 
Dæmi um alvarlegan skaða faraldursins er skert skólastarf, fyrst í vor og síðan aftur nú í haust. Slík skerðing kemur niður á námi nemenda, félagslífi þeirra og raskar oft störfum foreldra og forráðamanna nemenda. Þess vegna er mikilvægt að huga að góðu stuðningskerfi fyrir skólana ef í harðbakkann slær, enn og aftur, vegna smita, sóttkvía og aukins álags.
 
Ein meginforsendan fyrir óskertu skólastarfi felst í því að skólarnir séu ætíð vel mannaðir. Til að svo megi vera þegar á reynir þarf að koma upp bakvarðasveit. Fyrirmynd slíkrar bakvarðarsveitar er sótt til velferðarsviðs og heilbrigðisstofnana í landinu.
Ég lagði því til í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar að komið verði upp bakvarðasveit kennara, leikskólakennara, tómstundafræðinga og almennra starfsmanna sem grunnskólar, leikskólar og frístundaheimili geta leitað til ef á þarf að halda.
 
Hvetja má alla kennaranema, kennaramenntaða einstaklinga sem hafa sinnt öðrum störfum en kennslu, þá sem eru án atvinnu og eins þá sem komnir eru á eftirlaunaaldur til að skrá sig í bakvarðasveitina í því skyni að sinna tímabundið afleysingum, hvort heldur er í fullu starfi, hlutastarfi eða tímavinnu. Þá má jafnframt hvetja fólk sem hefur reynslu af öðrum störfum sem tengjast skólastarfinu til að skrá sig í bakvarðasveitina. 
Mikil þekking og reynsla felst í slíkum mannauði sem gæti nýst vel á erfiðum tímum. 
 
Samstaða og skilningur á þessum óvenjulegu tímum skiptir öllu máli og leita verður allra lausna til að halda skólastarfi gangandi og óskertu með hagsmuni og velferð nemenda að leiðarljósi.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu