Norrænar lausnir á nýjum ógnum

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:

Öryggisumhverfi okkar hefur gjörbreyst síðastliðinn áratug. Þannig þýða loftslagsbreytingar og fjölþáttaógnir á borð við netárásir og upplýsingaóreiðu að sá stöðugleiki sem við höfum búið við er ekki lengur sjálfsagður. Við eigum allt okkar undir því að verjast þessum ógnum, og það getum við ekki ein. Í þessu samhengi hafði ég frumkvæði að því að Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra og alþingismanni, skyldi á vettvangi norrænnar samvinnu falið að gera nýjar tillögur um hvernig Norðurlöndin gætu aukið samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála, með sérstakri áherslu á ofangreindar ógnir.

Skýrslan sem kom út í sumar hefur nú verið þýdd á íslensku og birt á vef Stjórnarráðsins. Það er samdóma álit utanríkisráðherra Norðurlandanna að skýrslan marki tímamót í norrænni samvinnu. Í ljósi þeirra áskorana sem við okkur blasa í dag má með sanni segja að hún hafi komið á hárréttum tíma. Úrvinnsla tillagnanna fjórtán er hafin og innleiðing nokkurra í farvegi.

Í skýrslunni er áréttað að á meðan ekkert ríki getur eitt og sér varist þeim nýju ógnum sem við blasa verður hvert og eitt að leggja sitt af mörkum. Það hefur Ísland gert m.a. með því að tala hátt og skýrt fyrir alþjóðalögum, fyrir algildi mannréttinda, fyrir kvenréttindum og réttindum minnihlutahópa en einnig með framlagi til starfsemi og sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins. Við getum lagt enn meira af mörkum á sviði loftslagsmála, t.d. með samvinnu á sviði hafrannsókna og útflutningi á grænum lausnum.

Við eigum verk fyrir höndum að byggja upp varnir gegn fjölþáttaógnum og þau mál verður að taka föstum tökum. Það gerum við bæði í ráðuneytinu og innan stjórnsýslunnar en líka í samstarfi við alþjóðastofnanir og önnur ríki. Þar skiptir ekki síst máli samvinna við þær þjóðir sem okkur standa næst og aðhyllast svipuð gildi. Skýrsla Björns Bjarnasonar er þýðingarmikið innlegg í samstarf Norðurlandanna í þessum mikilvæga málaflokki um fyrirsjáanlega framtíð.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. nóvember 2020.