Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Íslands, Ann Linde utanríkisráðherra Svíþjóðar, Pekka Haavisto utanríkisráðherra Finnlands, Ine Eriksen Søreide utanríkisráðherra Noregs, Jeppe Kofod utanríkisráðherra Danmerkur, Jenis av Rana utanríkisráðherra Færeyja og Steen Lynge utanríkis- og orkumálaráðherra Grænlands:
Í huga margra jarðarbúa er Norðurheimskautssvæðið fjarlægt og afskekkt, framandi vettvangur rannsókna. En á Norðurlöndunum eru margir íbúanna búsettir á norðurslóðum. Þar er einnig að finna hátækniiðnað og öflugan sjávarútveg, auk líflegra háskólastofnana. Við þurfum að beina sjónum að samfélögum á norðurslóðum og hvernig bregðast megi við umhverfisógnum af völdum loftslagsbreytinga og aukinnar umferðar á svæðinu – með hagsmuni og velferð íbúanna að leiðarljósi.
Til samans mynda konungsríkið Danmörk (þ.e. Grænland, Færeyjar og Danmörk), Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð hinn norræna hluta norðurslóða. Málefni svæðisins eru mikilvægur hluti af náinni samvinnu Norðurlandanna, sem eru öll aðilar að Norðurskautsráðinu.
Alþjóðlegur áhugi á norðurslóðum fer vaxandi vegna áhrifa loftslagsbreytinga og mögulegra efnahagstæk ifæra á svæðinu. Jafnframt hefur aukin spenna á alþjóðavettvangi sett mark sitt á öryggisumhverf ið. Nú þegar blikur eru á lofti viljum við undirstrika að það er ekkert lögfræðilegt tómarúm á norðurslóðum. Málefni svæðisins lúta alþjóðalögum og þar gildir hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Nauðsynlegt stofnanaverk er til staðar, með Norðurskautsráðið í öndvegi, og við teljum ekki þörf á neinum nýjum stofnunum.
Norðurlöndin hafa mikilvægu hlutverki að gegna á norðurslóðum. Við aðhyllumst sameiginleg grunngildi með áherslu á virðingu fyrir lögum, lýðræði, mannréttindi, gegnsæi, jafnrétti, velferð, sjálfbærni og umhverfisvernd. Þessi gildi höfum við líka að leiðarljósi í nálgun okkar á norðurslóðum.
Alls staðar á Norðurlöndunum er nú unnið að endurskoðun á stefnu hvers ríkis um sig í málefnum norðurslóða, með það að markmiði að gera okkur betur í stakk búin að mæta núverandi og komandi áskorunum. Við viljum einnig efla norræna samvinnu um málefni svæðisins, til hagsbóta fyrir íbúana, stöðugleika, loftslag og umhverfi.
Fólkið á norðurslóðum
Á Norðurheimskautssvæðinu búa um fjórar milljónir manna, þar á meðal frumbyggjar. Við stefnumótun þurfa íbúar norðurslóða og velferð þeirra að vera í forgrunni.
Sjálfbær efnahagsþróun er undirstaða velmegunar. Í því samhengi er mikilvægt að bæta tækifæri ungs fólks til menntunar og styrkja fjarskiptainnviði á norðurslóðum.
Lítil og afskekkt samfélög á svæðinu eru sérstaklega berskjölduð gagnvart ógnum á borð við kórónaveirufaraldurinn. Setja þarf lýðheilsumál í forgang á vettvangi Norðurskautsráðsins og í norðurslóðasamvinnu almennt. Bæta þarf getu til að takast á við farsóttir og styrkja viðnámsþol samfélaga.
Friður og stöðugleiki á norðurslóðum
Eitt af meginmarkmiðum okkar er að áfram ríki góð og uppbyggileg samvinna um málefni norðurslóða. Við tökum ábyrgð okkar sem norðurslóðaríki alvarlega og munum leggja okkar af mörkum til þess að tryggja að deilumál sem upp kunna að koma verði leyst með friðsamlegum hætti og á grundvelli alþjóðalaga. Norðurlöndin hafa löngum lagt rækt við náin tengsl vestur um haf, meðal annars hvað snertir málefni svæðisins. Við munum jafnframt vinna náið með öllum samstarfsríkjum okkar á norðurslóðum – Bandaríkjunum, Kanada og Rússlandi – að því að tryggja áframhaldandi stöðugleika á svæðinu.
Samvinna skapar trúnað og traust. Okkur hefur tekist til þessa að byggja upp pólitískt andrúmsloft sem miðað hefur að lausnum sem koma öllum til góða. Það er ekki síst Norðurskautsráðinu að þakka, sem er helsti samstarfsvettvangurinn um málefni norðurslóða. Einnig má nefna samvinnu og tengsl undir hatti Barentsráðsins.
Norðurlöndin hafa tekið virkan þátt í starfi Norðurskautsráðsins. Ísland fer með formennsku í ráðinu á tímabilinu 2019-2021 og allir sex vinnuhópar þess eru nú leiddir af Norðurlandabúum. Norðurskautsráðið er helsti vettvangurinn til samráðs um tækifæri og áskoranir á norðurslóðum. Þar er fjallað um sameiginleg málefni svæðisins, með áherslu á rannsóknir og umhverfisvernd, hagnýta samvinnu og verkefni sem miða að því að bæta lífskjör íbúanna, þar á meðal frumbyggja. Norðurskautsráðið virkar vel og 25 ára afmæli ráðsins á næsta ári gefur tilefni til að styrkja starfsemi þess enn frekar.
Í ljósi þess að ýmis úrlausnarefni á norðurslóðum krefjast alþjóðlegs samstarfs fögnum við áhuga áheyrnarfulltrúa og annarra utanaðkomandi aðila á málefnum svæðisins og hvetjum þá til að leggja sitt af mörkum með þátttöku í starfi vinnuhópa Norðurskautsráðsins. Við undirstrikum hins vegar að ríki utan svæðisins þurfa að virða alþjóðalög og þær stofnanir sem fyrir eru. Evrópusambandið er mikilvægur samstarfsaðili á norðurslóðum og getur lagt sitt af mörkum á ýmsum sviðum, til dæmis hvað varðar loftslagsmál, rannsóknir, nýsköpun og fjarskipti. Endurskoðun á norðurslóðastefnu sambandsins frá 2016 væri jákvætt skref í ljósi nýrra áskorana og tækifæra.
Loftslagsváin á norðurslóðum
Loftslagskrísa er ekki framtíðarógn á norðurslóðum – hún er þegar skollin á. Ummerki loftslagsbreytinga eru ógnvænlegri þar en í nokkrum öðrum heimshluta. Neikvæð áhrif hækkandi hitastigs og súrnunar sjávar, á vistkerfi og samfélög norðurslóða eru vel þekkt og hafa verið útlistuð skilmerkilega í skýrslum (IPCC) og vinnuhópa Norðurskautsráðsins. En Norðurheimskautssvæðið er víðfeðmt og það er brýnt að halda áfram vísindastarfi til að skrásetja þær breytingar sem eru að eiga sér stað.
Megnið af losun gróðurhúsalofttegunda á upptök sín utan norðurslóða, en íbúar svæðisins eru þó á meðal þeirra jarðarbúa sem finna mest fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálf bæra þróun og Parísarsamkomulagið um loftslagsmál hafa mikla þýðingu fyrir norðurslóðir og ríki heims verða að taka sig saman um nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við loftslagsbreytingum. Í þessu samhengi líta Norðurlöndin til grænnar umbreytingar sem hvata til að knýja efnahagslífið í gang á ný eftir COVID-19 heimsfaraldurinn. Það mun skipta sköpum, ekki síst fyrir norðurslóðir.
Samvinna okkar á norðurslóðum hverfist umfram allt um íbúana, frið og loftslagsmál. Norðurlöndin munu byggja á reynslunni og leitast við að vinna áfram til góðs fyrir Norðurheimskautssvæðið.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. nóvember 2020.