„Það sannaði sig sú stefna sem við höfum verið að reka“

Það er mikilvægt að bankarnir standi áfram með sínum viðskiptavinum líkt og í upphafi COVID-faraldursins sagði Bjarni Benediktsson,  formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, í Kastljósinu 10. nóvember sl. sem horfa má á hér. Í þættinum var rætt um stuðningsaðgerðir ríkisstjórnarinnar við fyrirtæki vegna COVID-19, um breytingar á stjórnarskránni, um sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda, um stuðning bankakerfisins við almenning og um stöðu sveitarfélaganna í þessu ástandi.

„Við verðum að trúa því að við getum komist í gegnum þennan tíma en leyfum ekki öllu að hrynja til grunna. Það á við með nákvæmlega sama hætti og ég var að lýsa hvernig ríkissjóður horfir til heimilanna og rekstrar í landinu hjá bönkunum og viðskiptamönnum þeirra. Maður verður að minnsta kosti að halda í þá trú að bankarnir sjái virðið í því að standa með sínum viðskiptamönnum í gegnum þessa tíma. Ég ætla að leyfa mér að trúa því,“ sagði Bjarni enn fremur um stuðning bankanna við viðskiptavini sína.

Hann sagði Seðlabankann hafa stigið fyrsta skrefið með því að losa all verulega um öll bönd á bankakerfinu.

„Það sannaði sig sú stefna sem við höfum verið að reka að búa til viðnámsþrótt í bankakerfinu í góðærinu og nú gátum við slakað aðeins á og bankarnir verða að nýta þann kraft sem því fylgir til þess að styðja við á erfiðum tímum,“ sagði Bjarni.

Mikilvægt að breyta stjórnarskránni í sátt

„Ég held að það sé komið fram að menn eru ekki að ná saman sem einhver hópur formanna að meiriháttar breytingum á stjórnarskránni. Því miður er það þannig […] Ég hef verið þeirrar skoðunar að við ættum að einbeita okkur að fáum atriðum. Það hefur verið reynt að einangra þessa vinnu við nokkur álitamál. Þau eru hvert um sig mjög stór,“ sagði Bjarni og einnig: „Mér finnst ég vera búinn að verja mjög miklum tíma í þetta mál á þessu kjörtímabili með litlum árangri um breiða samstöðu. Mér finnst persónulega skipta gríðarlega miklu máli þegar við erum að breyta grundvallarlögum í landinu, sjálfri stjórnarskránni, að menn leggi mikið á sig til þess að ná sátt. Það virðist ekki vera að takast.“

Ríkið að taka á sig 20% skuldaaukningu en sveitarfélögin 3%

„Það er ríkissjóður sem er fyrst og fremst að taka á sig höggið. Tökum bara sem dæmi tekjur, tekjur ríkisins eru að falla um 12%. Tekjur sveitarfélaganna eru að standa í stað eða að fara aðeins upp á þessu ári. Ef við skoðum spá um skuldaaukningu. Ríkið er að fara að taka á sig 20% af aukningu af VLF. Þetta eru 600 milljarðar á næstu tveimur árum. Á meðan því er spáð að sveitarfélögin taki á sig 3%,“ sagði Bjarni þegar talið barst að sveitarfélögunum sem nú standa í fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár og hafa kallað eftir aðkomu ríkisins.

„Það er ekki nema eðlilegt að sveitarfélögin þurfi að axla einhverjar byrðar vegna heimsfaraldursins eins og allir aðrir þurfa að gera í samfélaginu. Það getur enginn í raun og veru áskilið sér rétt til að vera undanskilinn áhrifum af þessum heimsfaraldri. Við þurfum einfaldlega að vinna þétt saman að því að sinna okkar opinbera þjónustuhlutverki, ríki og sveitarfélög,“ sagði Bjarni.

Það sem við höfum staðið saman um er að virka

Bjarni var m.a. spurður út í ákveðnar efasemdaraddir sem hafa komið frá einstaka þingmanni Sjálfstæðisflokksins vegna harðra sóttvarnaaðgerða.

„Ég er nú þeirrar skoðunar að það sé verið að hreyfa mjög eðlilegum sjónarmiðum hérna og vil vara mjög alvarlega við því að menn séu slegnir niður sem að velta upp mjög áleitnum spurningum um þessar sóttvarnaráðstafanir,“ sagði Bjarni en ítrekaði að ríkisstjórnin hefði staðið mjög þétt saman að þeim aðgerðum sem ráðist hafi verið í.

Hann nefndi skýrslu sem unnin var að frumkvæði forsætisráðherra um lagaheimildir fyrir þessum ráðstöfunum. Í þeirri úttekt kom fram það álit að renna þyrfti sterkari lagastoðum undir þessar ráðstafanir.

„Við eigum eftir að gera það. Þetta er stórmál. Auðvitað er það risa mál og ég er ánægður með að þær raddir heyrist í mínum flokki að stjórnvöld geti ekki gripið inn í líf fólks án þess að fyrir því séu skýrar heimildir,“ sagði Bjarni og að það væru vissulega gráar línur hér og hvar.

„Það skiptir ofboðslega miklu máli að það séu sterk rök. Góðar röksemdir sem halda yfir þennan tíma fyrir öllum þessum ráðstöfunum vegna þess að það er verið að hafa meiriháttar áhrif á fólk. Góðu fréttirnar eru þær að það sem við höfum staðið saman að er að virka. Við erum núna að ná góðum tökum á þessu. Það er auðvitað aðal atriðið,“ sagði Bjarni en viðtalið við hann í Kastljósi RÚV má í heild sinni finna hér.