Afbrigðilegt ástand má ekki verða viðvarandi

Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Í vor og jafnvel í sumar vonuðust áreiðanlega flestir til þess innst inni að Covid-19 faraldurinn gengi frekar hratt niður og efnahagur okkar og annarra ríkja gæti tekið við sér frekar hratt. Auðvitað komu fram viðvaranir um hið gagnstæða, bæði úr ranni vísindamanna á heilbrigðissviðinu, hagfræðinga og annarra sérfræðinga, en engu að síður hygg ég að æði margir hafi í hjarta sínu litið á þetta ástand sem skammvinnt högg frekar en upphaf langvarandi kreppu. Allir viðurkenndu auðvitað að óvissan væri mikil, bæði hvað varðar útbreiðslu faraldursins og efnahagslegar afleiðingar, en hjá flestum var ákveðin bjartsýni undirliggjandi.

Aðgerðir stjórnvalda bæði hér á landi og erlendis hafa auðvitað mótast af þessari óvissu, bæði um umfang vandans og hversu langvinnt þetta ástand yrði.  Gripið hefur verið til sóttvarnarráðstafana til skamms tíma í senn og efnahagsaðgerðir til að mæta afleiðingum faraldursins hafa líka almennt verið tímabundnar. Hvort tveggja er eðlilegt í ljósi aðstæðna. Sóttvarnarráðstafanir fela í sér skaðleg efnahagsleg áhrif og um leið skerðingu á margvíslegum réttindum borgaranna og verða þess vegna að vera hóflegar í öllum skilningi og mega ekki vara lengur en nauðsynlegt er. Fyrstu viðbrögð til að mæta hinu efnahagslega áfalli fyrir fyrirtæki og heimili hljóta líka að vera bráðabirgðaviðbrögð. Fyrst og fremst eru þau hugsuð til þess að taka mesta höggið af þeim fyrirtækjum og starfsfólki sem varð fyrir mestu tjóni og til að lágmarka þann skaða, sem skyndilegt hrun heillar atvinnugreinar getur valdið í hagkerfinu og samfélaginu í heild.

Sjálfur hef ég haft áhyggjur af því að sumar ráðstafanir á sóttvarnarsviðinu væru byggðar á veikum lagalegum grundvelli og að álitamál væri hvort meðalhófs væri gætt í öllum tilvikum. Um það hef ég fjallað á öðrum vettvangi. Ég hlýt hins vegar að fallast á það eins og aðrir, að við afbrigðilegar aðstæður, svo sem vegna farsóttar, hljóti stjórnvöld að hafa rýmri heimildir en ella til að grípa tímabundið til margvíslegra ráðstafana, sem ekki yrðu taldar í lagi við eðlilegar aðstæður. Með því er auðvitað ekki sagt að farsóttarástand réttlæti hvað sem er; meginreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar fela í sér leiðbeiningar og takmarkanir í því sambandi, sem þarf alltaf að virða. Þær eiga líka við á erfiðum og fordæmalausum tímum.

Að vissu leyti á hið sama við á sviði efnahagsaðgerða. Auðvitað eru ívilnandi aðgerðir á sviði efnahags- og atvinnumála ekki sambærilegar við íþyngjandi ráðstafanir, sem skerða borgaraleg réttindi og athafnafrelsi, og lúta ekki sömu ströngu skilyrðum. Það sem er sambærilegt er að óvenjulegur aðstæður geti réttlætt óvenjulegar aðgerðir af hálfu hins opinbera. Skyndilegt efnahagslegt áfall vegna utanaðkomandi, óviðráðanlegra orsaka getur réttlætt aðgerðir af hálfu stjórnvalda og löggjafans, sem við aðrar og eðlilegri aðstæður kæmu ekki til greina. Sértækir styrkir úr ríkissjóði, ívilnanir af ýmsum toga, ríkisábyrgðir og allskonar sérsniðin aðstoð við fyrirtæki og starfsmenn myndu seint teljast góðar og skynsamlegar aðgerðir undir eðlilegum kringumstæðum. Hins vegar er unnt að rökstyðja þær sem bráðaaðgerðir í efnahagslegu áfalli, sem með vissum hætti má líkja við neyðaraðstoð á slysstað. Það breytir hins vegar ekki því, að þarna verður líka að fara varlega, gæta þess að jafnræði sé virt, gegnsæi sé haft heiðri og ákvarðanir séu teknar á almennum, málefnalegum forsendum en byggist ekki á geðþótta. Þá á jafnframt við að aðgerðirnar séu tímabundnar en ekki varanlegar. Það sem við leyfum okkur við afbrigðilegar aðstæður á ekki við þegar þær aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi. Undantekningar frá meginreglum á alltaf að túlka þröngt og þær mega ekki vara lengur en nauðsynlegt er.

Þetta finnst mér mikilvægt að draga fram núna af tveimur ástæðum. Annars vegar þurfum við að horfast í augu við að faraldurinn sjálfur og efnahagskreppan sem fylgir mun að öllum líkindum lita líf okkar lengur en við gerðum okkur vonir um. Við þurfum því að fara yfir, meta og endurskoða bæði sóttvarnaraðgerðir og efnahagsaðgerðir í ljósi þess. Hins vegar þurfum við líka að gæta þess að venjast ekki um of hinum óvenjulegu og afbrigðilegu aðstæðum. Við megum ekki missa tilfinninguna fyrir því að við erum að fást við undantekningarástand og þær aðgerðir, sem við teljum réttlætanlegar nú, eru ekki aðgerðir sem við vildum eða gætum notast við í venjulegu árferði. Við getum sætt okkur við meiri afskipti ríkisins, ívilnanir og íþyngjandi ráðstafanir, í þessu ástandi, í afar takmarkaðan tíma, en föllumst ekki með neinum hætti á að slík afskipti hins opinbera séu eðlileg eða æskileg við aðrar aðstæður. Við megum ekki láta ríkisafskiptin komast upp í vana.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 5. nóvember 2020.