Varnarbaráttan og sóknarfærin

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Nálg­un stjórn­valda á efna­hags­leg viðbrögð við Covid-far­aldr­in­um hafa meðal ann­ars ein­kennst af þrem­ur leiðarljós­um: Að bregðast hratt við, að hafa viðbrögðin eins um­fangs­mik­il og rétt­læt­an­legt er hverju sinni og að hafa þau til sí­felldr­ar end­ur­skoðunar í sam­ræmi við hvernig hinn ófyr­ir­sjá­an­legi far­ald­ur þró­ast.

Í mars vonuðumst við öll eft­ir því að far­ald­ur­inn yrði orðinn viðráðan­leg­ur eft­ir fá­eina mánuði. Raun­in er því miður allt önn­ur.

Eft­ir því sem Covid dregst á lang­inn eykst hætt­an á því að fyr­ir­tæki sem far­ald­ur­inn bitn­ar harðast á neyðist til að kasta inn hand­klæðinu og leggi upp laup­ana. Sú stund er sem bet­ur fer ekki enn runn­in upp að það sé farið að ger­ast í stór­um stíl en hún nálg­ast með hverj­um mánuðinum sem líður í skugga tak­mark­ana til að hemja far­ald­ur­inn.

Hags­mun­irn­ir

Það fel­ast í því al­manna­hags­mun­ir að freista þess að koma í veg fyr­ir að sú sviðsmynd verði að veru­leika.

Þær aðgerðir sem gripið hef­ur verið til eru rétt­læt­an­leg­ar vegna þess að í þeim aðstæðum sem nú eru uppi er markaðshag­kerfi gert ókleift að virka sem skyldi. Gjaldþrot fyr­ir­tækja fel­ur ekki aðeins í sér tap hlut­hafa, starfs­manna og lán­ar­drottna held­ur geta þar eyðilagst verðmæti sem sam­fé­lagið allt hagn­ast á að verja. Dýr­mæt viðskipta­sam­bönd geta slitnað; þekk­ing og reynsla get­ur horfið með stjórn­end­um og öðru starfs­fólki; fram­leiðslu­tæki geta farið for­görðum. Það kost­ar að byggja slík­an rekst­ur upp aft­ur. Það er ekki ókeyp­is að byrja á núlli. Og það tek­ur tíma, og sá tími kost­ar líka. Hluti kostnaðar­ins fell­ur á sam­fé­lagið.

Þetta á að ein­hverju leyti við um all­ar at­vinnu­grein­ar en al­veg sér­stak­lega ferðaþjón­ustu, þar sem aðal­sölu­tíma­bilið fyr­ir kom­andi há­anna­tíma næsta árs er að hefjast. Ein­hverj­ir þurfa að vera til staðar til að sækja á þau mið núna á sölu­vertíðinni. Ísland á mjög mikið und­ir kröft­ugri viðspyrnu ferðaþjón­ust­unn­ar, eins og ég fór ít­ar­lega yfir í grein minni á þess­um vett­vangi fyr­ir hálf­um mánuði.

Stuðning­ur rík­is­ins við at­vinnu­lífið hef­ur fram til þessa verið blanda af frest­andi úrræðum (t.d. stuðningslán og greiðslu­frest­ir) og bein­um styrkj­um (t.d. hluta­bóta­leið, laun á upp­sagn­ar­fresti og lok­un­ar­styrk­ir). Þá má ekki gleyma aðkomu rík­is­ins að hluta­fjárút­boði Icelanda­ir, sem er kannski mik­il­væg­asta fyr­ir­tæki ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu.

Auk­inn stuðning­ur

Ný­lega kynnti fjár­mála- og efna­hags­ráðherra svo aukna beina styrki í formi tekju­falls­styrkja. Áætlað var að um­fang þeirra gæti orðið að há­marki rúm­ir 14 millj­arðar króna.

Rík­is­stjórn­in samþykkti í gær, föstu­dag, að efla stuðningsaðgerðir við at­vinnu­lífið enn frek­ar. Í því felst að lok­un­ar­styrk­ir verði fram­lengd­ir, nýkynnt­ir tekju­falls­styrk­ir út­víkkaðir um­tals­vert og nýtt úrræði, viðspyrnustyrk­ir, inn­leitt en unnið er að út­færslu þess. Þá ræddi rík­is­stjórn­in um mögu­lega fram­leng­ingu hluta­bóta­leiðar­inn­ar sem renn­ur út nú um ára­mót. Hef­ur fé­lags- og barna­málaráðherra þegar hafið und­ir­bún­ing að fram­leng­ingu úrræðis­ins.

Við höf­um átt gott sam­tal við þær grein­ar sem eru í viðkvæm­astri stöðu og þekkj­um vel áskor­an­ir þeirra.

Eng­inn þarf að ef­ast um að við vilj­um koma til móts við þær eft­ir fremsta megni og skilj­um verðmæt­in sem í því fel­ast. Eins og fram kom á góðum fundi um stöðu ferðaþjón­ust­unn­ar í vik­unni, sem um 500 manns fylgd­ust með í streymi og um þúsund hafa horft á síðan þá, er mik­il­vægt að all­ir legg­ist á eitt, þ.m.t. fjár­mála­kerfið.

Ný­sköp­un á fleygi­ferð

Þó að mjög kreppi að í ákveðnum at­vinnu­grein­um er það sem bet­ur fer ekki ein­hlítt. Þannig er t.d.

veru­leg ný­fjár­fest­ing í ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækj­um, ekki síst er­lend­is frá. Ný­leg dæmi eru 15 millj­óna doll­ara (um tveir millj­arðar) er­lend fjár­mögn­un Control­ant, 20 millj­óna doll­ara (tæp­lega þrír millj­arðar) er­lend fjár­mögn­un Si­dekick Health og kaup þýska stór­fyr­ir­tæk­is­ins Baader á meiri­hluta í Skag­an­um 3X.

Líf­tæknifyr­ir­tækið Kerec­is hef­ur marg­faldað sölu sína á milli ára og svona mætti lengi telja.

Eins og all­ir vita er ný­sköp­un lang­tíma­verk­efni en hún byrjaði ekki í gær þannig að góðum frétt­um er þegar farið að fjölga og við trú­um að sú þróun haldi áfram.

Í gær var síðan til­kynnt um fyr­ir­hugað loft­hreinsi­ver Car­bon Ice­land í sam­starfi við kanadíska fyr­ir­tækið Car­bon Eng­ineer­ing, þar sem stefnt er að þríþættri fram­kvæmd: hreins­un á um einni millj­ón tonna af CO úr and­rúms­loft­inu og fram­leiðslu á ann­ars veg­ar CO til mat­væla­fram­leiðslu og hins veg­ar eldsneyti fyr­ir skip og önn­ur sam­göngu­tæki.

Ein af aðgerðunum sem rík­is­stjórn­in kynnti í lok sept­em­ber til að styðja við áfram­hald lífs­kjara­samn­ing­anna var að út­færa skatta­leg­ar aðgerðir til að styðja fyr­ir­tæki til fjár­fest­inga, með áherslu á græna umbreyt­ingu og lofts­lags­mark­mið. Til­kynn­ing­in í gær er dæmi um tæki­fær­in sem fel­ast í slík­um verk­efn­um og ljóst er að þau eru fleiri.

Ég hef óbilandi trú á tæki­fær­um Íslands til að vera áfram í fremstu röð sam­fé­laga í heim­in­um og rísa hratt á fæt­ur þegar þok­unni létt­ir. Öflugt at­vinnu­líf er for­senda öfl­ugra lífs­gæða. Án þess get­um við ein­fald­lega ekki staðið und­ir þeim lífs­gæðum sem við vilj­um öll tryggja. Þess vegna skipt­ir öllu máli að við styðjum bæði fólk og fyr­ir­tæki í gegn­um áskor­an­ir dags­ins. Því um leið og aðstæður leyfa mun sköp­un­ar­kraft­ur og fram­taks­semi ein­stak­linga keyra Ísland aft­ur í gang.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 1. nóvember 2020.