Ísland af „gráum“ lista FATF

„Ég fagna mjög þessari farsælu niðurstöðu og vil þakka öllum þeim sem unnið hafa að því að ná henni fram. Frá því að úttekt FATF fór hér fram, fyrst á árinu 2017, hafa íslensk stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar unnið markvisst að úrbótum á þessu sviði,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundi í dag þegar hún kynnti að að Ísland sætti ekki lengur auknu eftirliti vegna ófullnægjandi peningaþvættisvarna.

Þetta þýðir að Ísland er formlega komið af svonefndum gráum lista Financial Action Task Force (FATF), sem er alþjóðlegur starfshópur gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

„Mikilvægt er að nefna að almenningur hefur brugðist skjótt og vel við ákalli um að skrá raunverulega eigendur félaga. Þar hefur ótrúlegur árangur náðst á aðeins einu ári og hafa nú rétt rúmlega 93% skráð raunverulega eigendur hinna ýmsu félaga. Slíkur árangur er ekki sjálfsagður og verður fordæmi fyrir önnur lönd. Íslensk stjórnvöld voru ósammála því að Ísland yrði yfir höfuð sett á svokallaðan gráan lista. Enginn ágreiningur var um að við hefðum ekki sett þann kraft í málaflokkinn sem til hefði þurft á sínum tíma, en vegna þess að þegar ákvörðun FATF var tekin – um að setja Ísland á listann – voru þau atriði sem útaf stóðu að þeirra mati ýmist þegar leyst eða komin í skýrt skilgreindum farveg,“ sagði Áslaug Arna.

Hún sagði að íslensk stjórnvöld þegar hafist handa við úrbætur, sem meðal annars fól í sér setningu nýrra laga, reglna og reglugerða og aðra umfangsmikla vinnu innan stjórnsýslunnar. Samvinna og samhæfing milli stjórnvalda og stofnana hafi verið stóraukin, nýjar skrár og kerfi innleidd og fræðsla aukin. Þá settu íslensk stjórnvöld sér sérstaka stefnu í málaflokknum.

„Málaflokkurinn verður áfram í brennidepli stjórnvalda þannig að tryggt verði að ekki komi til álita að Ísland lendi í sömu stöðu aftur. Fjórða úttektin stendur nú yfir og við leggjum áherslu á að tryggja það að við uppfyllum ávallt þau skilyrði sem upp verða sett varðandi þessar mikilvægu varnir fyrir íslenskt hagkerfi og efnahagslíf,“ sagði dómsmálaráðherra og bætti við: „Allt frá því að ég varð ráðherra fyrir rúmu ári síðan hef ég lagt mikla áherslu á þær endurbætur sem gera þurfti til að ná þessum áfanga sem við nú höfum náð. Til þess hef ég notið stuðnings ríkisstjórnarinnar og ekki síður stjórnsýslunnar.“

Sjá nánar hér í frétt á vef dómsmálaráðuneytisins.