Afnám stimpilgjalda allra hagur

Stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði afnumið verði frumvarp um breytingu á lögum um stimpilgjald vegna kaupa einstaklings á íbúðarhúsnæði samþykkt á Alþingi. Einstaklingum ber nú almennt að greiða 0,8% stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði en þó er veittur helmingsafsláttur þegar um fyrstu kaup er að ræða.

Umræðum um frumvarpið lauk á Alþingi síðdegis í dag og gengur það nú til annarrar umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd. Flutningsmenn frumvarpsins eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins þau Vilhjálmur Árnason, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon, Njáll Trausti Friðbertsson, Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson, Ásmundur Friðriksson og Jón Gunnarsson.

Verði frumvarpið að lögum mun gjaldið falla alfarið niður vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði og undanþágan verður ekki bundin við fyrstu kaup. Markmið frumvarpsins eru að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis og auka skilvirkni og flæði á markaði með íbúðarhúsnæði. Mikil þörf er á að auðvelda fólki eins og frekast er unnt að eignast íbúðarhúsnæði, einkum við aðstæður á borð við þær sem nú ríkja á húsnæðismarkaði.

„Sýnt þykir að stimpilgjald hafi áhrif til hækkunar fasteignaverðs, dragi úr framboði og rýri hlut kaupenda og seljenda. Af framangreindu má ætla að afnám stimpilgjalds af fasteignaviðskiptum muni auðvelda verðmyndun á húsnæðismarkaði með tilheyrandi aukningu á framboði sem hefur verið með minnsta móti undanfarin ár,” sagði Vilhjálmur Árnason við umræður á Alþingi í dag og sagði jafnframt að um mikið frelsis- og velferðarmál væri að ræða fyrir fjölskyldurnar í landinu. Reynslan sýndi að sambærilegt afnám stimpilgjalda hefði í fortíðinni haft mjög jákvæð áhrif á lánamarkaðinn neytendum og húsnæðiseigendum til hagsbóta.

Hér má sjá flutningsræðu Vilhjálms Árnasonar í heild sinni.