Mismunun heilsugæslunnar

Jón Gunnarsson ritari Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður:

Hæst­virt­ur heil­brigðisráðherra þakkaði for­ystu VG fyr­ir góðan ár­ang­ur í heil­brigðismál­um í ný­legri grein í Morg­un­blaðinu. En lít­um nú aðeins á staðreynd­ir. Á ár­un­um 2014-2016, und­ir for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins í heil­brigðisráðuneyt­inu, var fjár­mögn­un­ar- og gæðakerf­um heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins ger­breytt. Komið var á nú­tíma­fjár­mögn­un­ar­kerfi þar sem horft var í þjón­ustuþörf ein­stak­linga, þar sem börn, aldraðir og fjölveik­ir voru sett­ir í for­gang. Jafn­framt var komið á gæða- og aðgengisviðmiðum. Fjár­magn fylgdi síðan hverj­um og ein­um sem hef­ur nú val um hvert viðkom­andi sæk­ir þjón­ustu. Þá voru boðnar út nýj­ar heilsu­gæsl­ur sem voru opnaðar árið 2017; Heilsu­gæsl­an Höfða og Heilsu­gæsl­an Urðar­hvarfi.

Eft­ir þessa breyt­ingu hef­ur aðgengi að heilsu­gæsl­um á höfuðborg­ar­svæðinu stór­batnað. Af­kasta­aukn­ing í viðtöl­um milli ára hef­ur numið allt að 10% og er Heilsu­gæsl­an Höfða orðin stærsta heilsu­gæsl­an á svæðinu með rúm­lega 20 þúsund skjól­stæðinga sem hafa sjálf­ir valið að skrá sig þar. Frá­bær ár­ang­ur á aðeins þrem­ur árum.

Þess­ar tvær heilsu­gæsl­ur ásamt Heilsu­gæsl­unni Lág­múla og Sala­hverfi, sem einnig eru sjálf­stætt, rekn­ar röðuðu sér í efstu sæti gæða- og þjón­ustu­könn­un­ar sem Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands gerðu á síðasta hausti.

En hvað ger­ir nú­ver­andi ráðherra?

Heil­brigðisráðherra hef­ur ekki svarað til­mæl­um Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins um úr­bæt­ur varðandi mis­mun­un á rekstr­ar­for­send­um. Þar eru þrjú atriði sér­stak­lega til­tek­in. Land­spít­al­inn hygl­ir op­in­beru heilsu­gæsl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu í rann­sókn­ar­verði sem er tug­um pró­senta und­ir því sem öðrum býðst. Op­in­bera heilsu­gæsl­an slepp­ur við virðis­auka­skatt af aðkeyptri vinnu og fær frí­ar trygg­ing­ar fyr­ir starfs­fólk sitt. Þetta taldi Sam­keppnis­eft­ir­litið ekki í lagi, en ráðherr­ann ger­ir ekk­ert til að leiðrétta.

Í Covid-far­aldr­in­um tek­ur starfs­fólk á áður­nefnd­um heilsu­gæsl­um þátt í sýna­tök­um, sím­töl­um og öllu því sem kem­ur til vegna Covid. Einn af stjórn­end­um þess­ara stöðva kom einnig með til­lög­ur að sýna­tök­um sam­eig­in­lega í Hörpu og Suður­lands­braut. Þrátt fyr­ir þetta und­an­skildi heil­brigðisráðherra þess­ar stöðvar í þakk­lætis­votti vegna Covid síðastliðið sum­ar, sem og Lækna­vakt­ina. Þarna eru aðilar ein­vörðungu skild­ir út und­an vegna rekstr­ar­forms og hugs­an­lega for­dóma ráðherr­ans. Lækna­vakt­in brást við Covid með marg­föld­un á sím­svör­un og lækn­ar henn­ar fóru í vitj­an­ir til Covid-sjúkra strax í upp­hafi far­ald­urs­ins, þó nokkru áður en Covid-deild kom til. Jafn­framt má nefna að einn lækn­ir Lækna­vakt­ar­inn­ar veikt­ist síðan af Covid eft­ir slík­ar vitj­an­ir og glím­ir enn við eft­ir­stöðvar þess.

Síðan var það ákveðið ný­verið af Alþingi að styðja við geðheil­brigðisþjón­ustu vegna af­leiðinga Covid. Þá er sett inn fjár­magn fram hjá fjár­mögn­un­ar­kerf­inu og fær hin op­in­bera heilsu­gæsla tölu­vert hærri upp­hæð miðað við skráða skjól­stæðinga. Því má spyrja hvernig hinir eigi að geta veitt sömu þjón­ustu þegar mis­munað er á þenn­an hátt.

Að lok­um má benda á að rekst­ur­inn hjá þess­um fjór­um sjálf­stæðu heilsu­gæsl­um og Lækna­vakt­inni var í járn­um eða með tapi á liðnu ári. Er það kannski vilji ráðherra að þessi starf­semi hverfi af sjón­ar­sviðinu? Það væri sorg­legt ef horft er til ár­ang­urs þess­ara aðila. Mik­il­vægt er að stjórn­sýsla heil­brigðismála sé fag­leg og aðilum sé gert jafn hátt und­ir höfði. Að for­dóm­ar og hreppapóli­tík séu tek­in út úr heil­brigðispóli­tík. Skatt­fé er tak­markað og mik­il­vægt að auk­in sé skil­virkni í kerf­inu þannig að þeir sem þurfa á þjón­ustu á að halda fái sem besta þjón­ustu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. október 2020.