Borgaryfirvöld barið hausnum við steininn í mörg ár

Vilhjálmur Árnason alþingismaður:

Það kemur ekki á óvart að margir séu vel áttavilltir um þróun umferðarmála á höfuðborgarsvæðinu eftir umræðuna undanfarið sem hefur verið mjög misvísandi. Ekki bætti úr skák að á þriðjudag gat borgarstjóri ekki svarað þeirri spurningu oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn með fullnægjandi hætti hvort borgin gæti tryggt skipulag Sundabrautar svo brautin gæti orðið að veruleika. Það er hins vegar staðreynd að Sundabraut er órjúfanlegur hluti samgöngusáttmálans eins og formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra hefur bent á.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa komið sér saman um að uppbygging borgarlínu sé mikilvægt skref í bættu umferðarflæði um höfuðborgarsvæðið. Það eru allir sammála því að bættar almenningssamgöngur séu mikilvægar, en hvort það verði best útfært með svokallaðri borgarlínu efast ég um.

Nágrannasveitarfélögin hafa einnig kallað eftir enn frekari samgönguuppbyggingu eins og Arnarnesvegi, styrkingu stofnbrauta t.d. með gerð mislægra gatnamóta og færa hluta stofnbrautanna í stokk. Þá hafa nágrannasveitarfélög Reykjavíkurborgar einnig kallað eftir samræmdri ljósastýringu um allt höfuðborgarsvæðið, en það eitt gæti dregið úr umferðartöfum um allt að 30%.

Höfuðborgarsáttmálinn eða „konfektkassinn“

Staðreyndin er sú að ríkið hefur sýnt vilja í langan tíma til fjármagna og fara í þær framkvæmdir sem taldar eru upp í samgöngusáttmálanum. Það má t.d. sjá á þeim framkvæmdum sem hefur verið ráðist í að undanförnu. Þetta eru framkvæmdir eins og mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg, tvöföldun Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð og Vesturlandsvegar í gegnum Mosfellsbæ svo dæmi séu tekin, en þetta eru þau sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem hafa sýnt vilja í verki fyrir samgöngubótum, annað en höfuðborgin, Reykjavík.

Þar hafa borgaryfirvöld barið hausnum við steininn í mörg herrans ár og barist gegn raunverulegum samgöngubótum. Þetta sýna þær fjármögnuðu tillögur til framkvæmda á mislægum gatnamótum á Bústaðavegi við Reykjanesbraut sem hafa legið fyrir svo árum skiptir. Þrátt fyrir að ríkið hafi í langan tíma verið reiðubúið til þess að fjármagna framkvæmdina hefur borgin staðið í vegi fyrir því. Sveitarfélögin – hvert um sig – fara nefnilega með skipulagsvaldið og sameiginlega með svæðisskipulagið en ríkið ber einungis ábyrgð á stofnbrautunum og fjármagnar framkvæmdir þeirra lögum skv.

Höfuðborgarsáttmálinn eða „konfektkassinn“ sem mikið hefur verið rætt um undanfarið – þá sérstaklega hvert innihald hans er og hvaða konfektmola vantar í hann – er heiðarleg tilraun til að þoka helstu áherslumálum þessara tveggja stjórnsýslustiga áfram: Annars vegar vilja ríkisins til að byggja upp og þróa þær stofnbrautir sem það ber ábyrgð á, tengja saman byggðir og um leið stuðla að fjölbreyttari og umhverfisvænni samgöngum. Og hins vegar þeirri kröfu sveitarfélaganna um fjármögnun og uppbyggingu borgarlínu. Þess skal getið að uppbygging borgarlínu í sáttmála þessum nær einungis til uppbyggingar innviða eins og breikkun akreina og tengdra mannvirkja, rekstur borgarlínu er algjörlega undanskilinn. Samkomulag þetta þýðir að sjálfsögðu þá að báðir aðilar þurfa að gefa eftir af sínum ýtrustu kröfum og mætast á miðri leið til að ná árangri í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins.

Túlka samkomulagið eins og þeim hentar hverju sinni

Um sáttmálann og efni hans hefur verið fjallað um við vinnslu síðustu tveggja samgönguáætlana, við setningu laga um opinbert hlutafélag sem á að fara með framkvæmd samningsins og svo jafnframt var samtal og umræða í sveitarstjórnum og ríkisstjórn við gerð sáttmálans sjálfs. Samgönguráðherra hefur verið skýr um áherslu ríkisstjórnarinnar á Sundabraut, samgönguása og betri umferðarstýringu. Fjármálaráðherra hefur tekið í sama streng og sagt að konfektmolarnir verði ekki bara valdir. Það er því ótrúlegt að heyra borgarstjóra og formann skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, lifa í sínum eigin heimi. Þau túlka samkomulagið eins og þeim hentar hverju sinni og draga þannig í efa sitt hlutverk og skyldur samkvæmt sáttmálanum.

Dónaskapurinn sem þau sýna samningsaðilum sínum – með þessari framkomu – er með ólíkindum. Sú staðreynd vekur óneitanlega ekki upp miklar væntingar að skipulagsþáttur sáttmálans og annar undirbúningur framkvæmda, þar sem Reykjavíkurborg er með skipulagsvaldið, gangi jafn hratt fyrir sig og sáttmálinn gerir ráð fyrir.

Skýrar forsendur fyrir gerð sáttmálans, forustuhlutverk fjármálaráðuneytisins í félaginu sem fer með málefni sáttmálans, skýr vilji samgönguyfirvalda og afgerandi ákvæði sáttmálans um að allir aðilar þurfi að standa við sínar skuldbindingar skipta því miklu máli í vinnunni fram undan. Vinnunni við að byggja upp fjölbreyttar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu þar sem fólk hefur val um ferðamáta, þar sem enginn ferðamáti er undanskilinn, þar með talið einkabíllinn. Til að ná því markmiði þurfa samningsaðilar að ganga í takt og þar er Reykjavíkurborg ekki undanskilin.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. september 2020.