„Das Kapital“, verkalýðsrekendur og lýðsleikjur á fjármálamarkaði

Vilhjálmur Bjarnason skrifar:

Margar bækur eru óskiljanlegt þrugl jafnskjótt og útgáfuvökvinn rennur af þeim og óráð raunveruleikans tekur við. Þannig verður „Kommónistaávarpið“ aðeins minning um óráð þess er það rituðu og veruleikafirringu þeirra, er það lásu sem trúarrit. Mörg falleg kvæði voru ort því til dýrðar en skáldin voru vondir menn.

Þeir sem trúðu

Þannig segir á einum stað um þá, sem trúðu,

„Flest urðu þau fyrir nokkrum vonbrigðum með „sósíalismann“ en reyndu lengi vel að sýna skilning á vandamálinu sem tímabundnum erfiðleikum eða utanaðkomandi þrengingum. Þau fóru snemma að bera saman bækur sínar skriflega og leita skýringa og komust smám saman að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að sovéska fyrirmyndin væri enginn sannur sósíalismi hvað þá kommúnismi. Þetta var að því leyti nýstárlegt að niðurstaðan var ekki sprottin af pólitískum fjandskap, heldur miklu fremur upphaflegri velvild.“

Fyrr á þessu ári kom út bók sem ber heitið „Draumar og veruleiki“ eftir Kjartan Ólafsson, en við lestur hennar má ætla að ritið heiti „Kommónistaandvarpið“. Þar kemur fram að lífsskoðun flestra íslenskra sósíalista var lögð í rúst á árunum eftir 1950 og ef til vill endanlega 1968. Moggalygin var að mestu sannleikur, en það skyldi aldrei viðurkennt. „Moggalygin“ var eftir allt óráð raunveruleikans.

Flestu snúið áhvolf

Verkalýðsrekendur telja margir hverjir að skjólstæðingum sínum sé best borgið með því að hatast við fyrirtæki og atvinnurekendur. Hagnaður og arður er afrakstur af glæpastarfsemi. Þó er það svo að fyrirtæki, sem hafa hagnaðarmarkmið hafa einnig getu til að greiða laun.

Nú er skollið á „alræði öreiganna“ með því að launþegum er gert skylt að tryggja framtíð sína við öldrun og örorku með framlagi í lífeyrissjóði.

Þar er í raun fé án hirðis. Eign þess sem leggur fram af launum sínum er ekki skráð, þó „eign og réttindi“ séu metin. Meðferð lífeyriseigna annarra ræðst af samvisku og viti stjórnarmanna í lífeyrissjóðum. Oft vill það verða svo að „einfaldur hór er mál sem menn eiga fyrst og fremst við samvisku sína.“ Ein röng ákvörðun er eins og einfaldur hór. Röng ákvörðun stjórnarmanns, sem byggist á hatri, getur varla talist einfaldur hór.

Auðmagnið

Hið eiginlega auðmagn er nú í fárra höndum, það er að segja stjórnarmanna í lífeyrissjóðum. Stjórnmenn lífeyrissjóða eru bundnar af sömu lögmálum og stjórnarmenn í fyrirtækjum. Stjórnarmenn í lífeyrissjóðum eiga aðeins að gæta hagsmuna sjóðfélaga varðandi lífeyri.

Vitfirrtir menn hafa sagt í þingræðum að það sé samfélagsleg skylda lífeyrisjóða að standa undir hagvexti í landinu.

Hættulegastir af öllum eru skuggastjórnendur í lífeyrissjóðum. Þeir haga sér á þann veg, að hin eiginlega stjórn sem á að vera sjálfstæð í störfum sínum er þvinguð til annarlegrar niðurstöðu í málum, niðurstöðu sem er ætlað að tryggja óeðlilega hagsmuni. En hagsmuni hverra? Það er ekki alltaf augljóst. En víst er að það eru ekki hagsmunir sjóðfélaga.

Niðurstaða úr hlutafjárútboði Icelandair

Niðurstaðan úr hlutafjárútboði Icelandair í síðustu viku er um margt athyglisverð. Niðurstaðan verður skráð sem traust. Það er morgunljóst að Icelandair á í erfiðleikum. Það er einnig  ljóst að margir eru haldnir flugvisku. Þeir eru einnig til, sem eru haldnir þeirri fullvissu að Icelandair vinni mjög gegn viðskiptavinum sínum.

Ekki liggur ljóst fyrir hvað hver og einn þeirra sem skrifaði sig fyrir hlutum í Icelandair ætlaði sér með kaupunum. Heldur er ekki ljóst hverjir eru stórir eða smáir. Miðað við fjölda áskrifenda virðst sem „alþýða og athafnlíf“ tengist saman í útboðinu. Þá er ekki verið að tala um „alræði öreiganna“.

Niðurstaða hlutafjárútboðsins sýnir fyrst og fremst trú kaupendanna á því að stjórnendur Icelandair hafi lagt fram trúverðugar áætlanir á óvissutíma. Stjórnendur Icelandair eru hirðar þeirra fjármuna sem gamlir og nýjir hluthafar leggja fram.

Stjórnendum Icelandair ber að standa áskrifendum skil á þessum fjármunum í nálægri framtíð. Áskriftin byggðist á trausti. Það eru skyldur, sem lagðar eru á stjórnendur Icelandair, að leitast við að reka fyrirtækið með ásættanlegum hagnaði. Hinn ásættanlegi hagnaður gengur að lokum til hluthafa í réttu hlutfalli við hlutafjáreign.

Alþýðan tengist með beinum hætti athafnalífinu með hlutafjáreign sinni, og með óbeinum hætti með aðild sinni að lífeyrissjóði.

Vernd hluthafa

Það mikla traust sem fram kemur hjá kaupendum hlutabréfa í Icelandair er athyglisvert í ljósi sögunnar og því ranglæti sem minni hluthafar á íslenskum hlutabréfamarkaði hafa mátt búa við til skamms tíma. Það er mikið böl og þyngra en tárum tekur sú meðferð sem hluthafar máttu þola af stórum hluthöfum á árunum frá 1998 til 2008. Markaðsmisnotkun og þjónkun við stóra hluthafa á kostnað lítilla hluthafa var regla en ekki undantekning. Forstjórar banka létu skrá sig að kvöldi fyrir áskrift í hlutafjárútboði með því að falsa tímasetningu, ef hlutabréf höfðu hækkað innan dags.

Yfirtökuskylda stórra hluthafa var ekki virt með því að falsa gögn og fela eignarhald í skattglæpaskjólum. Falsaðir ársreikningar skráðra fyrirtækja, stundum með beinum lygum, voru lagðir fram og áritaðir af „virtum“ endurskoðunarfyrirtækjum með erlendum nöfnum. Það voru hluthafar, sem völdu endurskoðunarfyrirtæki, sem trúnaðarmenn, en trúnaðurinn var aðeins við stjórn og stjórnendur.

Skaðabætur, sem þau fyrirtæki hafa greitt, komu í hlut kröfuhafa en ekki hluthafa. Slitastjórnir hafa gætt hagsmuna kröfuhafa en ekki hluthafa.

Upplýsingaöflun hluthafa þurfti að fara fram fyrir milligöngu dómstóla, þar sem upplýsingar voru dregnar fram með töngum. Upplýsingaskortur var vernd fyrir þá sem til saka höfðu unnið. Öfug sönnunarbyrgði var ekki í boði. Og „business judgemnt rule“ gilti sem sannleikur fyrir dómgreinarlausa vesalinga.

Dómsmálum var vísað frá án málflutnings vegna sönnunarbyrðar, sem lögð var á hlunnfarna hluthafa.

Síðast en ekki síst var afstaða fjölmiðla oftar en ekki fjandsamleg atvinnulífi, þar sem atvinnulífið á samkvæmt spurningum fjölmiðlamanna að vinna gegn samfélaginu.

Stjórnvöld hafa ekki unnið úr niðurstöðum dómsmála eftir hrun.

Er ástæða til þess að hvetja almenning til hlutabréfakaupa við þessi skilyrði eða má lifa í þeirri trú að þetta sé liðin tíð?

Draumar, veruleiki og óráð raunveruleikans

Það er hlutskipti stjórnenda Icelandair að stuðla að farsælli framtíð félagsins. Hluthafar í Icelandair mega ekki vakna upp við óráð þess veruleika, sem kommónistar vöknuðu upp við á síðustu öld og þrjóskuðust við að viðurkenna.

Spakmæli vettvangsins

„Spakmæli frelsa mann frá því að hugsa, nema þau séu sögðu á raungum stað eða rángri stundu, og þá helst hvorttveggja í senn, gjarnan með merkissvip og draga niður í sér röddina.“

Svo er oft með kommónista, verkalýðsrekendur og lýðsleikjur á fjármálamörkuðum.