Allt eða ekkert í stjórnarskrármálum?
'}}

Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Nú síðsum­ars sendi for­sæt­is­ráðuneytið er­indi til Fen­eyja­nefnd­ar­inn­ar, sem er ráðgjaf­ar­nefnd Evr­ópuráðsins á sviði stjórn­skip­un­ar og lýðræðis­legra stjórn­ar­hátta.

Efni er­ind­is­ins var að fá álit á drög­um að nokkr­um nýj­um stjórn­ar­skrárá­kvæðum, sem unnið hef­ur verið að á und­an­förn­um miss­er­um í nefnd, sem skipuð er for­mönn­um allra þeirra átta stjórn­mála­flokka, sem full­trúa eiga á Alþingi, og kynnt hafa verið op­in­ber­lega í svo­kallaðri sam­ráðsgátt stjórn­valda. Þetta eru ný ákvæði um um­hverf­is­vernd og nátt­úru­auðlind­ir, auk end­ur­skoðaðs kafla um æðstu hand­hafa fram­kvæmd­ar­valds­ins, for­seta, rík­is­stjórn o.fl. Þessu til viðbót­ar fékk Fen­eyja­nefnd­in sent ákvæði um þjóðar­at­kvæðagreiðslur að kröfu til­tek­ins fjölda kjós­enda, sem ekki hef­ur verið unnið að með sama hætti og gild­ir um fram­an­greindu til­lög­urn­ar, held­ur á ræt­ur að rekja til stjórn­ar­skrár­nefnd­ar, sem var að störf­um á ár­un­um 2013 til 2016.

Bú­ast má við að Fen­eyja­nefnd­in skili áliti sínu inn­an skamms og á næstu vik­um mun líka skýr­ast hvort og í hvaða bún­ingi þessi frum­vörp verða lögð fram á Alþingi. Meðal ann­ars á eft­ir að koma í ljós hvort for­menn hinna ýmsu flokka í stjórn og stjórn­ar­and­stöðu verða reiðubún­ir til að standa að flutn­ingi frum­varp­anna, en þeir hafa ekki skuld­bundið sig til þess ennþá, þótt þeir hafi fall­ist á að til­lög­urn­ar væru ann­ars veg­ar birt­ar í sam­ráðsgátt og hins veg­ar send­ar til um­fjöll­un­ar hjá Fen­eyja­nefnd­inni. Það er því al­veg ótíma­bært að spá fyr­ir um af­drif þess­ara til­lagna, en á hinn bóg­inn er ljóst að full ástæða er til að þær fái tals­vert rými í op­in­berri umræðu á næstu vik­um og mánuðum, enda eru þetta al­vöru til­lög­ur sem krefjast al­vöru skoðunar, mik­ill­ar yf­ir­legu og vandaðrar málsmeðferðar, þótt skoðanir geti auðvitað verið skipt­ar um efni þeirra og fram­setn­ingu.

Ég hef fyr­ir mitt leyti stutt þá vinnu, sem átt hef­ur sér stað á veg­um formanna flokk­anna, en áskil mér hins veg­ar auðvitað full­an rétt til að hafa efa­semd­ir um ein­stak­ar til­lög­ur, bæði um inni­hald og út­færslu. Þannig er vafa­laust um fleiri, en eigi að nást ein­hver niðurstaða í svona vinnu þarf ann­ars veg­ar að eiga sér raun­veru­leg mál­efna­leg umræða og hins veg­ar er óhjá­kvæmi­legt að gera mála­miðlan­ir, svo um niður­stöðuna ná­ist sæmi­lega breið samstaða. Frá mín­um bæj­ar­dyr­um séð er mik­il­vægt að stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar séu ekki gerðar nema að vel yf­ir­lögðu ráði og í víðtækri sátt, enda er stjórn­ar­skrá grund­völl­ur stjórn­skip­un­ar rík­is­ins og annarr­ar laga­setn­ing­ar í land­inu, og óheppi­legt að henni sé breytt ótt og títt eft­ir því hvernig hinir póli­tísku vind­ar blása á hverj­um tíma. Ef stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar eru þvingaðar fram í krafti ein­falds meiri­hluta­valds eru veru­leg­ar lík­ur á að breytt verði til baka þegar nýr meiri­hluti hef­ur mynd­ast. Stjórn­ar­skrá­in á að geta staðið óhögguð þótt svipt­ing­ar verði á stjórn­mála­sviðinu og hef­ur ein­mitt mikið gildi sem kjöl­festa á óróa­tím­um, eins og sýndi sig til dæm­is á ár­un­um eft­ir hrun banka­kerf­is­ins fyr­ir ell­efu árum.

Mála­miðlan­ir í kjöl­far mál­efna­legra rök­ræðna eru að mínu mati vís­asta leiðin til að kom­ast út úr þeim skot­grafa­hernaði, sem ríkt hef­ur í stjórn­ar­skrárum­ræðum hér á landi und­an­far­inn ára­tug. Í hvert skipti sem lagðar hafa verið fram ein­hverj­ar til­lög­ur að af­mörkuðum stjórn­ar­skrár­breyt­ing­um hafa komið fram há­vær­ar radd­ir um að eng­ar breyt­ing­ar megi gera, sem ekki feli í sér að til­lög­ur stjórn­lagaráðs frá 2011 verði all­ar samþykkt­ar, annaðhvort óbreytt­ar eða í sam­ræmi við þær breyt­ing­ar­til­lög­ur sem meiri­hluti stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar Alþing­is lagði til vet­ur­inn 2012 til 2013. Það dugi ekki að vinna verkið í áföng­um og taka fyr­ir eina, tvær eða þrjár breyt­ing­ar­til­lög­ur í einu – ekk­ert sé ásætt­an­legt nema sú niðurstaða að umskrifa nær all­ar 80 grein­ar gild­andi stjórn­ar­skrár og bæta 34 nýj­um við. Allt annað séu hrein svik. Krafa þeirra sem svona tala er með öðrum orðum: Allt eða ekk­ert! Les­end­ur geta svo velt því fyr­ir sér hversu mikl­um ár­angri menn ná með slíkri nálg­un og hversu lík­legt sé að hún skili ein­hverj­um raun­veru­leg­um ávinn­ingi þegar horft er til ein­stakra mál­efna sem menn bera fyr­ir brjósti.

Eins og fram kom hér að fram­an má bú­ast við því að lín­ur fari að skýr­ast á næstu vik­um um það, hvort samstaða ná­ist á hinum póli­tíska vett­vangi um nokkr­ar, af­markaðar stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar. Fyrst reyn­ir á hverj­ir verða til­bún­ir til að standa að flutn­ingi slíkra frum­varpa, og svo í fram­hald­inu hvort nægi­lega víðtæk sátt verði um fram­gang þeirra á Alþingi, bæði því sem nú sit­ur og eins og á nýju þingi að aflokn­um alþing­is­kosn­ing­um. Margt er enn óvíst í þessu sam­bandi. Ég tel hins veg­ar full­víst, að þeir muni litl­um ár­angri ná, sem enn eru fast­ir í at­b­urðum vors­ins 2013. Síðan hef­ur mikið vatn runnið til sjáv­ar, þris­var verið kosið til Alþing­is, sam­setn­ing þings­ins breyst fram og til baka, nýir meiri­hlut­ar mynd­ast og horfið, stjórn­mála­flokk­ar verið stofnaðir og horfið, og umræður um stjórn­ar­skrár­mál breyst með ýms­um hætti. Þetta ættu all­ir að horf­ast í augu við.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. september 2020.