Hverjum finnst sinn fugl fagur. Þannig finnast mér fjármál vera göfugust fræðigreina innan viðskiptafræða. Fjármál eru undirgrein stærðfræði. Forsenda fegurðar fjármála er sú að vera efnahagslega læs á fortíðina með þekkingu á reikningshaldi. Það læsi nær fyrst og fremst til lestrar og skilnings ársreikninga. Píratar virðast ekki efnahagslega læsir.
Ársreikningar byggjast á skipulegri skráningu á fjárhagslegum upplýsingum. Ársreikningur nær aldrei til framtíðar að öðru leyti en því að lýsa hvaða skuldbindingar hvíla á rekstrinum. Það eru mikil verðmæti fólgin í því að hafa staðið við fjárhagslegar skuldbindingar í fortíðinni.
Bankar, tannlæknar og hárskerar
Það er fróðlegt að velta fyrir sér trúnaðarsambandi þeirra sem eiga viðskipti. Allur trúnaður er líkur þeim sem ríkir á milli læknis og sjúklings, eins og í Hippocratesareiði. Aðeins má rjúfa ef alþjóðarheill krefst.
Trúnaðarsamband fjármálafyrirtækisins og viðskiptavinar er algjört og verður aðeins rofið með úrskurði dómstóla. Trúnaðarsamband tannlækna og hárskera er svipað. Það nær þó ekki til þess sem látið er vaða í samtölum þegar skjólstæðingurinn situr í stólnum.
Það fylgir trúnaðarsambandi banka og fyrirtækis að bankinn stendur með fyrirtækinu í gegnum erfiðleika, á grundvelli raunsærra áætlana um framtíðina. Það eru aðeins glæpabankar sem ráðast á fyrirtæki; fyrirtæki í heiðvirðum viðskiptum. Nærtækt er að minnast þess þegar Landsbanki Íslands réðst á Eimskipafélag Íslands árið 2003. Þar var trúnaður rofinn og bankinn fór í glötun.
Landsbanki Íslands, árin 1980 til 2003, stóð með Icelandair! Það var ekki alltaf góðæri á þeim tíma, verðbólga á Íslandi og einnig í Bandaríkjunum og vextir háir. Flugleiðir hf. höfðu einnig traust Boeing og bandarískra og japanskra banka. Lán til flugvélakaupa voru með 0,375% álagi á LIBOR-vaxtakjör á þeim tíma.
Það traust var undirstaða og forsenda fyrir kaupum félagsins á 7 nýjum flugvélum á árunum 1985-1990, þrátt fyrir laka eiginfjárstöðu samkvæmt ársreikningi. Traustið byggðist á trúverðugum áætlunum um framtíð flugs til og frá Íslandi.
Bankar, sem koma á svæði með gróin viðskiptasambönd, fá aðeins hrakval viðskiptavina. Fyrirtæki, sem staðin eru að ósannsögli lenda í hrakvali banka og njóta ekki trausts.
Geta til að afla tekna
Í sinni einföldustu mynd segir kenning Franco Modigliani og Merton Miller að fjármagnssamsetning skipti ekki máli, það sem skiptir fyrst og fremst máli er geta fyrirtækis til að afla tekna til að standa við skuldbindingar. Á þeirri forsendu byggðust lánveitingar vegna flugvélakaupa þegar flugvélaflotinn var endurnýjaður. Vissulega er hugsanlegur kostnaður vegna gjaldþrots ekki með í kenningu MM og ýmsar aðrar einfaldanir.
Aðstæður í dag eru um margt svipaðar þeim sem uppi voru þegar flugvélaflotinn var endurnýjaður á árunum 1985-1990.
Ríkisábyrgðir
Sú var tíð að ráðamenn fóru frjálslega með ríkisábyrgðir. Togarakaup voru fjármögnuð með ábyrgð ríkissjóðs og jafnvel frystihúsabyggingar. Að auki voru eigendaábyrgðir vegna fjármálafyrirtækja og Landsvirkjunar. Það er rétt og eðlilegt að fara varlega með ríkisábyrgðir vegna fyrirtækja á frjálsum markaði. En, upp kunna að koma aðstæður sem meta þarf sérstaklega til að lágmarka tjón í samfélagi.
Það á við um kerfislega mikilvæg fyrirtæki. Fyrirtæki, sem leggur til um 3,5% af landsframleiðslu og greiðir há laun er kerfislega mikilvægt.
Ríkisábyrgð er aðeins veitt gegn gjaldi. Stuðningurinn felst í sölu á lánstrausti ríkissjóðs. Ef allt er með felldu og vel gengur er það ríkissjóður sem fær gjaldið án útláta.
Ummæli ráðamanna þess efnis að önnur fyrirtæki komi í stað þeirra sem hverfa eru ómarktæk kennisetning um kerfislega mikilvæg fyrirtæki.
Ríkisábyrgð nú er langt innan við framlag þýska ríkisins til LUFTHANSA.
Aðgerðir ríkisstjórnar í Covid
Hver kreppa og hvert bakslag er nýtt af nálinni. Aðgerðir þessarar ríkisstjórnar til að takast á við þær aðstæður sem upp hafa komið í heimsfaraldrinum byggjast fyrst og fremst á því að viðhalda vinnuréttarsambandi launtaka og atvinnurekenda. Atvinnuleysisbætur eru þrautavaraleið.
Aðgerðirnar miða einnig að því að lágmarka þann kostnað sem verða mun við að endurræsa hagkerfið þegar faraldri lýkur eða þegar sóttvarnir leyfa. Það kann að vera að íslenskir bankar fari á mis við hagnað að sinni, en bankar reyna að lágmarka sín töp með því að standa með sínum viðskiptavinum í von um að úr rætist.
Forsendur í rekstri
Samkvæmt M&M skiptir fjármagnssamsetning ekki máli. Það eru rekstrarforsendur sem fyrirtæki stendur og fellur með. Hver er geta fyrirtækis til að afla tekna? Hvernig mun sjóðstreymi fyrirtækis þróast? Allar skuldir skulu að lokum greiðast með peningum í þeim gjaldmiðli sem lánin voru tekin í.
Ef Icelandair kemst í gegnum hrakfarir vegna Covid - Covid er ekki heimatilbúið vandamál Icelandair - þá kemst fyrirtækið í gegnum hrakfarirnar jafnt með lánsfé sem eigin fé. Það að veita ríkisábyrgð á 100% fjárþörf fyrirtækisins er ekki goðgá ef rekstrarforsendur eru rétt metnar.
Að ríkisvæða og einkavæða
Það eru klisjur þeirra sem ekki þekkja til reksturs Icelandair og erfiðleika félagsins í Covid-faraldri að það eigi að ríkisvæða tapið en einkavæða hagnaðinn.
Á það skal minnst að íslenska ríkið hefur komið upp umfangsmiklu tryggingakerfi til atvinnuleysisbóta. Það er markmið að lágmarka það tjón sem verður af völdum Covid.
Með ríkisábyrgð á lánum og væntum jákvæðum árangri eru það ekki feitir kallar sem hljóta ávinninginn. Það verður hópur vinnandi fólks, sem greitt hefur í lífeyrissjóði. Ríkissjóður mun hafa ávinning af því með skattgreiðslum af lífeyrisbótum og skerðingum á bótum almannatrygginga.
Það verður einnig starfsfólk Icelandair, sem nýtur jákvæðs árangurs. Það verður ferðaþjónustan í heild, sem nýtur árangurs af leiðakerfi Icelandair, því það mun taka mjög skamman tíma að endurræsa markaðsstarf Icelandair.
Vert er að minnast orða Jónasar Haralz bankastjóra þegar illa gekk hjá Flugleiðum og hugmynd kom um að ríkisvæða Flugleiðir. „Þetta er það vitlausasta sem þið getið gert. Hvaða vanda haldið þið að það leysi að ríkið yfirtaki félagið? Til hvers haldið þið að það leiði?“
Að lokum má minna á að stór hluti af rekstrarforsendum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er tengiflug Icelandair. Slíkt tengiflug tekur mörg ár að byggja upp að nýju.
Reikningsdæmi og stærðfræði
Ríkisábyrgð á lánum er reikningsdæmi. „Stærðfræði er aungri námsgrein lík. Að reikna, það er eins og að sjá sólina koma upp mörgum sinnum á dag.“