Um styrkleika

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Glíman við heimsfaraldur á borð við Covid-19 reynir mjög á öll samfélög. Áskorun af þessu tagi getur afhjúpað bæði styrkleika og veikleika í samfélagsgerð, þjóðarsál og stjórnmálum.

Víða hefur réttilega verið höfðað til samstöðu um að fylgja vísindalegum ráðleggingum. Þó að nauðsynlegt sé að styðjast við bestu mögulegu þekkingu og ráðgjöf býður viðfangsefnið þó ekki upp á einföld og afdráttarlaus svör. Viðbrögð og ákvarðanataka markast því ekki einungis af ófullkominni vísindalegri þekkingu um sjúkdóminn heldur einnig af dómgreind og pólitískri forgangsröðun. Þótt við þráum öll skjól og fullvissu á óvissum og ögrandi tímum, þá stendur okkur engin fullvissa til boða önnur en sú að allt sé óvissu háð.

Flokkamunur vestanhafs

Ekki er augljóst að viðbrögð við faraldrinum fari alltaf eftir skýrum hugmyndafræðilegum átakalínum eða flokkadráttum. Þó má finna áhugaverðar vísbendingar um tilhneigingu í þá átt, til dæmis í Bandaríkjunum.

Scientific American sagði í sumar frá greiningu á afstöðu bandarískra þingmanna til faraldursins. Skoðaðar voru um 30 þúsund twitter-færslur þingmanna beggja flokka. Í ljós kom greinilegur munur. Þingmenn demókrata notuðu oftast orðin „heilsa“, „skimun“ og „veikindaleyfi“ en þingmenn repúblikana notuðu helst orðin „sameinuð“, „Kína“ og „viðskiptalífið“. Áherslumunurinn var augljós.

Forsprakki rannsóknarinnar taldi að þessar ólíku áherslur torvelduðu glímuna við faraldurinn af því að stuðningsmenn flokkanna fengju gerólík skilaboð. Þess má geta að skoðanakannanir í Bandaríkjunum hafa einmitt sýnt að mikill munur er á afstöðu kjósenda flokkanna til faraldursins og viðbragða við honum. Fyrrnefndur rannsakandi bar þetta ástand saman við þá miklu samstöðu sem einkenndi áherslur beggja flokka fyrst í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001.

Gildi samstöðu

Því verður varla mótmælt að samstaða stuðlar almennt að betri árangri í baráttunni við ógnir og áskoranir. Það er þó auðvitað háð því að samstaðan sé um skynsamlega og yfirvegaða stefnu.

Glíman við Covid-19 er flókin og margslungin og því ekki óeðlilegt að áherslur séu misjafnar. Og meira að segja í kjölfar hryðjuverkanna 2001, þar sem mikill einhugur og samstaða ríktu í byrjun, kviknaði fljótt gagnrýnin umræða um rétt viðbrögð; ekki bara um hernaðaraðgerðir heldur líka um umdeildar takmarkanir á persónufrelsi og friðhelgi einkalífs, sem réttlættar voru með baráttunni við hryðjuverk. Slík gagnrýnin umræða er nauðsynleg í lýðræðislegu mannréttindasamfélagi. Ef einhver samstaða má ekki bresta, þá er það einmitt samstaðan um mikilvægi gagnrýninnar hugsunar.

(Því má skjóta inn hér að kannski mætti sýna fram á að töluverð líkindi væru með umræðunni 2001 og núna, nema hvað hlutverk flokkanna hefðu víxlast. Það væri verðugt rannsóknarefni út af fyrir sig og gæti kannski varpað áhugaverðu ljósi á umræðuhefð stjórnmálanna.)

Það er dýrmætt að nálgun stjórnvalda í hverju landi njóti stuðnings hjá sem flestum og valdi ekki klofningi og úlfúð. En þó að ákvarðanirnar séu byggðar á bestu mögulegu þekkingu, ásamt yfirveguðu mati á margvíslegum hagsmunum, er ekki víst að bestu ákvarðanirnar verði alltaf þær vinsælustu. Hin dýrmæta samstaða verður að spretta úr trausti, sem vinnst með rökstuðningi, samtali, gagnsæi og auðmýkt gagnvart óvissunni. Þar hefur okkur Íslendingum farnast vel til þessa.

Bjartsýni á framtíðina

Við eigum mikið undir því að Ísland „komist í gang“ sem fyrst, bæði í efnahagslegu og samfélagslegu tilliti. Þar er réttilega mikið horft til landamæranna sem þurfa að vera eins opin og óhætt þykir, svo að Ísland einangrist ekki efnahagslega og menningarlega. Einangrun frá umheiminum er sjálfstæð ógn.

Skylda okkar er að draga úr skaðanum á samfélaginu í heild og gera þjóðinni mögulegt að lifa í samfélagi sem einkennist af framtakssemi og lífsgleði en ekki doða og kvíða.

Eins og margoft hefur verið sagt eru ekki forsendur til að halda að fólki voninni um „veirufrítt land“. Á meðan Covid-sjúkdómurinn er að ganga í heiminum er mun ábyrgari afstaða að gera ráð fyrir að veiran muni berast hingað en að skipuleggja samfélagið út frá þeirri forsendu að mögulegt sé að einangra þjóðina í nokkurs konar sameiginlegri veirulausri sóttkví frá umheiminum. Þessi stefna endurspeglast í þeirri ákvörðun nú í vikunni að slaka á sóttvarnaaðgerðum innanlands jafnvel þó að enn séu að greinast smit.

Við höfum ýmis tækifæri til að sækja fram á þessum tímum. Hinir mörgu kostir Íslands eru að verða sífellt skýrari og betur þekktir í alþjóðlegu samhengi og í því felast mörg tækifæri. Við munum líka sækja fram í nýsköpun og fjárfestingum og fleiri sviðum. Og við munum aftur sækja fram í ferðaþjónustu, mögulega kröftugri en nokkru sinni fyrr.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 6. september 2020.