Eru þrír trójuhestar í vegi samgöngusáttmála?

Jórunn Pála Jónasdóttir varaborgarfulltrúi skrifar:

Bráðum er eitt ár liðið frá því að Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og ríkið undirrituðu samgöngusáttmálann. Sáttmálinn kveður meðal annars á um forgangsröðun tiltekinna  framkvæmda á næstu fimmtán árum og þá á að tryggja tengingar við Sundabraut. Fjármálaráðherra lét hafa eftir sér í viðtali við Morgunblaðið að Sundabrautin væri órjúfanlegur hluti sáttmálans. Athygli vekur að í grennd við þrjár samgönguframkvæmdir sem eiga að vera í forgangi hefur borgin jafnframt kynnt annars konar uppbyggingu og velta má fyrir sér hvort með því sé verið að auka flækjustig eða fækka mögulegum útfærslum á framkvæmdum í samgöngusáttmála.

  1. Sundabraut

Fyrst að Sundabraut: Nú er unnið að því að reisa smáhýsi í Gufunesi. Á síðasta borgarstjórnarfundi var borgarstjóri spurður að því hvort þau séu ekki reist þannig að lega þeirra skarist við eina af mögulegu útfærslum Sundabrautar, þeirri hagkvæmustu af þeim möguleikum sem eftir eru samkvæmt mati Vegagerðarinnar, en eins og áður hefur komið fram er Vogabyggð skipulögð í legu þeirrar leiðar sem var upphaflega talin hagkvæmust. En aðspurður um smáhýsin sagði borgarstjóri svo ekki vera þar sem ljóst væri að gera ætti jarðgöng (sjá hér, frá mínútu 14). Í viðtali um síðustu helgi nefndi formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar hinsvegar brú sem möguleika (sjá hér). Í sömu vikunni tala kjörnir fulltrúar meirihlutans því í kross um legu Sundabrautar. Legan er ekki ljós og þau geta því varla fullyrt að smáhýsin séu ekki á óheppilegum stað. Í öðru lagi er nú verið að reisa og selja íbúðir í Gufunesi. Í kynningu á framkvæmdunum kemur hvergi fram að þær gætu orðið í miklu návígi við Sundabraut en þó hefur verði gefið út að kálgarðar sem fylgja íbúðunum eru beinlínis í helgunarsvæði hennar (sjá hér, frá mínútu 10). Það hlýtur að vera sanngjörn krafa að upplýst sé skilmerkilega um þetta. Persónulega ímynda ég mér að það yrði að minnsta kosti mikið svekkelsi að kaupa óaðvitandi íbúð í íbúðakjarna beint ofan í Sundabraut en íbúðirnar eru einmitt hugsaðar fyrir þá sem kjósa sér að eiga ekki bíl. Það segir sig einhvern veginn sjálft.

  1. Gatnamót við Reykjanesbraut og Bústaðaveg

Þá að gatnamótum við Bústaðaveg og Sprengisand en vestan við þau eru hafnar framkvæmdir á bættu neti hjólastíga og færsla á hluta Bústaðavegar sem er auðvitað jákvæð þróun. En það gefur augaleið að fyrst að Vegagerðin hefur metið það svo í áraraðir að það þurfi að laga þurfi ofangreind gatnamót, bæði vegna þess að þau eru ein þau umferðarþyngstu á landinu og vegna þess að af öllum gatnamótum verða þar næstflest slys með meiðslum, hefði farið betur á því að vinna hönnun á þessum tveimur framkvæmdum samhliða. Yfirstandandi framkvæmdir við Bústaðaveg voru hinsvegar boðnar út eftir undirritun sáttmálans og áður en nákvæm útfærsla á breytingu gatnamótanna við Reykjanesbraut og Bústaðaveg samkvæmt samgöngusáttmála liggur fyrir.

  1. Gatnamót við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut

Nú að Arnarnesveg og Breiðholtsbraut. Í nýju hverfisskipulagi Breiðholts er kynnt til leiks spennandi hugmynd um Vetrargarð við skíðabrekkuna fyrir ofan Jafnasel þar sem hægt verður að skíða allt árið. Vetrargarðurinn myndi liggja ansi nálægt Arnarnesvegi sem samkvæmt gögnum sem vísað er til í samgöngusáttmála á að verða stofnbraut með mislægum gatnamótum. Þegar spurt var um þessa nálægð á kynningarfundi um skipulagið kom fram að Vegagerðin myndi þurfa að aðlaga sig að Vetrargarðinum og að ekki væri pláss fyrir mislæg gatnamót. Þetta vakti furðu þeirra sem mættu sem spurðust frekar fyrir um málið á fleiri stöðum og bentu á í hvað stefndi. Nokkrum dögum síðar var komið annað hljóð í strokkinn og á veffundi á vegum Reykjavíkur var skipulagið kynnt á hinn veginn, það er að lega Vetrargarðs verði háð gatnamótunum. Formleg kynning að nánari útfærslum á Arnarnesvegi hefur verið boðuð í samgöngu- og skipulagsráði í dag og þá kemur í ljós í hvorn fótinn Reykjavíkurborg ætlar að stíga.

Þrengt að samgöngusáttmála með aukinni óvissu

Af öllu ofansögðu virðist borginni liggja á að ráðast í framkvæmdir einmitt á fyrrnefndum stöðum og að skipuleggja ofan í hálsmálið á bættum tengingum í samgöngukerfinu. Það er nánast útilokað að um hreina tilviljun sé að ræða en þörfin á framkvæmdunum í samgöngusáttmála hefur legið fyrir í fjölmörg ár, þar að baki liggur meðal annars mat Vegagerðarinnar og ekki að ástæðulausu sem þetta heita forgangsframkvæmdir. Hvort sem er blasir við hugsanleg sóun á opinberum fjármunum og glötuð tækifæri í skilvirku framtíðarskipulagi.

Formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar hefur lofað að sáttmálinn skuli standa en einnig sagt að Sundabraut gæti verið trójuhestur. Hugsanlega var hún þá með í huga sína trójuhesta, það er að segja ákvarðanir meirihlutans að skipuleggja með þeim hætti að þegar upp er staðið verði ómögulegt að gera nauðsynlegar betrumbætur á samgöngumannvirkjum samkvæmt sáttmálanum. Það samræmist ekki markmiðum hans, sem miða einmitt að því að auka öryggi vegfarenda, gera allt samgöngukerfið skilvirkara og færa það þar með í átt að loftlagsmarkmiðum. En ef það er staðan er ljóst að samgöngusáttmálinn er fallinn um sjálft sig.

Greinin birtist fyrst á visir.is þann 9. september 2020.