Að hafa það heldur er sannara reynist

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Á kom­andi þing­vetri mun ég leggja fram á nýj­an leik frum­varp um ærumeiðing­ar. Með frum­varp­inu er leit­ast við að færa lagaum­hverfi meiðyrðamála til nú­tíma­horfs. Refs­ing­ar vegna ærumeiðinga yrðu að meg­in­stefnu til aflagðar í þágu tján­ing­ar­frels­is. Al­menn ákvæði laga um ærumeiðing­ar yrðu færð úr al­menn­um hegn­ing­ar­lög­um yfir í sér­stök lög á sviði einka­rétt­ar. Sú breyt­ing hef­ur verið gerð á frum­varp­inu frá fyrri út­gáfu þess síðastliðið vor að nafn­laus­ar ærumeiðing­ar yrðu sér­stakt hegn­ing­ar­laga­brot. Rógs­her­ferðir, neteinelti og annað af því tagi myndi því áfram sæta rann­sókn af hálfu lög­reglu eft­ir kröfu þess sem mis­gert er við.

Á und­an­förn­um árum hafa flest mál sem snúa að ærumeiðing­um beinst að blaðamönn­um. Því hef­ur verið haldið fram að óprúttn­ir aðilar hafi notað slík­ar mál­sókn­ir sem verk­færi til þögg­un­ar. Sama gild­ir um hót­an­ir gagn­vart blaðamönn­um um mál­sókn­ir ef ákveðnum frétta­flutn­ingi verði haldið áfram. Flest­ir þeirra sem gerst þekkja telja að úr­elt lagaum­hverfi sé á skjön við ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar og mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu um tján­ing­ar­frelsi. Nú­ver­andi lagaum­hverfi virki bein­lín­is gegn frelsi til tján­ing­ar. Með frum­varp­inu er stefnt að því að lög­in á þessu sviði end­ur­spegli þau viðmið sem viður­kennd eru af ís­lensk­um dóm­stól­um og grund­vall­ast á dóma­fram­kvæmd Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu í þess­um mála­flokki.

Gert er ráð fyr­ir þrenns kon­ar úrræðum í frum­varp­inu; miska­bót­um, bót­um fyr­ir fjár­tjón og ómerk­ingu um­mæla. Síðast­nefnda úrræðið var ekki í fyrra frum­varpi. Dóm­stól­ar gætu þá látið þann sem með sak­næm­um og ólög­mæt­um hætti meiðir æru ein­stak­lings með tján­ingu greiða miska­bæt­ur til þess sem mis­gert er við. Með sömu skil­yrðum væri unnt að dæma bæt­ur fyr­ir fjár­tjón ef því væri að skipta. Við beit­ingu þess­ara úrræða væri sam­kvæmt frum­varp­inu m.a. höfð hliðsjón af sök, efni tján­ing­ar og aðstæðum að öðru leyti. Til­greind­ar eru aðstæður sem gera það að verk­um að ekki kem­ur til bóta­ábyrgðar þegar þær eru fyr­ir hendi. Meðal þess­ara aðstæðna er að um­mæli séu sann­leik­an­um sam­kvæm eða ef um er að ræða gild­is­dóm sem sett­ur er fram í góðri trú og hef­ur stoð í staðreynd­um.

Í frum­varp­inu felst mik­il rétt­ar­bót og þá ekki síst í þágu fjöl­miðla til að fjalla um brýn þjóðfé­lags­mál. Um leið felst í ákvæðum þess krafa um vönduð vinnu­brögð frétta­manna og allra þeirra sem vilja tjá sig á op­in­ber­um vett­vangi um mál þar sem æra ein­stak­linga ligg­ur und­ir. Í þeim efn­um munu áfram gilda sem endra­nær hin fleygu vís­dómsorð Ara fróða að skylt sé að hafa það held­ur er sann­ara reyn­ist. Blaðamönn­um og öðrum þeim sem tjá sig á op­in­ber­um vett­vangi verður áfram skylt að vanda til verka, setja mál fram með hliðsjón af staðreynd­um og vera í góðri trú um sann­leiks­gildi orða sinna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. september 2020.