Hlutdeildarlán: Lyftistöng í eigin íbúð

Björn Gíslason borgarfulltrúi:

Á und­an­förn­um árum hef­ur mikið verið rætt um­hús­næðismarkaðinn, enda þörf fyr­ir íbúðir vaxið meira en sem nem­ur fjölg­un íbúða hér­lend­is. Þessi mikla um­fram­eft­ir­spurn eft­ir hús­næði hef­ur ýtt und­ir hærra hús­næðis­verð, sem hef­ur gert fólki mjög erfitt fyr­ir að kom­ast inn á hús­næðismarkaðinn. Í þessu sam­hengi næg­ir að nefna Reykja­vík, en íbúðir í bygg­ingu sem hlut­fall af heild­ar­fjölda íbúða í lok árs 2017 voru 4% þar á sama tíma og þær voru 9% í Kópa­vogi, 12% í Garðabæ og 15% í Mos­fells­bæ. Það er því ljóst að hækk­un hús­næðis­verðs að und­an­förnu er að mörgu leyti í boði meiri­hlut­ans í Reykja­vík, enda hef­ur sá meiri­hluti staðið sig einna verst í að svara þörf­inni fyr­ir hag­kvæmt hús­næði.

Hug­mynd­in að baki hlut­deild­ar­lán­um

Þessi þróun hef­ur orðið til þess að ýms­ir hóp­ar sam­fé­lags­ins hafa kallað eft­ir aðgerðum stjórn­valda í hús­næðismál­um. Aðilar vinnu­markaðar­ins – sem dæmi – hafa gert kröfu um aðgerðir af hálfu stjórn­valda sem end­ur­spegl­ast m.a. í lífs­kjara­samn­ing­un­um. Til að mæta þess­um kröf­um hafa stjórn­völd lagt fram frum­varp um hlut­deild­ar­lán sem ætlað er að hjálpa ein­stak­ling­um að eign­ast sína fyrstu íbúð og auðvelda þeim þannig að kom­ast inn á markaðinn.

Hug­mynd­in að baki hlut­deild­ar­lán­um er sú að aðstoða fólk und­ir ákveðnum tekju­mörk­um að eign­ast sína fyrstu íbúð eða þá sem hafa ekki átt íbúð í fimm ár að eign­ast aft­ur hús­næði. Aðstoð rík­is­ins felst í því að fjár­magna eig­in­fjár­kröfu við íbúðar­kaup með hlut­deild­ar­láni.

Sótt í smiðju breska Íhalds­flokks­ins

Aðferðafræðin er ættuð frá Skotlandi en hún þekk­ist einnig vel í Bretlandi. Raun­ar var það rík­is­stjórn Dav­ids Ca­merons, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands og þáver­andi for­manns breska Íhalds­flokks­ins, sem ýtti úr vör sams kon­ar verk­efni und­ir yf­ir­skrift­inni „Help to Buy“. Reynsl­an frá Bretlandi sýn­ir að hlut­deild­ar­lán­in sem voru lánuð voru end­ur­greidd fyrr en áætlað var eða í mörg­um til­fell­um inn­an fimm ára.

Í frétt Morg­un­blaðsins 31. ág­úst sl. var greint frá því að sam­kvæmt niður­stöðum þjóðhags­reikn­inga hef­ur lands­fram­leiðslan dreg­ist sam­an um 9,3% að raun­gildi á 2. árs­fjórðungi þessa árs borið sam­an við sama tíma­bil í fyrra. Skv. niður­stöðum þjóðhags­reikn­inga er þetta mesti sam­drátt­ur sem mælst hef­ur síðan árs­fjórðungs­leg­ar mæl­ing­ar hóf­ust hér­lend­is. Gera má ráð fyr­ir að sam­drátt­ur­inn verði ennþá meiri vegna heims­far­ald­urs­ins. Við því þurf­um við, sem sam­fé­lag, að bregðast.

Ýtir und­ir hag­vöxt

Leiða má að því lík­um að frum­varp um hlut­deild­ar­lán ýti und­ir hag­vöxt og örvi bygg­ing­ar­markaðinn á hár­rétt­um tíma­punkti. Ekki er hægt að ætla að aðgerðir þess­ar valdi þenslu eða bólu á hús­næðismarkaði, held­ur þvert á móti virki sem kær­kom­in inn­spýt­ing inn í efna­hags­lífið og verði liður í að stemma stigu við sam­drætt­in­um. Enda mun frum­varpið skapa hvata fyr­ir bygg­ing­araðila til að byggja hag­kvæmt íbúðar­hús­næði og örva bygg­ing­ar­markaðinn um leið.

Mik­il­vægt er að Reykja­vík­ur­borg, sem stærsta sveit­ar­fé­lagið á höfuðborg­ar­svæðinu, fari rak­leiðis að huga að því hvernig hægt sé að auðvelda bygg­ingu hag­kvæms hús­næðis samþykki Alþingi frum­varpið. Til­lög­ur borg­ar­stjóra í þeim efn­um hafa nú þegar beðið skip­brot en verk­tak­ar sem fengu lóðir út­hlutaðar fyr­ir hag­kvæmt hús­næði enduðu með því að skila þeim aft­ur til borg­ar­inn­ar. Ástæðurn­ar voru ekki síst fólgn­ar í innviðagjaldi og háu lóðaverði. Fram­boð á ódýr­um lóðum án innviðagjalda er nauðsyn­leg for­senda þess að örva markaðinn til góðs fyr­ir fyrstu kaup­end­ur.

Íbúðum þarf að fjölga um 1.830 ár­lega

Þá er fyr­ir­séð að til þess að út­rýma megi óupp­fylltri íbúðaþörf og mæta þörf­inni þarf íbúðum að meðaltali að fjölga um 1.830 ár­lega á tíma­bil­inu 2019-2040 skv. íbúðaþarfagrein­ingu Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar sem birt var á Hús­næðisþingi í lok árs 2019. Ljóst er að Reykja­vík­ur­borg þarf að leggja meira af mörk­um og sýna meiri metnað við út­hlut­un lóða svo unnt sé að mæta þörf markaðar­ins.

Niður­stöður viðhorfs­könn­un­ar meðal leigj­enda sem Íbúðalána­sjóður lét fram­kvæma árið 2019 sýndi fram á að um 85% leigj­enda segj­ast vilja búa í eig­in hús­næði. Sú staðreynd sam­rým­ist frum­varpi þessu mjög vel, enda ger­ir hún leigj­end­um kleift að eign­ast sitt eigið hús­næði. Þá ýtir frum­varpið und­ir sér­eign­ar­stefn­una sem hef­ur verið hér við lýði und­an­farna ára­tugi og hef­ur skapað mik­il lífs­gæði á Íslandi í gegn­um árin.

Frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar um hlut­deild­ar­lán er mjög já­kvætt skref, ekki síst á þeim tím­um sem nú eru uppi í sam­fé­lag­inu, en það er liður í að örva hag­vöxt. Þá hef­ur frum­varpið tekið mjög já­kvæðum breyt­ing­um í meðför­um vel­ferðar­nefnd­ar Alþing­is en nefnd­inni hef­ur tek­ist að binda lausa enda. Enn frem­ur fel­ur frum­varpið í sér hvata fyr­ir stærstu sveit­ar­fé­lög­in að skipu­leggja íbúðabyggð á hag­kvæm­um lóðum, með hús­næði á viðráðan­legu verði í huga. Það er ástæða til að hvetja alla þing­menn – hvar í flokki sem þeir standa – að styðja við frum­varpið með at­kvæði sínu, enda er það liður í að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. september 2020.