Ástandið í Hvíta-Rússlandi

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:

Ástandið í Hvíta-Rússlandi er eld­fimt eft­ir for­seta­kosn­ing­ar þar sem öll­um er orðið ljóst að svindlað var. Evr­ópu­sam­bandið viður­kenn­ir ekki úr­slit for­seta­kosn­ing­anna þar í landi og þegn­ar Hvíta-Rúss­lands segja hingað og ekki lengra.

Það bara stenst ekki að Luka­sj­en­ko hafi fengið um 80% at­kvæða. Það veit hann sjálf­ur og það veit keppi­naut­ur hans Svyatl­ana Tsik­hanou­skaya og það veit þjóðin öll. Þrátt fyr­ir aðgerðir for­set­ans til að koma í veg fyr­ir frjálsa fjöl­miðla og að frétt­ir af ástand­inu í land­inu kæm­ust í heimsmiðlana þá er heims­byggðinni það ljóst sem aldrei fyrr að ástandið í Hvíta-Rússlandi er hættu­legt og óá­sætt­an­legt.

Eft­ir að hafa sinnt kosn­inga­eft­ir­liti í Hvíta-Rússlandi við þing­kosn­ing­arn­ar í fyrra, á veg­um Örygg­is- og sam­vinnu­stofn­un­ar Evr­ópu (ÖSE), og orðið vitni að kosn­inga­s­vindli hef ég fylgst af meiri áhuga með frétt­um frá land­inu. Ég ótt­ast um þjóðina sem núna hef­ur sam­ein­ast í mót­mæl­um gegn for­seta lands­ins. Mót­mæl­end­ur hafa verið beitt­ir of­beldi og harðræði af hálfu lög­reglu og ástandið er væg­ast sagt eld­fimt. Ég vona að það þurfi ekki að koma til blóðugr­ar bylt­ing­ar en of marg­ir hafa nú þegar látið lífið í mót­mæl­um.

Við kosn­inga­eft­ir­litið í fyrra var ljóst að svindlað var, sá fjöldi sem op­in­ber­ar töl­ur gáfu upp um þann fjölda sem kosið hafði utan kjör­fund­ar stemmdi ekki við und­ir­skrift­ir á kjör­skrá. Fjöl­miðlafrelsi er afar tak­markað í land­inu og fjöl­miðlamenn hafa unn­vörp­um hrökklast úr landi. Hluti þeirra fram­bjóðenda sem vildu bjóða sig fram fékk það, á meðan öðrum var ein­fald­lega meinað að bjóða sig fram til kjörs. Allt er þetta nóg til að gera kosn­ing­arn­ar ólýðræðis­leg­ar og ómark­tæk­ar, en það keyrði um þver­bak að vera viðstödd taln­ingu at­kvæða þar sem aug­ljós­lega var búið að ákveða úr­slit­in fyr­ir fram og taln­ing­in því bara illa sviðsett leik­rit fyr­ir okk­ur eft­ir­lits­menn­ina.

Það kem­ur mér því ekk­ert á óvart að sama hafi verið uppi nú við for­seta­kosn­ing­arn­ar.

Mót­fram­bjóðandi Lúka­sj­en­kós, Tsikanou­skaya, sem tók í raun við fram­boði eig­in­manns síns eft­ir að hann var hand­tek­inn og meinað að gefa kost á sér, naut tölu­verðrar hylli al­menn­ings þótt ógjörn­ing­ur sé að segja til um hvað hún hafi raun­veru­lega borið úr být­um í kosn­ing­un­um. Eng­ar mark­tæk­ar skoðanakann­an­ir eru til svo von­laust er að vita hver raun­veru­leg­ur hug­ur kjós­enda var. En það er öll­um ljóst að hún átti mun meira inni en þau rúm­lega 10% sem op­in­ber­ar töl­ur gefa til kynna.

Ef til vill hefði Lúka­sj­en­kó kom­ist hjá þeirri heims­at­hygli sem nú blas­ir við Hvíta-Rússlandi ef hann hefði verið öllu hóg­vær­ari. En sitj­andi vald­hafi gat ekki látið það spyrj­ast út að hann hefði rétt marið kosn­ing­arn­ar og því var ákveðið að 80% at­kvæða teld­ist hæfi­legt til að tryggja sitj­andi for­seta sig­ur. En þar hafði hann rangt fyr­ir sér og lík­legt er að gervi­at­kvæðagræðgi sé það sem verði hon­um að falli. Nú er spurn­ing hvernig ná­granni hans og vin­ur Pútín bregst við hrak­för­um banda­manns síns.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. ágúst 2020.