En hvað ef þú flýgur?

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Lífið sjálft fel­ur í sér áhættu. Sá sem vill enga áhættu taka hreyf­ir sig aldrei, ger­ir eins lítið og hægt er, held­ur sig heima við, fer ekki út úr húsi, skap­ar ekk­ert, tak­mark­ar sam­skipti við aðra eins og mögu­legt er. Hægt en ör­ugg­lega vesl­ast viðkom­andi upp and­lega og lík­am­lega – verður lif­andi dauður. Dauðinn einn trygg­ir að hægt sé að koma í veg fyr­ir áhættu lífs­ins.

Hið sama á við um sam­fé­lög og ein­stak­linga. Sam­fé­lag sem lok­ar á eða tak­mark­ar til lengri tíma mann­leg sam­skipti, slekk­ur ljós­in og stöðvar hjól at­vinnu­lífs­ins, moln­ar með tím­an­um að inn­an – hætt­ir að vera sam­fé­lag frjálsra borg­ara.

Í nauðsyn­legri bar­áttu við skæða veiru erum við flest ef ekki öll fús að færa fórn­ir. Reiðubú­in til að sætta okk­ur við skert at­hafna­frelsi og skert lífs­gæði í ákveðinn tíma. Við vilj­um sýna ár­vekni en ætl­um okk­ur ekki að fórna sam­skipt­um við vini og fjöl­skyldu eða glata mögu­leik­an­um að eign­ast nýja vini. Okk­ur er nauðsyn að eiga aðgang að kryddi lífs­ins; list­um og menn­ingu, lif­andi tónlist, leik­húsi, mynd­list, upp­lestri ögr­andi skálda. Við vilj­um koma sam­an á vell­in­um til að hvetja okk­ar karla og kon­ur áfram í hörðum leik, styðja við bakið á börn­un­um okk­ar á vel skipu­lögðum íþrótta­mót­um. Við vilj­um hitta vini á góðum veit­ingastað, fagna með þeim á ynd­is­leg­um brúðkaups­degi, halda glaðan dag á af­mæl­is­degi, gleðjast á fjöl­skyldu­hátíðum og að leiðarlok­um kveðja og þakka fyr­ir dýr­mæta sam­fylgd. Við lít­um á það sem helg­an rétt að ferðast, fá að sjá nýja staði, kynn­ast mann­lífi í öðrum lands­hlut­um, í öðrum lönd­um og öðrum heims­álf­um. Við eig­um stjórn­ar­skrár­var­inn rétt til að koma sam­an og stunda viðskipti í krafti at­hafna­frels­is enda frjáls­ir borg­ar­ar. Þessi rétt­indi komu ekki af sjálfu sér, ekki frem­ur en mál- og prent­frelsi eða rétt­ur­inn til að ganga að kjör­borði og velja án þving­ana full­trúa á lög­gjaf­ar­sam­komu og í sveit­ar­stjórn­ir.

Margþætt­ur vandi

Hæsta al­manna­varn­arstigi – neyðarstigi – var lýst yfir 6. mars síðastliðinn vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Aðdrag­and­inn var nokk­ur en und­ir lok janú­ar var ljóst að heim­ur­inn stæði frammi fyr­ir al­var­legri heil­brigðisvá. Fyrsta smitið hér á landi greind­ist 28. fe­brú­ar. Að til­lögu sótt­varna­lækn­is ákvað heil­brigðisráðherra 13. mars að virkja heim­ild­ir sótt­varna­laga til að tak­marka sam­kom­ur í fjór­ar vik­ur frá miðnætti 15. mars. Þar með voru viðburðir þar sem fleiri en 100 manns komu sam­an bannaðir. Sam­hliða var skóla­hald tak­markað. Fjór­um dög­um síðar voru öll lönd skil­greind sem áhættu­svæði. Öllum ís­lensk­um rík­is­borg­ur­um og fólki með bú­setu á Íslandi sem kom til lands­ins eft­ir dvöl er­lend­is var gert að sæta fjór­tán daga sótt­kví. Frá því í fe­brú­ar höfðu þeir sem komu til lands­ins frá ákveðnum áhættu­svæðum (s.s. Norður-Ítal­íu) þurft að fara í fjór­tán daga sótt­kví.

22. mars var talið nauðsyn­legt að ganga enn lengra. Tveggja metra regl­an var inn­leidd, ekki var leyft að fleiri en 20 manns kæmu sam­an hvort held­ur í op­in­ber­um rým­um eða einka­rým­um. Tak­mark­an­ir voru sett­ar á fjölda viðskipta­vina í versl­un­um o.s.frv. Sund­laug­um, lík­ams­rækt­ar­stöðvum, skemmtistöðum, spila­söl­um, spila­köss­um og söfn­um var lokað. Hið sama var gert varðandi starf­semi og þjón­ustu sem krefst mik­ill­ar ná­lægðar milli fólks, m.a. allt íþrótt­astarf og all­ar hár­greiðslu­stof­ur, snyrti­stof­ur, nudd­stof­ur og aðra sam­bæri­lega starf­semi.

Póli­tísk ákvörðun

Í bar­átt­unni gegn veirunni voru það sótt­varn­ar­sjón­ar­mið sem réðu ferðinni. Efna­hags­leg­ir þætt­ir og mik­il­væg borg­ara­leg rétt­indi voru sett í annað og þriðja sæti. Óhætt er að full­yrða að um þetta hafi verið ágæt sátt, jafnt meðal stjórn­mála­manna og al­menn­ings. Það var póli­tísk ákvörðun und­ir for­ystu rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem lá að baki því að fylgja skyldi ströng­um regl­um sótt­varna til að verja heil­brigði lands­manna. Ábyrgðin hvíl­ir ekki á herðum sótt­varna­lækn­is, land­lækn­is eða al­manna­varna. Ábyrgðin er rík­is­stjórn­ar­inn­ar og a.m.k. þeirra þing­manna sem standa að baki henn­ar.

Aðgerðirn­ar skiluðu ár­angri. Hægt en ör­ugg­lega voru stig­in skref í að losa um höml­ur, lífið var að fær­ast í eðli­leg­ar skorður og þau hjól sem höfðu stöðvast voru far­in að snú­ast aft­ur. En svo kom bak­slag. Stjórn­völd hafa aft­ur talið nauðsyn­legt að ganga á rétt­indi borg­ar­anna og þó í orði sé ferðaf­relsi til og frá land­inu er það í raun veru­lega skert. Við ákveðnar ástæður skal nota and­lits­grím­ur, fjölda­tak­mark­an­ir eru enn í gildi og tveggja metra ná­lægðarmörk eru meg­in­regla. At­vinnu­frelsi er skert.

Ákvörðun um tak­mörk­un á at­hafna­frelsi er póli­tísk en byggð á ráðlegg­ing­um sótt­varna­yf­ir­valda. En hún hef­ur af­leiðing­ar, sum­ar hverj­ar eru ófyr­ir­séðar, ekki síst efna­hags­lega. Sú viðspyrna sem flest­ir vonuðust eft­ir næst ekki á næstu mánuðum og hún verður að lík­ind­um ekki jafn kröft­ug og reiknað var með. Efna­hags­leg gæði glat­ast og fjöldi ein­stak­linga mun missa at­vinn­una. Fjár­hags­leg staða rík­is­sjóðs versn­ar og bol­magn rík­is­ins til að veita nauðsyn­lega þjón­ustu veikist. Hið sama á við um sveit­ar­fé­lög. Mögu­leik­ar fyr­ir­tækja til að standa und­ir góðum laun­um, fjölga starfs­mönn­um, ráðast í ný verk­efni verða tak­markaðir og í mörg­um til­fell­um eng­ir. Sum sigla í strand.

„Frelsið glat­ast sjald­an allt í einu“

Þetta er sá efna­hags­legi fórn­ar­kostnaður sem er færður í bar­átt­unni við veiruna. Fé­lags­leg­ur fórn­ar­kostnaður sam­fara auknu at­vinnu­leysi og þar með verri al­mennri lýðheilsu verður seint met­inn. Íslenskt sam­fé­lag hef­ur aldrei þolað fé­lags­leg­an og efna­hags­leg­an kostnað at­vinnu­leys­is.

Efna­hags- og fé­lags­leg­ur fórn­ar­kostnaður er eitt, frels­is­fórn­in sem al­menn­ing­ur hef­ur fært er annað. Sem bet­ur fer hafa ís­lensk stjórn­völd gætt meiri hóf­semd­ar í þeim efn­um en rík­is­stjórn­ir margra annarra lýðræðis­ríkja.

„Frelsið glat­ast sjald­an allt í einu“ voru varnaðarorð skoska heim­spek­ings­ins Dav­id Hume. Tíma­bundn­ar aðgerðir sem skerða borg­ara­leg rétt­indi kunna að vera rétt­læt­an­leg­ar í nafni al­manna­ör­ygg­is. Slík­ar ráðstaf­an­ir eru neyðaraðgerðir á tím­um mik­ill­ar óvissu. En þegar stjórn­völd skerða frelsi ein­stak­linga meira en hálfu ári eft­ir að óvissu­stigi var lýst yfir hér á landi vegna kór­ónu­veirunn­ar, þá dug­ar ekki leng­ur ein­föld til­vís­un í lög um sótt­varn­ir. Heim­ild­in verður að vera skýr og af­drátt­ar­laus í lög­um og hún fæst ekki án aðkomu lög­gjaf­ans.

Kannski gefa ljóðlín­ur stjórn­völd­um, þing­mönn­um og ekki síður ein­hverj­um hag­fræðing­um inn­blást­ur. Erin Han­son, ljóðskáld frá Ástr­al­íu, orti þegar hún var aðeins 18 ára:

Frelsið bíður þín,í vind­um skýj­anna.

Og þú spyrð; en ef ég hrapa?

Ó, mín kæra,

en ef þú flýg­ur?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst 2020.