Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Undanfarna daga hafa farið fram áhugaverðar umræður um efnahagslega þætti, sem tengjast viðbrögðum stjórnvalda við veirufaraldrinum. Ýmsir hagfræðingar og fulltrúar atvinnulífsins hafa sett fram sjónarmið um efnahagsleg áhrif mismunandi sóttvarnaráðstafana og er sú umræða mikilvæg þótt hún leiði ekki til einhlítrar niðurstöðu. Við núverandi aðstæður er engin leið að segja til um áhrif einstakra aðgerða með fullri vissu en miklu skiptir að ákvarðanir byggi á eins góðum upplýsingum og kostur er.
En það er ekki bara á efnahagslega sviðinu sem óvissa ríkir. Þrátt fyrir að við vitum miklu meira um veiruna, áhrif hennar og útbreiðslu í dag en fyrir hálfu ári er erfitt, jafnvel fyrir færustu sérfræðinga, að segja nákvæmlega til um ávinning af einstökum aðgerðum út frá sóttvarnasjónarmiðum. Þar verður líka að byggja á bestu upplýsingum og rökum en um leið að horfast í augu við að óvissuþættirnir eru margir.
Skerðing borgaralegra réttinda
Heilsufarsleg og efnhagsleg sjónarmið eru þó ekki einu atriðin, sem taka þarf tillit til í sambandi við ákvarðanir á sviði sóttvarnarmála. Margvíslegar sóttvarnaráðstafanir fela í sér skerðingu á frelsi borgaranna. Með sóttvarnareglum eru settar ýmsar skorður við persónufrelsi, atvinnu- og athafnafrelsi, ferðafrelsi, fundafrelsi og svo framvegis. Þessar takmarkanir geta verið misjafnlega íþyngjandi fyrir ólíka hópa við mismunandi aðstæður, en fela þó allar í sér skerðingu á frelsisréttindum, sem teljast til grundvallarréttinda í öllum þeim ríkjum, sem byggja á lýðræði, mannréttindavernd og grundvallarreglum réttarríkisins. Þennan þátt mála má því ekki nálgast af neinni léttúð.
Lögmæti ákvarðana
Það er viðurkennt í vestrænum lýðræðisríkjum að undir ákveðnum kringumstæðum geti verið heimilt að skerða borgaraleg réttindi. Þetta birtist skýrt í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Þetta er orðað með mismunandi hætti í ýmsum ákvæðum en jafnan er gerð sú krafa að skerðingin eða takmarkanirnar styðjist við heimild í lögum og yfirleitt vísað til þess að lagaheimildin verði að byggjast á nauðsyn, almannahagsmunum eða réttindum annarra. Við túlkun ákvæða af þessu tagi er viðtekið viðhorf að lagaheimild verði að vera til staðar, hún þurfi að vera skýr og uppfylla þau efnislegu skilyrði sem tilgreind eru. Skerðing borgaralegra réttinda verður því að standast skoðun bæði út frá formlegum og efnislegum mælikvörðum.
Heimildir íslenskra stjórnvalda til að beita takmörkunum á grundvelli sóttvarnarsjónarmiða byggja einkum á ákvæðum IV. kafla sóttvarnalaga. Þar eru stjórnvöldum færðar margvíslegar og nokkuð víðtækar heimildir til að setja reglur og taka ákvarðanir á þessu sviði. Lagaheimild er því til staðar á þessu sviði en í ákveðnum tilvikum getur verið álitamál hvort um nægilega skýra heimild sé að ræða. Það er með öðrum orðum hugsanlegt að opin og almennt orðuð lagaheimild dugi ekki þegar um er að ræða tilteknar íþyngjandi ákvarðanir. Það þarf einfaldlega að meta í hverju tilviki fyrir sig og endurmeta með reglulegum hætti eftir því sem aðstæður breytast og nýjar upplýsingar koma fram. Reynist lagaheimildir óljósar eða ófullnægjandi kann svo að reyna á aðkomu löggjafarvaldsins.
Meðalhóf
En eins og sjá má hér að framan er ekki nægilegt að formleg lagaheimild sé til staðar og ekki einu sinni þótt hún geti talist skýr. Takmarkanir á borgaralegum réttindum verða líka að standast skoðun út frá fleiri sjónarmiðum. Þannig verða að vera fyrir hendi almannahagsmunir af einhverju tagi eða brýn réttindi annarra til að skerðing teljist réttlætanleg. Og jafnvel það er ekki nóg, því það verður að vera skýrt samhengi milli þeirra íþyngjandi ráðstafana sem um er að ræða og þeirra almannahagsmuna sem á að vernda. Það er með öðrum orðum ekki nóg að lagaheimild sé til staðar til að grípa til sóttvarnaráðstafana og að sýnt sé fram á hættu vegna farsóttar, það verður líka að vera hægt að sýna fram á að ráðstafanirnar séu í hverju tilviki raunverulega til þess fallnar að vinna gegn hættunni. Orsakasamhengið verður að vera fyrir hendi. Um leið verður svo að gæta þess að ekki sé gengið lengra í takmörkunum eða íþyngjandi ráðstöfunum hverju sinni heldur en nauðsynlegt er. Það á líka við um gildistíma aðgerða; þær mega ekki standa lengur en nauðynlegt er. Með öðrum orðum verður að gæta fyllsta meðalhófs þegar settar eru reglur eða ákvarðanir teknar, sem fela í sér einhvers konar skerðingu borgaralegra réttinda.
Mat og endurmat
Almennt talað tel ég að íslensk stjórnvöld hafi farið vel með valdheimildir sínar frá því farsóttin gerði vart við sig. Í stórum dráttum hafa þau reynt að feta meðalveg milli varfærni og frjálsræðis og hefur að mínu mati tekist betur upp í þeim efnum en flestum nágrannaríkjum okkar. Einstakar nýlegar ráðstafanir kunna þó að orka tvímælis – þær eru ekki hafnar yfir gagnrýni – og nauðsynlegt er að stöðugt eigi sér stað endurmat á stöðu mála, meðal annars út frá þeim sjónarmiðum sem ég hef rakið hér að framan.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. ágúst 2020.