Lögmæti, meðalhóf og viðbrögð við faraldri

Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Und­an­farna daga hafa farið fram áhuga­verðar umræður um efna­hags­lega þætti, sem tengj­ast viðbrögðum stjórn­valda við veirufar­aldr­in­um. Ýmsir hag­fræðing­ar og full­trú­ar at­vinnu­lífs­ins hafa sett fram sjón­ar­mið um efna­hags­leg áhrif mis­mun­andi sótt­varn­aráðstaf­ana og er sú umræða mik­il­væg þótt hún leiði ekki til ein­hlítr­ar niður­stöðu. Við nú­ver­andi aðstæður er eng­in leið að segja til um áhrif ein­stakra aðgerða með fullri vissu en miklu skipt­ir að ákv­arðanir byggi á eins góðum upp­lýs­ing­um og kost­ur er.

En það er ekki bara á efna­hags­lega sviðinu sem óvissa rík­ir. Þrátt fyr­ir að við vit­um miklu meira um veiruna, áhrif henn­ar og út­breiðslu í dag en fyr­ir hálfu ári er erfitt, jafn­vel fyr­ir fær­ustu sér­fræðinga, að segja ná­kvæm­lega til um ávinn­ing af ein­stök­um aðgerðum út frá sótt­varna­sjón­ar­miðum. Þar verður líka að byggja á bestu upp­lýs­ing­um og rök­um en um leið að horf­ast í augu við að óvissuþætt­irn­ir eru marg­ir.

Skerðing borg­ara­legra rétt­inda

Heilsu­fars­leg og efn­hags­leg sjón­ar­mið eru þó ekki einu atriðin, sem taka þarf til­lit til í sam­bandi við ákv­arðanir á sviði sótt­varn­ar­mála. Marg­vís­leg­ar sótt­varn­aráðstaf­an­ir fela í sér skerðingu á frelsi borg­ar­anna. Með sótt­varn­a­regl­um eru sett­ar ýms­ar skorður við per­sónu­frelsi, at­vinnu- og at­hafna­frelsi, ferðaf­relsi, funda­frelsi og svo fram­veg­is. Þess­ar tak­mark­an­ir geta verið mis­jafn­lega íþyngj­andi fyr­ir ólíka hópa við mis­mun­andi aðstæður, en fela þó all­ar í sér skerðingu á frels­is­rétt­ind­um, sem telj­ast til grund­vall­ar­rétt­inda í öll­um þeim ríkj­um, sem byggja á lýðræði, mann­rétt­inda­vernd og grund­vall­ar­regl­um rétt­ar­rík­is­ins. Þenn­an þátt mála má því ekki nálg­ast af neinni léttúð.

Lög­mæti ákv­arðana

Það er viður­kennt í vest­ræn­um lýðræðis­ríkj­um að und­ir ákveðnum kring­um­stæðum geti verið heim­ilt að skerða borg­ara­leg rétt­indi. Þetta birt­ist skýrt í mann­rétt­inda­ákvæðum stjórn­ar­skrár­inn­ar og alþjóðleg­um mann­rétt­inda­sátt­mál­um. Þetta er orðað með mis­mun­andi hætti í ýms­um ákvæðum en jafn­an er gerð sú krafa að skerðing­in eða tak­mark­an­irn­ar styðjist við heim­ild í lög­um og yf­ir­leitt vísað til þess að laga­heim­ild­in verði að byggj­ast á nauðsyn, al­manna­hags­mun­um eða rétt­ind­um annarra. Við túlk­un ákvæða af þessu tagi er viðtekið viðhorf að laga­heim­ild verði að vera til staðar, hún þurfi að vera skýr og upp­fylla þau efn­is­legu skil­yrði sem til­greind eru. Skerðing borg­ara­legra rétt­inda verður því að stand­ast skoðun bæði út frá form­leg­um og efn­is­leg­um mæli­kvörðum.

Heim­ild­ir ís­lenskra stjórn­valda til að beita tak­mörk­un­um á grund­velli sótt­varn­ar­sjón­ar­miða byggja einkum á ákvæðum IV. kafla sótt­varna­laga. Þar eru stjórn­völd­um færðar marg­vís­leg­ar og nokkuð víðtæk­ar heim­ild­ir til að setja regl­ur og taka ákv­arðanir á þessu sviði. Laga­heim­ild er því til staðar á þessu sviði en í ákveðnum til­vik­um get­ur verið álita­mál hvort um nægi­lega skýra heim­ild sé að ræða. Það er með öðrum orðum hugs­an­legt að opin og al­mennt orðuð laga­heim­ild dugi ekki þegar um er að ræða til­tekn­ar íþyngj­andi ákv­arðanir. Það þarf ein­fald­lega að meta í hverju til­viki fyr­ir sig og end­ur­meta með reglu­leg­um hætti eft­ir því sem aðstæður breyt­ast og nýj­ar upp­lýs­ing­ar koma fram. Reyn­ist laga­heim­ild­ir óljós­ar eða ófull­nægj­andi kann svo að reyna á aðkomu lög­gjaf­ar­valds­ins.

Meðal­hóf

En eins og sjá má hér að fram­an er ekki nægi­legt að form­leg laga­heim­ild sé til staðar og ekki einu sinni þótt hún geti tal­ist skýr. Tak­mark­an­ir á borg­ara­leg­um rétt­ind­um verða líka að stand­ast skoðun út frá fleiri sjón­ar­miðum. Þannig verða að vera fyr­ir hendi al­manna­hags­mun­ir af ein­hverju tagi eða brýn rétt­indi annarra til að skerðing telj­ist rétt­læt­an­leg. Og jafn­vel það er ekki nóg, því það verður að vera skýrt sam­hengi milli þeirra íþyngj­andi ráðstaf­ana sem um er að ræða og þeirra al­manna­hags­muna sem á að vernda. Það er með öðrum orðum ekki nóg að laga­heim­ild sé til staðar til að grípa til sótt­varn­aráðstaf­ana og að sýnt sé fram á hættu vegna far­sótt­ar, það verður líka að vera hægt að sýna fram á að ráðstaf­an­irn­ar séu í hverju til­viki raun­veru­lega til þess falln­ar að vinna gegn hætt­unni. Or­saka­sam­hengið verður að vera fyr­ir hendi. Um leið verður svo að gæta þess að ekki sé gengið lengra í tak­mörk­un­um eða íþyngj­andi ráðstöf­un­um hverju sinni held­ur en nauðsyn­legt er. Það á líka við um gild­is­tíma aðgerða; þær mega ekki standa leng­ur en nauðyn­legt er. Með öðrum orðum verður að gæta fyllsta meðal­hófs þegar sett­ar eru regl­ur eða ákv­arðanir tekn­ar, sem fela í sér ein­hvers kon­ar skerðingu borg­ara­legra rétt­inda.

Mat og end­ur­mat

Al­mennt talað tel ég að ís­lensk stjórn­völd hafi farið vel með vald­heim­ild­ir sín­ar frá því far­sótt­in gerði vart við sig. Í stór­um drátt­um hafa þau reynt að feta meðal­veg milli var­færni og frjáls­ræðis og hef­ur að mínu mati tek­ist bet­ur upp í þeim efn­um en flest­um ná­granna­ríkj­um okk­ar. Ein­stak­ar ný­leg­ar ráðstaf­an­ir kunna þó að orka tví­mæl­is – þær eru ekki hafn­ar yfir gagn­rýni – og nauðsyn­legt er að stöðugt eigi sér stað end­ur­mat á stöðu mála, meðal ann­ars út frá þeim sjón­ar­miðum sem ég hef rakið hér að fram­an.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. ágúst 2020.