Saman á útvelli

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:

Frjáls alþjóðleg viðskipti eru undirstaða hagsældar á Íslandi. Öll njótum við ávinnings af viðskiptafrelsi hvort sem um ræðir aukið vöruval og lækkað verð til neytenda eða fjölgun starfa og auknar skatttekjur ríkisins frá fyrirtækjum sem selja vörur og þjónustu á erlenda markaði nær og fjær. Lífskjör Íslendinga byggjast á frjálsum vöru- og þjónustuviðskiptum og fjölmörg störf í landinu eru tengd utanríkisviðskiptum með einum eða öðrum hætti. Eitt meginhlutverk utanríkisþjónustunnar hefur frá upphafi verið að undirbúa jarðveginn á erlendum mörkuðum fyrir stórhuga fyrirtæki og frumkvöðla. Þannig hefur það verið allt frá upphafsárum fullveldisins þegar fyrsta íslenska sendiráðið var opnað, íslenskir viðskiptaerindrekar tóku sín fyrstu skref og viðskiptasamningar við önnur ríki litu dagsins ljós. Hlutverk utanríkisþjónustunnar er þannig bæði að koma á viðskiptasamninga og annast framkvæmd þeirra.

Sköpum ný störf

Á undanförnum mánuðum höfum við verið rækilega minnt á það hversu mikið við Íslendingar eigum undir frjálsum milliríkjaviðskiptum, vöruflutningum og frjálsum fólksflutningum. Viðbrögð við heimsfaraldrinum hafa leitt af sér hindranir sem flest okkar voru búin að gleyma og hin höfðu aldrei upplifað. Almannavarnir eru forgangsmál við þessar aðstæður en það getur engum dulist að efnahagsleg áhrif af þeim ráðstöfunum sem ríki heims hafa gripið til verða djúpstæð og skóinn mun kreppa mjög verulega. Eina leiðin út úr þeim þrengingum er aukin verðmætasköpun, að skapa ný störf í stað þeirra tapast. Til þess að svo megi verða þurfa stjórnvöld og atvinnulíf að ganga í takt.

Í þágu útflutnings

Á þessum grundvelli ákvað ég í vor að setja stuðning við íslenskan útflutning í forgang hjá utanríkisþjónustunni og skipaði ég sérstakan starfshóp til að vinna tillögur um það hvernig auka mætti stuðning við útflutning á íslenskri vöru og þjónustu í kjölfar heimsfaraldursins. Starfshópurinn vann hratt og vel og í síðasta mánuði lágu tillögur hans fyrir í 12 liðum. Tillögurnar má í grófum dráttum flokka í fernt.

  • Í fyrsta lagi eru tillögur sem lúta að beinum stuðningi við atvinnulífið, þar sem m.a. er lagt til að tekin verði upp viðskiptavakt fyrir íslenskan útflutning sem veiti til að mynda liðsinni vegna Covid19-tengdra hindrana, að net viðskiptafulltrúa verði útvíkkað og að þjónusta þeirra verði íslenskum fyrirtækjum að kostnaðarlausu til ársloka 2021, að öll sú aðstaða sem íslenska ríkið hefur yfir að ráða erlendis standi íslenskum fyrirtækjum til boða og að stefnt skuli að því að senda að 2-3 viðskiptanefndir á okkar lykilmarkaði strax á næsta ári.
  • Þá er í öðru lagi lagt til að Ísland beiti sér enn frekar í þágu fríverslunar og gegn verndarhyggju og skipi sér í flokk þeirra ríkja sem lengst vilja ganga í þeim efnum. Í þessu efni er framtíðarviðskiptasamningur við Bretland forgangsmál en á allra síðustu vikum hafa mikilvægir áfangar náðst í þeim efnum.
  • Í þriðja lagi er lagt til að enn ríkari áhersla verði lögð á tengsl atvinnulífs og þróunarsamvinnu og að opnað verði sérstakt þjónustuborð hjá Íslandsstofu til að virkja íslenskt atvinnulíf enn frekar til verkefna í þróunarsamvinnu.
  • Í fjórða lagi þá lúta tillögurnar að því að bæta starfshætti utanríkisþjónustunnar, þannig að hún geti betur sinnt þörfum atvinnulífsins, til að mynda með aukinni notkun stafrænnar tækni.

Við framkvæmd þessara tillagna búum við að þeim umbótum sem gerðar hafa verið á starfsháttum utanríkisþjónustunnar síðustu misseri. Þær breytingar sem gerðar voru á Íslandstofu með nýjum lögum árið 2018 gegna hér lykilhlutverki en með þeim var búinn til farvegur til að samnýta krafta stjórnvalda og atvinnulífs til sóknar á erlenda markaði með það að markmiði að auka verðmætasköpun, skapa störf og viðhalda þeim lífskjörum sem við viljum búa við. Þessi farvegur kemur að góðum notum núna þegar við ætlum að herða enn sóknina í kjölfar heimsfaraldursins.

Betri aðgangur að lykilmörkuðum

Auk þessara skipulagsbreytinga þá búum við að því að hafa á síðustu misserum undirbúið jarðveginn þegar kemur að viðskiptasamningum við okkar mikilvægustu viðskiptaríki. Nýverið hófst tvíhliða viðskiptasamráð við bæði Bandaríkin og Japan sem vonast er til að bætist í framtíðinni við fríverslunarnet Íslands sem nær um þessar mundir til 74 ríkja og landsvæða. Sem dæmi um árangur af þeirri áherslu sem lögð hefur verið á að efla tengslin við Bandaríkin má nefna Íslandsfrumvarpið svokallaða sem var nýlega lagt fram í bandaríska þinginu. Verði frumvarpið að lögum mun það auðvelda íslenskum fyrirtækjum að senda stjórnendur og fjárfesta tímabundið til starfa í landinu.

Íslensk stjórnvöld hafa þegar tryggt lykilhagsmuni í samstarfi og viðskiptum við Bretland þegar aðlögunartímabilinu eftir útgöngu úr EES lýkur í árslok 2020 og viðræður um framtíðarsamband ríkjanna lofa góðu. Á grundvelli fríverslunarsamnings Íslands og Kína höfum við fjölgað útflutningstækifærum til Kína með samningum um gagnkvæma viðurkenningu heilbrigðisvottorða fyrir ákveðnar landbúnaðar- og sjávarafurðir. Þá hafa verið gerðar ráðstafanir til að hámarka ávinning Íslands af EES-samningnum og aukinn kraftur settur í að ljúka samningum á vettvangi EFTA, til að mynda gagnvart Kanada.

Því hefur verið haldið fram að við séum að upplifa fordæmalausa tíma. Heimsbyggðin hefur þó áður tekist á við farsóttir og haft betur. Heimsbyggðin hefur áður tekist á við efnahagsþrengingar og brotist til bjargráða. Af þeirri reynslu vitum við að leiðin út úr slíkum þrengingum er ekki verndarhyggja og fleiri hindranir í vegi alþjóðaviðskipta. Þvert á móti, leiðin út úr þeim þrengingum er aukin verðmætasköpun með tvíefldri sókn á erlenda markaði. Í þeim efnum er utanríkisþjónusta Íslands, nú sem aldrei fyrr, til þjónustu reiðubúin.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 23. júlí 2020.