Í minningu þjóðarleiðtoga

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra:

Í dag eru liðin 50 ár frá því dr. Bjarni Bene­dikts­son, for­sæt­is­ráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, Sig­ríður Björns­dótt­ir kona hans og Bene­dikt Vil­mund­ar­son, fjög­urra ára dótt­ur­son­ur þeirra, fór­ust í elds­voða á Þing­völl­um. Tíðind­in bár­ust snemma morg­uns þann 10. júlí og þjóðin var harmi sleg­in.

Sorg fjöl­skyld­unn­ar var djúp og sár. Og fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag var miss­ir­inn mik­ill.

— — —

Bjarni var 62 ára er hann lést, virt­ur lög­spek­ing­ur, reynd­ur stjórn­mála­maður, snarp­ur rit­stjóri Morg­un­blaðsins og þjóðarleiðtogi.

Hann var fædd­ur 30. apríl 1908 í Reykja­vík, son­ur hjón­anna Bene­dikts Sveins­son­ar þing­for­seta og Guðrún­ar Pét­urs­dótt­ur frá Eng­ey, al­inn upp á stóru og fjör­legu menn­ing­ar­heim­ili við Skóla­vörðustíg­inn. Hann var ein­stak­lega góðum gáf­um gædd­ur; greind­ur, íhug­ull og al­vöru­gef­inn. Hann varð stúd­ent liðlega 18 ára gam­all og ein­ung­is 22 ára lauk hann lög­fræðiprófi með hæstu ein­kunn við Há­skóla Íslands. Eft­ir fram­halds­nám í stjórn­laga­fræði, aðallega í Berlín, varð hann pró­fess­or í lög­um við Há­skóla Íslands árið 1930, aðeins 24 ára að aldri og þótti skjótt fremsti stjórn­laga­fræðing­ur þjóðar­inn­ar, snjall og af­kasta­mik­ill fræðimaður. Hann gegndi því starfi til hausts 1940, þegar hann varð borg­ar­stjóri. Árið 1947 var hann skipaður ut­an­rík­is- og dóms­málaráðherra og lét þá af borg­ar­stjóra­störf­um. Hann átti síðan sæti í rík­is­stjórn til æviloka, lengst allra ís­lenskra ráðherra, fyr­ir utan tíma­bilið frá 1956 til 1959, en þá var hann rit­stjóri Morg­un­blaðsins meðfram þing­störf­um og rak ein­hverja hörðustu stjórn­ar­and­stöðu lýðveld­is­sög­unn­ar. Hann varð fyrst for­sæt­is­ráðherra 1961 í forföll­um Ólafs Thors og síðan frá 1963 til dauðadags.

Bjarni kvænt­ist Val­gerði Tóm­as­dótt­ur 26 ára gam­all, en hún lést úr fóst­ur­eitrun inn­an við hálfu ári síðar. Hann syrgði hana mjög og sótti sér styrk í krist­inni trú og varð mjög kirkjuræk­inn upp frá því. Síðar gekk hann að eiga Sig­ríði Björns­dótt­ur og varð þeim fjög­urra barna auðið; Björns, Guðrún­ar, Val­gerðar og Önnu.

— — —

Bjarni Bene­dikts­son upp­lifði mikla um­brota­tíma í starfi. Hann var borg­ar­stjóri í her­nám­inu, svo það hef­ur verið mik­il eld­skírn, en um leið stóð hann fyr­ir ein­um mestu framfaraframkvæmd­um í sögu lands­ins með hita­veit­unni í Reykja­vík. Hann lét sig þjóðmál­in þó ekki minna máli skipta og ég full­yrði að eng­inn Íslend­ing­ur hafi þá verið dug­legri bar­áttumaður fyr­ir því að Ísland ætti og yrði að verða lýðveldi, líkt og sam­bands­sátt­mál­inn frá 1918 heim­ilaði. Það náði ekki ein­vörðungu til hinn­ar laga­legu hliðar, sem þó var hon­um sér­stak­lega hug­leik­in, held­ur einnig til efna­hags­legs styrks og menn­ing­ar­legr­ar reisn­ar, stjórn­mála­legs stöðug­leika, mann­legr­ar fjöl­breytni og frels­is hvers og eins, sem hann vissi að landi og þjóð væru nauðsyn­leg til þess að öðlast sjálf­stæði og varðveita það.

Að síðari heims­styrj­öld­inni lok­inni blasti við nýtt ríki í nýj­um heimi og Bjarni efaðist aldrei um að þar yrðu Íslend­ing­ar að skipa sér í sveit með vest­ræn­um lýðræðis­ríkj­um. Hann beitti sér fyr­ir þeirri erfiðu og um­deildu ákvörðun að Íslend­ing­ar skyldu ganga í Atlants­hafs­banda­lagið og þá var sjálfsagt harðast að hon­um sótt. Bjarni lét eng­an bil­bug á sér finna, sótti fram af þeirri rök­festu og þunga, sem hon­um var í blóð bor­in, og hafði sig­ur. Bæði á Alþingi og í þeim kosn­ing­um, sem á eft­ir fylgdu.

— — —

Á Þing­völl­um stend­ur steinn sem reist­ur var í minn­ingu þeirra þriggja sem lét­ust svo vo­veif­lega fyr­ir fimm­tíu árum. Þar verður þeirra minnst við at­höfn í dag. En bauta­steinn dr. Bjarna Bene­dikts­son­ar er miklu stærri og hann mun standa jafn­lengi og Ísland er byggt. Sá bauta­steinn er lýðveldið okk­ar, byggt á lög­um og rétti; lýðveldi frjálsr­ar og full­valda þjóðar, sem ekki hik­ar við að skipa sér í fylk­ingu vest­ræns lýðræðis og vill verja, varðveita og byggja upp það sem okk­ur kom í arf og ber að skila til kom­andi kyn­slóða.

Guð blessi minn­ingu Bjarna, Sig­ríðar og Bene­dikts litla.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. júlí 2020.