Lítil frétt og óréttlæti á fjölmiðlamarkaði

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Hún læt­ur frem­ur lítið yfir sér frétt­in á blaðsíðu 4 hér í Mogg­an­um í gær, þriðju­dag. Fyr­ir­sögn­in er ekki sér­lega gríp­andi og frétt­in því ekki lík­leg til að vekja mikla at­hygli: „Úthlut­un til fjöl­miðla út­færð“. Eitt­hvað seg­ir mér að aðeins fjöl­miðlung­ar hafi áhuga á efn­inu. Marg­ir þeirra setj­ast niður til að átta sig á því hversu mikið komi í hlut hvers fjöl­miðils. Þá kem­ur Excel sjálfsagt að góðum not­um.

Alþingi samþykkti í maí síðastliðnum sér­stak­an fjár­stuðning til einka­rek­inna fjöl­miðla. Stuðning­ur­inn er hluti af aðgerðum rík­is­ins til að sporna við af­leiðing­um Covid-19-far­ald­urs­ins. Mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra var falið það erfiða og lítt öf­undsverða hlut­verk að út­færa regl­ur um út­hlut­un 400 millj­óna til fjöl­miðla sem upp­fylla ákveðin skil­yrði.

Til­efni frétt­ar­inn­ar, sem vek­ur litla eft­ir­tekt, er að reglu­gerð um fyr­ir­komu­lag út­hlut­un­ar hef­ur verið birt. Að há­marki verður stuðning­ur­inn 25% af stuðnings­hæf­um rekstr­ar­kostnaði viðkom­andi fjöl­miðils en stuðning­ur til hvers og eins fjöl­miðils get­ur aldrei orðið hærri en 25% af heild­ar­fjárveit­ing­unni (100 millj­ón­ir af 400). Verði samþykkt­ar um­sókn­ir hærri en 400 millj­ón­ir skerðist það sem kem­ur í hlut hvers og eins hlut­falls­lega.

Fjöl­miðlanefnd hef­ur það hlut­verk með hönd­um að leggja mat á um­sókn­ir. Þannig nær op­in­ber eft­ir­lits­stofn­un betri tök­um á sjálf­stæðum fjöl­miðlum.

Ósann­gjarnri sam­keppni haldið við

Í fjár­lög­um þessa árs hafði þegar verið gert ráð fyr­ir 400 millj­ón­um króna til að styðja við sjálf­stæða fjöl­miðla. Við af­greiðslu fjár­laga lá fyr­ir rík­is­stjórn­ar­frum­varp um stuðning við einka­rekna fjöl­miðla. Frum­varpið var um­deilt og náði ekki fram að ganga. Sá er hér skrif­ar var í hópi gagn­rýn­enda. Fjár­heim­ild­inni var breytt í ein­skiptisaðgerð til stuðnings einka­rekn­um fjöl­miðlum vegna kór­ónu­veirunn­ar.

Heims­far­ald­ur kór­ónu­veirunn­ar hef­ur haft al­var­leg áhrif á rekst­ur fjöl­miðla líkt og á rekst­ur þúsunda annarra fyr­ir­tækja. Halda má því fram að áhrif­in séu að mörgu leyti verri þar sem staða sjálf­stæðra fjöl­miðla hef­ur verið erfið í mörg ár. Og hvernig má annað vera? Lög­gjaf­inn hef­ur skapað og haldið við ósann­gjarni sam­keppni, tryggt yf­ir­burðastöðu Rík­is­út­varps­ins og dregið þannig þrótt­inn úr sjálf­stæðum fjöl­miðlum sem á sama tíma hafa þurft að verj­ast strand­höggi er­lendra miðla, ekki síst sam­fé­lags­miðla.

Rík­is­út­varpið fitn­ar líkt og púk­inn á fjós­bit­an­um. Eng­in önn­ur at­vinnu­grein hef­ur þurft að sæta því að eiga í sam­keppni við rík­is­fyr­ir­tæki, sem fær þvinguð fram­lög frá skatt­greiðend­um en um leið frítt spil á sam­keppn­ismarkaði. Þrátt fyr­ir að erfið staða sjálf­stæðra fjöl­miðla hafi blasað við öll­um í mörg ár, hef­ur varðstaðan um Rík­is­út­varpið aldrei rofnað. (Ekki einu sinni lög­brot hef­ur rofið skarð í öfl­ug­an varn­ar­múr). Ég hef orðað þetta svo að Rík­is­út­varpið njóti þess að vera í mjúk­um og hlýj­um faðmi stjórn­mála­manna. Meiri­hluti Alþing­is hef­ur ekki áhuga á að breyta leik­regl­un­um en virðist ein­huga í að koma frem­ur upp flóknu styrkja­kerfi fyr­ir einka­rekna fjöl­miðla, sem verða um leið háðir rík­is­vald­inu.

Mót­sögn­in um sjálf­stæða fjöl­miðla og rík­is­styrkt­an rekst­ur þeirra sam­kvæmt ákvörðunum op­in­berra út­hlut­un­ar­nefnda og stofn­ana, blas­ir við en veld­ur fáum áhyggj­um. Þó er fátt hættu­legra fyr­ir frjálsa fjöl­miðlun en að verða háð op­in­ber­um styrkj­um og nefnd­um. Rík­is­styrk­ir verða hægt og bít­andi ópí­um fjöl­miðlunga. Fjöl­miðlun sem er háð rík­is­vald­inu með bein­um fjár­hags­leg­um hætti telst varla frjáls nema í orði.

Skil­virk leið er lækk­un skatta

Í des­em­ber á liðnu ári lagði ég fram frum­varp ásamt þrem­ur öðrum þing­mönn­um Sjálf­stæðis­flokks­ins (Brynj­ari Ní­els­syni, Vil­hjálmi Árna­syni og Jóni Gunn­ars­syni) um af­nám trygg­inga­gjalds á einka­rekna fjöl­miðla, upp að ákveðnu há­marki. Til­gang­ur frum­varps­ins er að bæta rekstr­ar­stöðu fyr­ir­tækj­anna og jafna stöðuna gagn­vart rík­is­rekn­um fjöl­miðli með gagn­sæj­um hætti þar sem jafn­ræði skatt­kerf­is­ins er tryggt. Frum­varpið náði ekki fram að ganga og komst raun­ar ekki á dag­skrá þings­ins, af ástæðum sem hljóta að vekja at­hygli.

Í grein­ar­gerð frum­varps­ins er vitnað til skýrslu nefnd­ar frá janú­ar 2018 til mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra þar sem bent var á hvaða ástæður byggju að baki erfiðu rekstr­ar­um­hverfi; sam­keppni einka­rek­inna fjöl­miðla við Rík­is­út­varpið, sam­keppni við er­lenda fjöl­miðla og flutn­ing­ur aug­lýs­inga úr hefðbundn­um fjöl­miðlum yfir á ver­ald­ar­vef­inn, svo sem Google og Face­book. Í skýrsl­unni er varað við því að áfram­hald­andi veik­ing fjöl­miðla hafi nei­kvæð lýðræðis­leg og menn­ing­ar­leg áhrif í sam­fé­lag­inu.

Frum­varpið var lagt fram með þeim rök­stuðningi að skil­virk­asta leiðin til að styrkja rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla sé lækk­un skatta. Í grein­ar­gerð sagði meðal ann­ars: „Sam­ræmd­ar og gegn­sæj­ar skattaí­viln­an­ir tryggja að all­ir einka­rekn­ir fjöl­miðlar sitji við sama borð og fái hlut­falls­lega sömu íviln­un. Það er gert með því að fella trygg­inga­gjaldið niður, upp að vissu há­marki, en með því næst hlut­falls­lega sama lækk­un á hvern fjöl­miðil miðað við launa­kostnað og er skattaí­viln­un­in þannig byggð á rekstri ein­stakra fjöl­miðla.

Sam­kvæmt frum­varp­inu verður því ekki þörf á að op­in­ber nefnd meti hvort um­sókn fjöl­miðils full­nægi til­tekn­um skil­yrðum held­ur yrði skatt­kerfið sniðið að rekstr­ar­formi hvers og eins fjöl­miðils án þess að til kostnaðar stofn­ist af hálfu rík­is og fjöl­miðils við út­hlut­un fjár­muna.“

Það skal viður­kennt að sér­tæk­ar skatta­leg­ar aðgerðir (íviln­un) í takt við þær sem lagðar eru til í frum­varpi okk­ar fé­laga, er ekki besta lausn­in á þeim vanda sem glímt er við. Skyn­sam­leg­ast er auðvitað að breyta leik­regl­un­um á fjöl­miðlamarkaði, gera sam­keppn­ina sann­gjarn­ari og heil­brigðari. En fyr­ir þeirri lausn er ekki póli­tísk­ur stuðning­ur.

Litla frétt­in í Mogg­an­um er áminn­ing um al­var­lega brengl­un og órétt­læti á fjöl­miðlamarkaði. Þess vegna er nauðsyn­legt að leggja frum­varpið aft­ur fram á nýju þingi á kom­andi vetri í þeirri von að það fái efn­is­lega um­fjöll­un þings­ins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júlí 2020.