Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borgarstjórn og formaður borgarráðs, skrifar grein undir heitinu „Reykjavík stendur vel“. Kemur þessi fyrirsögn nokkuð á óvart þar sem borgin hefur nýlega óskað eftir neyðarstuðningi frá ríkinu upp á milljarðatugi vegna fjárhagsvanda. Máli sínu til stuðnings ber oddvitinn saman svonefnt skuldahlutfall A-hluta borgarinnar við nágrannasveitarfélögin. Það segir þó aðeins litla sögu. Það er réttara að horfa á heildarmyndina. Þegar litið er til heildarskulda og heildartekna er skuldahlutfall Reykjavíkurborgar það langhæsta á höfuðborgarsvæðinu.
Skautað fram hjá skuldbindingum
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir skautar einfaldlega fram hjá summunni. Samstæða borgarinnar skuldar yfir þrjú hundruð milljarða og er eina sveitarfélagið, sem skuldar yfir 150% af tekjum, á höfuðborgarsvæðinu. Það að velja A-hlutann eingöngu er viljandi gert. Skautað fram hjá meira en tvö hundruð milljarða skuldum sem eru meðal annars vegna félagslegs húsnæðis borgarinnar sem eru geymd í hlutafélaginu Félagsbústaðir sem skuldar meira en 45 milljarða eitt og sér. Það er því mikil einföldun að einblína á A-hlutann. Sérstaklega þar sem A-hlutinn er í sértakri og beinni ábyrgð fyrir stóran hluta skulda B-hlutafélaganna. Reynar meira en eitt hundrað milljarða króna ábyrgð sem ekki eru í súluritinu sem Þórdís Lóa valdi í grein sína. Það er því ekki úr vegi að skoða heildina þar sem þetta verður ekki sundur skilið. Heildarmyndin er skýr: Samstæða Reykjavíkurborgar skuldar meira en 150% árstekjur sínar. Meðaltal hinna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er 95%.
Eitt er gert og annað sagt
Og svo er það þetta: Hvað hefur verið gert frá kosningum? Meirihlutinn hefur staðið fyrir stórfelldum skuldahækkunum í góðæri þar sem skuldir hafa hækkað um meira en milljarð á mánuði. Skuldir hækkuðu um meira en 20 milljarða á síðasta ári einu saman. Það var í góðæri og þvert á „meirihlutasáttmálann“ þar sem segir: „Borgin skal rekin með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Skuldir skulu greiddar niður meðan efnahagsástandið er gott.“ Ekkert af þessu þrennu hefur verið efnt. Rekstrarkostnaður borgarinnar hefur hækkað langt umfram almennt verðlag milli ára. Í síðustu fimm ára áætlun sem var samþykkt fyrir áramót er gert ráð fyrir að í lok kjörtímabilsins verði 64 milljörðum hærri skuldir hjá borginni en boðað var fyrir kosningarnar 2018. Það er gríðarlegt frávik. Ef frávik skyldi kalla slíkan fullkominn forsendubrest. Rétt er að minna á að þessi skuldaaukning er áður en kórónukreppan skall á svo búast má við ábót. Loks er það svonefndur hagnaður síðustu ára en hann er fyrst og fremst bókað endurmat á félagslegu húsnæði sem borgin hefur fært sér til tekna upp á 57 milljarða króna. Ekki ein króna af þessum reiknaða hagnaði hefur skilað sér á bankabókina. Þvert á móti eru Félagsbústaðir fjárþurfi. Og Reykjavíkurborg hefur þurft að gangast í ábyrgðir enn og aftur vegna lántöku dótturfélags síns.
Viðurkennum vandann
Sá sem horfist ekki í augu við vandann er sjálfur í vanda. Sá sem neitar að horfa á heildarmyndina sér ekki stöðuna eins og hún er og getur því ekki leyst vandann. Það eru erfið verkefni fram undan í Reykjavík. Fyrsta skrefið hjá ábyrgum stjórnendum er að viðurkenna vandann. Aðeins þannig er mögulegt að bæta úr honum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. júlí 2020.