Kristján Þór

„Mikilvæg skref og munu skila sér í einfaldra og skýrara regluverki“

„Afgreiðsla þessara frumvarpa eru mikilvæg skref og munu skila sér í einfaldra og skýrara regluverki, til hagsbóta fyrir allt samfélagið. Með einföldu og skilvirku eftirliti búum við til samkeppnishæfara umhverfi fyrir fyrirtæki, neytendum til hagsbóta. Við munum halda áfram á þessari braut á næstu misserum,“ segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um tvö frumvörp sem samþykkt voru á Alþingi fyrir þinghlé og innifela m.a. í sér að 33 lagabálkar verði felldir á brott í heild sinni, fimm stjórnsýslunefndir lagðar niður og stjórnsýsla og regluverk á málefnasviðum ráðherra einfölduð tölurvert.

Frumvörpin eru afrakstur víðtæks samráðs sem haft var við helstu hagsmunaaðila og stofnanir ráðuneytisins, s.s. Matvælastofnun, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Bændasamtök Íslands og undirsamtök þeirra, Samtök atvinnulífsins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu o.fl.

Breytingarnar sem um ræðir eru á sviði matvæla, landbúnaðar, sjávarútvegs og fiskeldis:

 • 33 lagabálkar felldir brott í heild sinni ásamt úreltum bráðabirgðaákvæðum.
 • Úrskurðarnefndir um ólögmætan sjávarafla, yrkisréttarnefnd, sauðfjársjúkdómanefnd, ullarmatsnefnd og gærumatsnefnd felldar niður.
 • Tiltekin starfsleyfi matvælafyrirtækja verða gefin út án tímabindingar.
 • Milliganga ráðuneytisins og staðfestingar ráðherra afnumdar.
 • Stjórnsýsla skyndilokana einfölduð.
 • Dregið úr skýrsluskilum hjá fiskeldisfyrirtækjum sem framleiða minna en 20 tonn á ári.
 • Skylda Fiskistofu til að leggja til sérstakar afladagbækur felld brott.
 • Starfsleyfisskylda matvælafyrirtækja sem starfrækja fiskeldisstöðvar, og eru með gilt rekstrarleyfi,  vegna frumframleiðslu felld brott.
 • Tilkynningarskyldu innflytjenda og framleiðenda fóðurs innan EES-svæðisins vegna tiltekins fóðurs felld brott.
 • Heimild ráðherra til að veita krókaaflamarksbátum leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf svo og til hrognkelsaveiða í net felld brott. Þess í stað er lagt til að fjallað verði um slíkar veiðar í reglugerð.
 • Stjórnsýslumeðferð veiðitækja sem notuð hafa verið erlendis einfölduð.
 • Skipunartími verðlagsnefndar búvara lengdur.

Eins og segir í frétt um málið á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er þetta liður í 2. áfanga aðgerðaáætlunar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til næstu þriggja ára sem lítur að einföldun regluverks og er forgangsverkefni í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Fyrr í vetur felldi ráðherra brott 1242 reglugerðir og tvo lagabálka auk þess sem regluverk sem gildir um matvælakeðjuna var einfaldað sem var liður í fyrsta áfanga aðgerðaráætlunarinnar.

Verkefnið er unnið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að gert verði átak í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings og lögð áhersla á skilvirka og réttláta stjórnsýslu.

Frétt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um málið.