Leggja til nokkrar leiðir til styttingar boðunarlista

„Óviðunandi er að einstaklingar bíði lengur en í þrjú ár til að afplána refsingar. Með aukinni samfélagsþjónustu, sáttamiðlun, reynslulausn og fleiri aðgerðum getum við stytt mjög verulega boðunarlista til afplánunar refsinga,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sem í dag boðaði til blaðamannafundar um styttingu boðunarlista vegna afplánunar refsinga, en starfshópur ráðherra skilaði nýlega til hennar skýrslu með tillögum þar að lútandi.

Árið 2009 voru 213 einstaklingar á boðunarlista en í dag eru þeir 638 þrátt fyrir mikla uppbyggingu á síðustu árum í fangelsiskerfinu á Íslandi. Ástæða þess er einkum fjölgun og lenging óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga, fjölgun gæsluvarðhaldsfanga og ekki nægt fjármagn til nýtingar afplánunarrýma að fullu.

Fram kom í máli ráðherra að afleiðingar af löngum boðunarlista séu að óskilorðsbundnar refsingar hafi verið að fyrnast síðustu ár – þó þeim hafi fækkað í fyrra vegna sérstaks átaksverkefnis Fangelsismálastofnunar.

Meðal þeirra tillagna sem finna má í skýrslunni eru:

  • Lagt er til að heimild til full að fullnusta refsidóma með samfélagsþjónustu verði rýmkuð á þann veg að hægt verði að fullnusta allt að tveggja ára óskilorðsbundið fangselsi með samfélagsþjónustu
  • Heimildir ákærenda til að ljúka málum með sáttamiðlun verði rýmkaðar. Sáttamiðlun verði fest í sessi í lögum um meðferð sakamála.
  • Lagt er til að skilborðbundin ákærufrestun verði ekki bundin við tiltekinn aldurshóp.
  • Lagt er til að fjármagn til málaflokksins verði aukið þar sem nýting afplánunarrýma hefur ekki verið nægjanlega góð síðustu ár þar sem fangelsin hafa þurft að sýna strangt aðhald. Með bættri nýtingu afplánunarrýma megi stytta boðunarlistann umtalsvert.
  • Lagt er til að reglum um reynslulausn verði breytt á þann veg að meginreglan verði reynslulausn eftir helming refsitímans fyrir þá sem afplána ekki refsingu fyrir alvarlegt brot eða að öðru leyti gróft afbrot eða tilraun til slíks brots, þó þannig að ákvæði um síbrotamenn haldi sínu.
  • Starfshópurinn telur það koma til álita að veita þeim sem hafa verið á boðunarlista lengur en 3 ár, hafa verið dæmdir fyrir minni háttar brot og eiga ekki ólokin mál í refsivörslukerfinu skilorðsbundna náðun.

Skýrslu starfshópsins í heild sinni má finna hér.

Frétt á vef dómsmálaráðuneytisins.