Trúir á einkaframtakið og einstaklingsfrelsið

Ólafur Sveinsson er hag­verkfræð­ingur sem fæddist á Akureyri en fluttist til Reykjavíkur nokkurra vikna gamall. Alla sína ævi hefur hann stutt einkaframtakið og einstaklingsfrelsið og aldrei misst trúna á mikilvægi þess fyrir samfélagið. Hann hefur alla tíð lagt sjálfstæðisstefnunni lið, aðallega á Vesturlandi, en hann er 67 ára gamall. Eftirfarandi viðtal við Ólaf er úr blaðinu Á réttri leið sem Sjálfstæðisflokkurinn gaf út í febrúar 2020, en blaðið í heild má nálgast hér.

Hann starfaði sem iðnráðgjafi fyrir Vesturland, var kaupfélagsstjóri frá 1984–1989 og vann síðan sem sjálfstæður ráðgjafi í Reykjavík og á Vesturlandi. Hann hefur verið í ýmsum fyrirtækjarekstri, meðal annars rak hann Tak-Malbik, setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og situr nú m.a.í stjórn Steypustöðvarinnar.

Sæll Ólafur, við erum að gefa út blað þar sem við ræðum við ýmsa menn sem hafa helgað sig baráttu fyrir sjálfstæðisstefnunni yfir sína ævi, má ég spjalla smá við þig um það?

Ha? Nei. Af hverju mig?

Við viljum heyra í fólki sem hefur fórnað sér í starfi fyrir sjálfstæðisstefnuna, bara heyra hvað það hefur að segja, má ég það?

Það hljóta margir aðrir að hafa unnið mikilvægara starf fyrir þá stefnu en ég.

Eigum við að prufa smá spjall?

Já, en ekki langt.

Afhverju fórstu í hagverkfræði?

Ég gat ekki tekið ákvörðun um hvort ég ætti að læra rekstrarhagfræði eða verkfræði, bæði mjög áhugaverð fög, leysti það með því að fara í hagverkfræði sem er á vissan hátt brú á milli þessara faga.

Hvar stúderaðir þú?

Í Vestur-Berlín.

Í Berlín? Ég tók einmitt heimspekiprófið mitt þar, lærðir þú í Humboldt Universität?

Nei, ég var í námi í Technische Universität, fór þangað í nám árið 1974 og útskrifaðist með Masterspróf 1981 og fór síðan aftur heim eftir það.

Það hlýtur að hafa verið magnað tækifæri að komast í háskóla í Berlín á þeim árum sem Þjóðverjar voru fremstir þjóða í verkfræði og tæknimenntun?

Já, tækniháskólar voru mjög víða í Þýskalandi og þeir voru mjög sterkir. Þjóðverjar lögðu mikla áherslu á tæknimenntun. Slík menntun er mjög mikilvæg fyrir framþróun landa og samfélaga, en það er ekki aðeins tæknimenntun sem er mikilvæg heldur einnig menntun í húmanískum fögum.

Nú hefur þú lært í Vestur-Berlín á meðan hún var hálfgerð eyja frjálsræðis, umlukin kommúnistum. Hvernig var að búa þarna á ystu mörkum frelsis í miðju Kalda stríðinu?

Það var æðislegt. Þessi skipting borgarinnar truflaði mann dags daglega ekki. Maður varð ekkert var við þennan múr. En vissulega skrýtnar aðstæður sem væri erfitt að segja ungu fólki frá í dag, það myndi varla trúa manni. En Vestur-Berlín var lifandi borg og Vestur-Þýskaland gerði allt fyrir hana. Það var rekin ákveðin byggðastefna gagnvart henni, það var t.d. svokölluð Berlínarviðbót við laun fólks, greidd af Sambansríkinu, fjárfestingar fyrirtækja voru einnig niðurgreiddar, til að örva fjárfestingar. Menn sem fóru til Vestur-Berlínar í nám fengu ýmis konar ívilnanir, til dæmis þurftu þeir ekki að sinna herþjónustu. Aldurs- og kynjasamsetning íbúa borgarinnar var mjög sérstök, t.d. var hlutfall eldri kvenna mjög hátt, sem gerði það t.d. að verkum að það var lítið að marka skoðanakannanir í þeirri borg, hún var á engan hátt samnefnari fyrir Þýskaland.

En að starfi þínu í Sjálfstæðisflokknum, hvert hefur þitt framlag verið þar?

Það hefur ekki verið merkilegt, ég hef bara verið í bakvarðasveitinni.

En þú hefur alltaf verið í henni?

Já.

Afhverju varðst þú sjálfstæðismaður?

Ég aðhylltist stefnu Sjálfstæðisflokksins ungur að árum af því að ég trúði á einkaframtakið og einstaklingsfrelsið og ég trúi enn á það. Því hef ég kynnst best í störfum mínum sem hafa í áratugi tengst aðstoð við einstaklinga og fyrirtæki í atvinnurekstri og nýsköpun og þannig fundið þann kraft sem er í öflugum einstaklingum og þær framfarir sem þeir geta leyst úr læðingi.