Eftirfarandi grein er úr blaðinu Á réttri leið sem Sjálfstæðisflokkurinn gaf út í febrúar 2020, en blaðið í heild má nálgast hér:
Það þarf rými til að geta gripið tækifærin og látið drauma sína verða að veruleika. Svigrúm sem verður ekki til nema tekin sé ákvörðun um að verja það fyrir ágangi ríkisvaldsins. Verja það gegn hugmyndinni um að ríkið geti gert alla hluti betur en einstaklingurinn, að ríkið viti betur, sé betur til þess fallið að sjá um rekstur, skapa atvinnu eða tryggja hamingjuna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur um níutíu ára skeið, eða frá stofnun, verið það afl í stjórnmálum sem ver fólkið í landinu fyrir þessum ágangi og gætir að því að einstaklingurinn og hans fjölbreytti kraftur fái að njóta sín.
Lífið samanstendur af mismunandi æviskeiðum; fólk hefur það sem barn í faðmi foreldra sinna, þróast yfir í ungling, nemanda, einstakling, launþega, fyrirtækjaeiganda, fasteignaeiganda, fjölskyldufólk eða eldri borgara. Á hverju stigi þarf að taka ákvarðanir sem marka lífshlaupið og til þess þarf svigrúm og umhverfi sem býður upp á þá niðurstöðu sem hentar hverjum og einum. Ekki umhverfi sem setur alla í sama boxið.
Frjálst atvinnulíf, einstaklingsfrelsi og frelsi til athafna er sá taktur sem tryggir þetta rými og sá taktur sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur slegið hátt og snjallt í níutíu ár. Eftir því sem áratugirnir líða breytast álitaefnin nefnilega lítið þrátt fyrir öra tækniþróun og aukna afþreyingu. Enn er spurt: Skal stefnt að frjálsu atvinnulífi eða ríkisreknu? Á ríkisnefndin sem allt telur sig vita að taka ákvörðun eða einstaklingarnir sem meta stöðuna hver fyrir sig?
Lífið er framundan
Ungt fólk á hverjum tíma er að leggja upp í langferðina sem er lífið. Þá þarf að meta hvar tækifærin liggja, hvar má best finna öruggan samastað, hvar menntunin er árangursríkust og ótal margt fleira. Allur heimurinn er undir þegar kemur að þessum atriðum og vali ungs fólks.
Það er því brýnt að búið sé að búa svo um hnútana í íslensku samfélagi að hér vilji ungt fólk vera og byggja upp lífið. Sjálfstæðisflokkurinn tekur þetta alvarlega og hefur í gegnum tíðina tekið ákvarðanir við stjórn landsins sem gera Ísland að góðum kosti fyrir ungt fólk. Hér má nefna nokkrar þeirra:
Auðveldara að eignast heimili
Eitt mikilvægasta skref sem stigið hefur verið í þeim tilgangi að hjálpa ungu fólki að eignast húsnæði, sem og að létta undir með fólki almennt, er að veita því kost á að nýta séreignarsparnað sinn skattfrjálst til þess að lækka höfuðstól húsnæðislána og fyrir fyrstu kaupendur til að nýta í útborgun. Ungt fólk getur nú fjárfest í sinni eigin framtíð.
Þessi lausn sem Sjálfstæðisflokkurinn hrinti í framkvæmd snýr að frelsi fólks til að ráðstafa sínum eigin sparnaði og eignast sitt eigið húsnæði Árangurinn talar sínu máli. Frá árinu 2014 hafa heimilin í landinu nýtt um 56 milljarða króna skattfrjálst til að greiða hraðar niður húsnæðislán sín. Ef horft er aftur til ársins 2014 er um að ræða mun fleiri einstaklinga samtals, en á þeim tíma sem liðinn er hafa margir gert upp lán sín og um leið létt almenna greiðslubyrði heimilisins.
Stór hluti af því unga fólki sem er að koma sér upp húsnæði er í þeirri stöðu að eiga lítið eigið fé og hefur jafnvel nýlokið námi, en er þó komið út á vinnumarkaðinn og á þess kost að hafa reglulegar tekjur. Það að leyfa fólki að nýta séreignarsparnaðinn sinn skattfrjálst með þessum hætti er mikið framfaraskref.
Fyrir flesta er fjárfesting í eigin húsnæði stærsta fjárfestingin í lífinu. Það er mikill hagur í því að sem flestir eigi þess kost að eignast sitt eigið húsnæði og öðlast þannig fjárhagslegt sjálfstæði og öryggi með skattfrjálsum leiðum eins og þessari.
Þá hafði Sjálfstæðisflokkurinn einnig forgöngu um að lækka stimpilgjald af fyrstu íbúðarkaupum um helming í þeim tilgangi að auðvelda ungu fólki að koma öruggu þaki yfir höfuðið. Þingmenn flokksins hafa síðan óskað eftir stuðningi Alþingis til að afnema stimpilgjaldið alfarið og af öllum fasteignakaupum. Náist samstaða um það á þinginu eykst bæði skilvirkni og flæði á markaði með íbúðarhúsnæði ásamt því að enn auðveldara verður fyrir ungt fólk að kaupa íbúð.
Það eru margir hvatar fyrir ungt fólk að vilja búa í eigin húsnæði í stað þess að leigja. Til að mynda er húsnæðiskostnaður leigjenda 26% af ráðstöfunartekjum (2018) en aðeins 16,7% af ráðstöfunartekjum hjá fólki í eigin húsnæði.
Meiri tími með börnunum
Frelsi fjölskyldunnar er sjálfstæðismönnum efst í huga. Reglur um fæðingarorlof spila stórt hlutverk í lífi þeirra sem ákveða að stofna til fjölskyldu enda samvera foreldra og ungabarns á fyrstu mánuðum í lífi þess mikilvæg fyrir bæði velferð og þroska. Reglurnar þurfa að endurspegla sjálfstæði fjölskyldunnar, veita henni svigrúm til að velja hvað hentar barninu best og rímar við aðstæður foreldra hverju sinni.
Í lok síðasta árs var stórum áfanga náð þegar fæðingarorlofið var lengt úr níu mánuðum í tíu, með þeirri skiptingu að móðir og faðir ættu fjóra mánuði hvort og tveir til skiptanna. Á næstu árum lengist orlofið enn frekar og verður í heild 12 mánuðir árið 2021. Þannig verður barni í fyrsta skipti á Íslandi tryggð samvist við foreldra sína í heilt ár eftir fæðingu. Útkljá þarf með hvaða hætti þessir tólf mánuðir skiptist milli foreldra og hversu mikið foreldrar fái að velja í því samhengi.
Árangursríkari menntun
Nemendum á Íslandi býðst nú að klára nám við framhaldsskóla á þremur árum í stað fjögurra og ljúka því framhaldsskólanámi á sama tíma og jafnaldrar þeirra í löndum sem við berum okkur saman við.
Sjálfstæðisflokkurinn leiddi þessar umbætur í skólakerfinu í þágu nemenda enda verður námið hnitmiðaðra, þjónustan betri og tími nemenda nýtist betur. Færri nemendur hverfa nú frá námi en áður en það var orðið verulegt vandamál.
Breytingin skilar þjóðfélaginu jafnframt 14–17 milljörðum í aukna þjóðarframleiðslu á ári.
Nýjar hugmyndir verða að veruleika
Á Íslandi hefur okkur tekist að búa til samfélag þar sem langflestir hafa raunverulegt tækifæri til að þroska hæfileika sína og nýta þá til fulls. Íslenski draumurinn er ekki einn á móti milljón heldur innan seilingar fyrir langflesta.
Hugvitssamur ungur einstaklingur sem vill stofna fyrirtæki utan um nýja hugmynd á mun auðveldara með það í dag en áður. Síaukin áhersla á nýsköpun undir forystu Sjálfstæðisflokksins veitir ungu fólki ný tækifæri á sínum forsendum; til að mynda með því að geta sótt styrki til Tækniþróunarsjóðs, notið ívilnana vegna rannsóknar og þróunarverkefna í atvinnulífinu og á grundvelli frekari aðgerða í takti við nýja nýsköpunarstefnu. Allt í þágu þeirra sem taka áhættu og elta ný tækifæri sem á endanum geta orðið grundvöllur breytinga til hins betra.
Ráðherra nýsköpunarmála hefur kynnt áform um stofnun sjóðsins Kríu sem stuðlar að auknum fjárfestingum í frumkvöðlafyrirtækjum. Góðar hugmyndir verða því frekar að veruleika enda aðrir hvattir til að fjárfesta í frumkvöðlastarfi með þessum hætti sem aftur skilar meiri hagvexti til hagsbóta fyrir alla þjóðina.
Nýsköpun er ekki lúxus heldur nauðsyn til að bera uppi sterkt samfélag og halda í öflugt fólk. Það sem kallast hefðbundið í dag byggist á nýsköpun og hugviti fyrri tíma. Öll framþróun, í öllum atvinnugreinum, grundvallast alltaf og alls staðar á einhvers konar nýsköpun.
Einfaldara líf
Reglubyrði íslenskra fyrirtækja hefur verið með því mesta sem þekkist á meðal ríkja OECD, einkum í þjónustustarfsemi. Hún er til þess fallin að auka kostnað, draga úr skilvirkni, hamla samkeppni, hækka vöruverð og skerða samkeppnishæfni okkar gagnvart öðrum löndum. Afleiðingin er lakari lífskjör.
Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins í atvinnuvegaráðuneytinu sátu ekki aðgerðarlausir gagnvart þessum veruleika fólksins sem rekur fyrirtæki víðsvegar um landið eða þeirra sem vilja stofna ný fyrirtæki utan um nýjar hugmyndir. Á síðasta ári og felldu þau brott yfir 1.000 reglugerðir. Ekki verður slegið af á nýju ári. Afnema á 16 lagabálka, einfalda og breyta lögum og afnema fjölda leyfisveitinga sem allt miðar að því að greiða götu fólks sem rekur fyrirtæki. Sem dæmi má nefna að iðnaðarleyfi verður lagt af, krafa um að opinbert leyfi þurfi til sölu notaðra bifreiða verður fellt niður, skráningarskylda verslana og verslunarreksturs verður afnumin og fleira.
Þá verður rafræn þjónusta líka aukin til að einfalda fyrirtækjum samskipti við stjórnvöld og gera þau skilvirkari.
Þetta auðveldar líf minni og meðalstórra fyrirtækja sem hafa ekki burði til að uppfylla strangari kröfur. Markmiðið er að auðga íslenskt atvinnulíf – búa til umhverfi þar sem ungt fólk og aðrir geta nýtt tækifærin hér á landi.
Einfaldara og skiljanlegra regluverk stuðlar að aukinni verðmætasköpun, meiri skilvirkni, meiri samkeppni, lægra verði og þar með betri lífskjörum fyrir alla.
Lægri skattar
Skattar á einstaklinga og fyrirtæki hafa lækkað umtalsvert undir forystu Sjálfstæðisflokksins en á tímabilinu 2014–2018 voru þeir lækkaðir um nærri 25 ma.kr. á ársgrundvelli og ráðstöfunartekjur stórjukust í kjölfarið. Í aðdraganda kjarasamninga kynnti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra enn umfangsmeiri lækkun tekjuskatts og breytingar á skattkerfinu. Alls munu breytingarnar fela í sér 21 ma. kr. minni álögur þegar þær verða að fullu innleiddar og mun ávinningur fyrir launþega verða allt að 120 þúsund krónur á ári. Tryggingagjald var einnig lækkað um ríflega 4 milljarða króna eða sem nemur 420 nýjum störfum ári. Þá hafa ríkisskuldir hvergi lækkað hraðar en á Íslandi samkvæmt greiningu matsfyrirtækisins Moody’s sem hækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs á dögunum. Tollar á innflutt matvæli lækkuðu einnig um 240–590 milljónir króna sem leiðir til lægra vöruverðs.
Vextir hafa lækkað og húsnæðisvextir hafa aldrei verið lægri en það skiptir sköpum fyrir heimilin í landinu. Verðbólgan hefur einnig verið hamin og verðbólguhorfur eru ágætar.
Kaupmáttur hefur aukist um 26,6% frá árinu 2013 á vakt Sjálfstæðisflokksins sem gerir það að verkum að fólk á rúmlega fjórðungi meira í veskinu um hver mánaðarmót í dag en það gerði fyrir sex árum. Í því samhengi má nefna nýlega úttekt á kaupmætti meðallauna sem sýnir að árið 2018 var kaupmáttur meðal OECD-ríkja hvergi meiri en á Íslandi.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig unnið ötullega að því að koma nauðsynlegri opinberri þjónustu í rafrænt horf sem reynast mun bylting fyrir almenna borgara. Bætt stafræn þjónusta er mikilvæg fyrir betri samskipti fólks við hið opinbera og einnig tækifæri til að draga úr umhverfisáhrifum enda fækkar þar af leiðandi ferðum fólks stofnana á milli. Það sparar líka tíma, einfaldar lífið og eykur ánægju.
Sterk staða ungs fólks
Markvissar aðgerðir undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafa bætt stöðu ungs fólks verulega. Ráðstöfunartekjur hjóna eða sambúðarfólks á aldrinum 25–34 ára sem eiga fasteign hafa hækkað um 16–21% síðustu fimm árin undir stjórn Sjálfstæðisflokksins auk þess sem ráðstöfunartekjur sambúðarfólks sem er á leigumarkaði hafa hækkað á bilinu 22–27%. Þannig hafði sambúðarfólk á leigumarkaði með 1–2 börn á heimilin að jafnaði um 632 þúsund kr. í ráðstöfunartekjur árið 2013 en 771 þúsund árið 2018 síðar sem jafngildir 22% hækkun ráðstöfunartekna á fimm árum. Nýtt skattkerfi mun auka ráðstöfunartekjur ungs fólks enn frekar á þessu og næsta ári.