Erum að ná alþjóðlegum skuldbingingum og gott betur í loftslagsmálum

„Við erum að ná alþjóðlegum skuldbindingum okkar og gott betur – ekki með því að leggja strangar kvaðir á heimilin og atvinnulífið heldur með fjölbreyttri flóru aðgerða sem ná víða um samfélagið og ýta undir þá þróun sem þegar á sér stað í átt að loftslagsvænna hagkerfi. Framreikningar á losun draga fram að aðgerðir stjórnvalda og tækniþróun hafa nú þegar leitt til þess að losun gróðurhúsalofttegunda mun minnka á næstu áratugum, en með aðgerðaáætluninni er lagður grunnur að enn meiri árangri,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra í tilefni af nýlega samþykktri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

Samkvæmt henni fá breyttar ferðavenjur nú aukið vægi, úrgangsmál og sóun eru dregin sérstaklega fram, markvisst er ýtt undir ýmiss konar loftslagsvænar breytingar í samfélaginu og áhersla er lögð á aðgerðir þar sem ríkið getur leitt mikilvægar samfélagsbreytingar með umskiptum í eigin starfsemi.

Nýjar aðgerðir sem koma inn í áætlunina í kjölfar samráðs eru m.a. aðgerðir til þess að auka innlenda grænmetisframleiðslu, fjölga vistvænum bílaleigubílum, styðja við orkuskipti í þungaflutningum, fanga kolefni frá stóriðju, bæta fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun og draga úr losun frá byggingariðnaði.

Áfram verða veittir skattastyrkir m.a. til reiðhjóla og rafmagnshlaupahjóla. Tryggt verður að ákvarðanir um frekari breytingar á skattlagningu bifreiða og eldsneytis stuðli að aukinni nýtingu vistvænna orkugjafa í samgöngum. Þá mun ríkið leggja áherslu á að ríkisbifreiðar verði vistvænar.

Stefnt er að því að skoða fjárhagslega hvata til að flýta orkuskiptum í sjávarútvegi. Lagður verður á sérstakur urðunarskattur og skoðað verður að ríkissjóður gefi út græn skuldabréf. Þá verða vistvæn innkaup gerð að almennri reglu við innkaup ríkisins.

Áætlunina í heild sinni má finna hér.