Árásir borgarstjóra á Reykjavíkurflugvöll

Marta Guðjónsdóttir skrifar:

Eitt helsta pólitíska markmið borgarstjórans er að koma Reykjavíkurflugvelli úr Vatnsmýrinni. En hvernig ber hann sig að? Hann vill ekki að borgarbúar fái að  kjósa um þetta álitamál því fjöldi skoðanakannana  og 70 þúsund undirskriftir frá borgarbúum og landsmönnum gefa ótvírætt til kynna að þeir vilja hafa flugvöllum áfram í Vatnsmýrinni.

Hann vill heldur ekki færa rök fyrir þessu markmiði sínu. Of margir sérfræðingar í flugmálum og á sviði almennra samgangna hafa fært of veigamikil og sannfærandi rök gegn áformum hans. Hann er löngu kominn í rökþrot og forðast því alla opinbera umræðu um málið. Hann vill ekki þurfa að svara fréttamönnum um flugvöllinn, skiptast á skoðunum um hann í fjölmiðlum né ræða málið við borgarbúa.

En hann beitir annarri aðferð. Hann hefur staðið fyrir  linnulausum árásum á starfsemi Reykjavíkurflugvallar um árabil og reynt að þrengja að vellinum og draga úr flug- og rekstraröryggi hans. Markmiðið er að gera flugvöllinn ónothæfan allri flugvallarstarfsemi svo þar verði sjálfhætt. Jafnvel þó engin staðsetning um nýjan flugvöll sé í augsýn. Tökum þrjú dæmi.

Ríkisstjórnin fjárkúguð

Íslendingar hafa sinnt flugumsjón yfir Norður-Atlantshafi frá 1946. Flugstjórnarsvæðið er eitt það stærsta í heimi. Á annað hundrað Íslendingar hafa vel launuð störf af þessari þjónustu sem fram fer við Reykjavíkurflugvöll á vegum ISAVIA, en gjaldeyristekjur af henni nema um 7 milljörðum króna á ári. Árið 2013 munaði hársbreidd að Alþjóðaflugmálastofnunin flytti þessa þjónustu til Skotlands. Ástæðan var sú að borgaryfirvöld drógu það úr hömlu, af ásettu ráði, að samþykkja byggingarleyfi fyrir bráðnauðsynlega stækkun á húsnæði ISAVIA. Þegar þau samþykktu loks að afgreiða málið, var sú afgreiðsla háð því skilyrði, að ríki og flugmálayfirvöld staðfestu, að NA-SV-braut Reykjavíkurflugvallar yrði lögð af innan þriggja ára. Þannig tókst borgarstjóra að loka neyðarbrautinni með hótunum. Ef erlend yfirvöld hefðu beitt íslensk yfirvöld slíkum hótunum hefði það orðið að alvarlegu milliríkjamáli.

 

Aðför að Fluggörðunum

Sumarið 2014 samþykktu borgaryfirvöld nýtt deiliskipulag fyrir Reykjavíkurflugvöll sem gerði ráð fyrir að Fluggarðarnir við Njarðargötu yrðu að víkja innan tveggja ára, sem og öll starfsemi kennslu- og einkaflugs sem þar hefur aðstöðu. Um er að ræða 8.000 fermetra af flugskýlum og öðrum byggingum en þar eru geymdar um 80 flugvélar. Þessi breyting á deiliskipulagi kom eins og þruma úr heiðskíru lofti gagnvart u.þ.b. 500 hagsmunaaðilum. Ekkert samráð hafði verið haft við þá við skipulagsgerðina og engin önnur aðstaða var fyrir hendi fyrir þessa starfsemi. Þessi forkastanlegu vinnubrögð voru kærð til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem gerði borgaryfirvöld afturreka með þessa fólskulegu aðför.

Mjög þétt byggð á Hlíðarendasvæðinu var enn ein aðförin að flugvellinum sem gerði endanlega út um Neyðarbrautina. Og nú er komið að enn einni aðförinni, fyrirhugaðri mjög þéttri byggð austur af Stóra-Skerjafirði og auðvitað án nokkurs samráðs við íbúana þar.

Samningsbrot

Í nóvember sl. gerðu ríki og Reykjavíkurborg með sér sérstakan samning sem kveður m.a. á um að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verði tryggt, m.a. með eðlilegu viðhaldi og endurnýjun mannvirkja, svo að völlurinn geti þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt á meðan rannsóknir á  möguleikum á nýjum flugvelli fari fram. Borgarstjóri stóð ekki lengi við þennan samning. Þann 30. apríl sl. var Herði Guðmundssyni, forstjóra flugfélagsins Ernis, tilkynnt á fundi með borgaryfirvöldum að viðhaldsstöð félagsins á Reykjavíkurflugvelli yrði rifinn á næstunni, bótalaust! Þar ætti að leggja veg vegna framkvæmda við nýja 5000 manna íbúðabyggð austan Skerjafjarðar. Hér átti að fara fram eignaupptaka sem stenst ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Ósannindi borgarstjóra

Þegar borgarstjóri var gagnrýndur af fréttastofum, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, Eyþóri Arnalds, og samgönguráðherra, bætti hann gráu ofan á svart með vísvitandi ósannindum: Hann sagði þetta allt „óþarfa upphlaup og að þetta væri allt á misskilningi byggt“ – það hefði aldrei verið ætlunin að rífa skýlið. En fundargerðin frá 30. apríl segir annað. Þar segir orðrétt: ,,Fyrir liggur að rífa þarf flugvélaverkstæði Ernis að óbreyttu, þ.e. flugskýli #6 vegna fyrirhugaðrar vegalagningar í gegnum flugskýlið”.

Það þarf ótrúlegan hroka og óheilindi til að beita fyrir sig pukri, furðulegum afbrigðum stjórnsýslu, hótunum, samningsbrotum og ósannindum til að koma fram ætlunarverki sínu. Ekki síst ef maður veit mæta vel að það er gert í andstöðu við hagsmuni, vilja og röksemdir mikils meirihluta samfélagsins.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. júní 2020