Vegið að Laugaveginum

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að núverandi borgarstjórnarmeirihluti hafi aldrei séð ástæðu til að taka minnsta tillit til borgarbúa í ákvörðunum sínum. Þeir lofuðu því að vísu fyrir síðustu kosningar og kölluðu þá slíka tillitssemi „íbúalýðræði“. En það var auðvitað allt í plati. Til þess er meirihlutinn of merkilegur og borgarbúar of ómerkilegir. Hingað til hef ég þó veigrað mér við að viðra þessa skoðun opinberlega þó hún sé byggð á reynslu af mörg hundruð fundum með þessu góða fólki. Svo ótrúleg er þessi reynsla.

Margar ákvarðanir þeirra sem mynda þennan meirihluta eru því miður byggðar á fáránlegum fordómum um starfsstéttir viðkomandi borgarbúa, hagsmuni þeirra, skoðanir og lífsvenjur. Þessir borgarfulltrúar eru því miður mun þröngsýnni og fordómafyllri en gengur og gerist meðal almennings í íslensku samfélagi og fyrirlíta allt og alla sem ekki passa inn í þrönga kaffihúsaheimsmynd þeirra.

Gott dæmi um þessa afstöðu er álitamálið um það hvort og hvernig skuli takmarka bifreiðaumferð um Laugaveginn og nærgötur hans. Þetta álitamál hefur verið á döfinni undanfarin misseri í nefndum og ráðum borgarinnar. Þar hefur aldrei, hvergi né á neinn hátt verið tekið minnsta tillit til hagsmunasamtaka þeirra kaupmanna sem mynda þessa gömlu og góðu verslunargötu.

Hagsmunasamtök kaupmanna við Laugaveginn hafa ítrekað fært fram sannfærandi rök fyrir því hvernig best yrði staðið að slíkum lokunum en á þau rök hefur aldrei verið hlustað af borgaryfirvöldum.

Hugsað í lausnum

Í öðrum sveitarfélögum hér á landi hafa ákvarðanir af þessum toga verið teknar í góðri samvinnu við hagsmuna- og rekstraraðila og með góðum árangri. Gott dæmi um slíka samvinnu er svokallað Akureyrarmódel sem miðar að því að tryggja sátt íbúa og rekstraraðila. Það hefur almennt mælst mjög vel fyrir. Í samþykkt Akureyrarkaupstaðar um verklagsreglur vegna lokunar miðbæjargatna er gert ráð fyrir sumarlokun fjóra daga vikunnar í júní og ágústmánuði en alla daga í júlí. Þó er gert ráð fyrir að lokun sé háð veðri og fari hitastig undir fimm gráður er sviðsstjóra skipulagssviðs heimilt að opna fyrir bílaumferð. Þá gerir samþykktin einnig ráð fyrir undanþáguakstri fyrir hreyfihamlaða. Þetta er dæmi um fyrirmyndar vinnubrögð þar sem hugsað er í lausnum í stað þess að standa í stöðugu stríði við rekstraraðila og íbúana.

Skoðanakönnun staðfestir ábendingar kaupmanna

Nú standa fyrir dyrum umfangsmiklar lokarnir gatna í miðbæ Reykjavíkur, og eins og endranær án nokkurs samráðs við rekstraraðila á svæðinu eða íbúa þess. Nýleg könnun Maskínu sem birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 27. maí sl., greinir hins vegar frá þeirri niðurstöðu að meirihluti borgarbúa sé mótfallinn þessum lokunum og muni ekki gera sér ferð í miðbæinn ef þessar lokanir ná fram að ganga. Þessi niðurstaða könnunarinnar er í fullu samræmi við þær ábendingar sem rekstraraðilar við Laugaveginn hafa margítrekað fyrir daufum eyrum borgaryfirvalda.

Minnisvarði um skipulagsmistök

Rekstur verslana í miðborginni hefur verið þungur undanfarin misseri. Tugir rekstraraðila hafa hætt þar rekstri og nú aukast enn rekstrarerfiðleikar þessara verslana vegna Kórónuveirunnar. Það blasir því við að ólýðræðisleg afstaða borgarstjórnarmeirihlutans komi fjölda fjölskyldufyrirtækja við Laugaveginn í þrot og að Laugavegurinn glati á endanum því merka hlutverki sínu í borgarmyndinni að vera ein elsta verslunargata landsins. Án fjölbreytts framboðs verslana á Laugaveginum og götum sem honum tengjast, hefur gatan ekkert gildi og mun innan tíðar verða eyðilegur og hráslagalegur minnisvarði um enn ein skipulagsmistök þessa meirihluta.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. júní 2020.