Ennþá af rusli í Sorpu.

Örn Þórðarson borgarfulltrúi:

Málefni Sorpu hafa verið fyrirferðamikil í umræðunni síðustu mánuðina.  Í ársbyrjun varpaði skýrsla innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar ljósi á alvarlega stöðu fyrirtækisins, sérstaklega hvað varðar undirbúning og ákvarðanatöku í tengslum við gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi. Þar var margt sem vakti furðu og kallaða í svör frá þeim sem ábyrgð bera.  Þá var kallað var skýringum í borgarstjórn en lítið var um svör. Nú eru málefni Sorpu aftur komin í umræðuna og enn bætast við spurningar.  Gas- og jarðgerðarstöðin átti að taka til starfa í apríl en framkvæmdum er þó enn ekki lokið. Kostnaður heldur áfram að vaxa og ekkert lát er á framúrkeyrslunni.  Heildarkostnaður sem átti að vera 3,4 milljarðar króna þegar fyrsta skóflustunga var tekin sumarið 2018, er núna kominn á sjötta milljarð króna.

Ekki hlustað á varnaðarorð

Reykjavíkurborg hefur þurft að gangast  í ábyrgð fyrir lántökum og viðbótarlánum, en enginn veit hvar þau enda.  Á fundum með stjórn og forsvarsfólki Sorpu hafa litlar upplýsingar fengist um stöðu mála og enn færri um framtíð stöðvarinnar.  Nú bætast við varnaðarorð frá sérfræðingum sem draga rekstrarforsendur í efa, óljóst er hvort hægt verði að koma afurðum, þ.e. moltu og metangasi í verð. Um tæknilausnir sem endurvinnslustöðin á að byggja á hafa verið deildar meiningar.  Talsverðar líkur eru á að rekstur gas- og jarðgerðarstöðvarinnar verði aldrei sjálfbær.  Sambærileg endurvinnslustöð í Noregi lenti í ógöngum með sína starfsemi og var lokað.   Allt vekur þetta upp spurningar um framtíð nýju stöðvarinnar í Álfsnesi.

Það er ekki gott að velta sífellt auknum kostnaði yfir á útsvarsgreiðendur, hækkanir á gjaldskrám gætu haft neikvæð áhrif á áhuga borgarbúa á umhverfis- og endurvinnslumálum.  Slíkt færi gegn stefnu borgaryfirvalda um að auka ábyrgð og þátttöku almennings í málaflokkunum.

Meiri óskhyggja en fyrirhyggja

Allt þetta mál virðist hafa meira verið rekið áfram af óskhyggju og áhuga en af skynsemi og fyrirhyggju.  Skollaeyrum hefur verið skellt við varnaðarorðum sérfræðinga sem hafa bent á ýmsa annmarka sem og slæmri reynsla norðmanna af sinni gas- og jarðgerðarstöð.  Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Ég deili áhuga á umhverfis- og endurvinnslumálum með þeim sem hafa hingað til þrýst málinu áfram, en veit þó að kapp er best með forsjá.  Líta verður stöðu Sorpu, með nýrri gas- og jarðgerðarstöð, alvarlegum augum. Skýra þarf málið til að unnt sé að taka skynsamlegar ákvarðanir um framtíð stöðvarinnar.   Málefni Sorpu verða tekin til umræðu á fundi borgarstjórnar í dag. Þar verður krafist svara.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. júní 2020.