Bókhaldsbrellur leysa ekki vandann

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 var lagður fyrir borgarstjórn í vikunni til staðfestingar. Rekstrarniðurstaðan sýnir fram á slaka fjármálastjórn meirihlutans. Ekki hefur tekist að greiða niður skuldir og skuldasöfnun A- hluta og samstæðunnar halda áfram að aukast. Allir borgarfulltrúar þurfa að undirrita ársreikninginn, en við, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, gerðum það með fyrirvara, enda hafa margir sérfræðingar bent á ýmis álitamál á framsetningu ársreikningsins.

Ársreikningurinn fegraður

Þrátt fyrir mikla tekjuaukningu hjá borginni síðustu ár og að útsvarið sé í hæstu hæðum,  hafa skuldir borgarinnar aukist gríðarlega, um leið og  skuldahlutfallið hefur hækkað ár frá ári á  einum mestu góðæristímum Íslandssögunnar.

Ársreikningurinn er fegraður með bókhaldsbrellum af ýmsum toga. Tekinn er út arður   úr B- hlutafyrirtækjum eins og Faxaflóahöfnum og Orkuveitunni í stað þess að nýta svigrúmið til að lækka gjaldskrár til borgarbúa, raunverulegra eigenda Orkuveitunnar. Félagsbústaðir eru teknir inn í samstæðuupgjör Reykjavíkurborgar með matsbreytingum upp á 57 milljarða króna. Þessi fjárhæð hefur áhrif á efnahags- og samstæðureikning borgarinnar enda um gríðarlega fjármuni að ræða. Öll þessi félög eru óhagnaðardrifin og sjá um að veita almannaþjónustu til borgarbúa.

Ekki tekist að lækka skuldir á hátindi hagsveiflunnar

Í öllum rekstri spyrja menn sig grundvallarspurninga á borð við hvort skuldirnar séu að hækka eða lækka eða hvort reksturinn sé sjálfbær. Því miður er því ekki til að dreifa hjá borginni. Ársreikningurinn sýnir að skuldir fara stöðugt hækkandi og útgjöld eru alltaf hærri en skatttekjurnar.

Skuldir og skuldbindingar samstæðu Reykjavíkurborgar jukust um 21 milljarð á síðasta ári, eða um u.þ.b. tvo milljarða á mánuði og það á góðæristímum.

Síðustu ár hefur hagnaður borgarinnar verið talsverður enda öll gjöld og skattar í leyfilegu hámarki og afkoma af sölu byggingarréttar góð flest árin þó svo hún hafi farið minnkandi síðasta ár. Þrátt fyrir tekjugóðæri á undaförnum árum og að  við höfum verið á hátindi hagsveiflunnar hefur ekki tekist að lækka skuldir. Það vekur jafnframt eftirtekt að á sama tíma og  ríkinu hefur tekist að lækka sínar skuldir þá halda skuldir borgarinnar áfram að hækka.  Það er áfellisdómur yfir fjármálastjórn borgarinnar og sýnir lausatök á fjármálunum.

Gera þarf alltaf ráð fyrir því að efnahagsástandið geti versnað og tekjur farið minnkandi. Þetta má sjá á ársreikningnum en lítið var um einskiptishagnað af sölu byggingarréttar síðasta ár.

Það eru ekki bara skuldirnar sem hafa hækkað heldur hafa útgjöldin hækkað um 7-8% og rekstrarkostnaður hefur hækkað verulega eða um 8%. Borgarstjóri virðist ánægður með þessa skuldsetningu og biður borgarfulltrúa að rita undir árreikninginn með bros á vör. Slík brosmildi breytir þó ekki þeirri staðreynd  að það eru  borgarbúar sem á endanum  borga brúsann fyrir þessa óhóflegu eyðslu og skuldasöfnun. Það gera þeir með hæsta leyfilega útsvari, auknum álögum og gjaldskrárhækkunum  sem er í mörgum tilfellum ekkert annað en skattheimta.

Enginn skuldsetur sig út úr fjárhagsvanda til lengdar

Ársreikningurinn ber með sér að komið er að skuldadögum og dráttarvextirnir farnir að tikka víða í kerfinu. Það bitnar óhjákvæmilega á grunnþjónustu og lögbundnum verkefnum.

Enginn skuldsetur sig út úr fjárhagsvanda til lengdar, hvorki heimili, fyrirtæki né sveitarfélög.  Þessari óheillaþróun þarf að snúa við og taka á rekstrinum af ábyrgð og festu í stað þess að fara með betlistafinn til ríkisins og biðja um aðstoð eins og borgarstjóri og meirihlutinn í borginni hefur nú gert  þegar gefið hefur á bátinn  vegna neikvæðra fjárhagslegra afleiðinga Covid-19. Góðir búmenn sýna því fyrirhyggju og spara í góðæri til að mæta áföllum og mögrum árum.

 Greinin birtist í Morgunblaðinu  21. maí 2020