Verkefnið er að verja framleiðslugetuna

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Eitt mik­il­væg­asta verk­efni stjórn­valda er að verja fram­leiðslu­getu hag­kerf­is­ins. Koma í veg fyr­ir að tíma­bundið fall í eft­ir­spurn vegna heims­far­ald­urs verði til þess að innviðir viðskipta­hag­kerf­is­ins molni og verði að engu. Bygg­ing­ar, tæki, tól, fjár­magn en ekki síst hug­vit og þekk­ing starfs­manna eru for­send­ur verðmæta­sköp­un­ar í sam­fé­lag­inu. Án verðmæta­sköp­un­ar lam­ast heil­brigðis­kerfið. Vel­ferðar- og mennta­kerfi verður aðeins fjar­læg­ur draum­ur. Verðmæta­sköp­un stend­ur und­ir lífs­kjör­um þjóða.

Hvernig tekst til við að verja fram­leiðslu­get­una ræður úr­slit­um um hversu fljótt og vel okk­ur Íslend­ing­um tekst að vinna okk­ur upp úr djúp­um efna­hags­leg­um öldu­dal.

Lítið er mik­il­vægt

Í sam­an­tekt Hag­stof­unn­ar fyr­ir Sam­tök at­vinnu­lífs­ins um fjölda fyr­ir­tækja og starfs­manna og launa­greiðslur á ár­un­um 2010-2018 kem­ur fram að árið 2018 var fjöldi launa­greiðenda rétt liðlega 21 þúsund. Upp­lýs­ing­arn­ar varpa skýru ljósi á mik­il­vægi lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja fyr­ir ís­lenskt at­vinnu- og efna­hags­líf 2018:

  • • 98% fyr­ir­tækja á Íslandi eru lít­il (49 eða færri starfs­menn).
  • • Lít­il fyr­ir­tæki höfðu um 51% starfs­manna í at­vinnu­líf­inu í vinnu.
  • • Lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki (50-249 starfs­menn) voru með 73% starfs­manna í at­vinnu­líf­inu í vinnu árið 2018.
  • • Lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki greiddu 69% heild­ar­launa árið 2018.
  • • Starfs­mönn­um í at­vinnu­líf­inu fjölgaði um 38 þúsund frá 2010 til 2018, þar af fjölgaði starfs­mönn­um lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja um liðlega 27 þúsund. Liðlega 45% fjölg­un­ar­inn­ar eða tæp­lega 18 þúsund voru hjá ör­fyr­ir­tækj­um (færri en 10 starfs­menn) og litl­um fyr­ir­tækj­um.

Það er því ekki til­vilj­un að rík­is­stjórn hafi horft sér­stak­lega til þess með hvaða hætti hægt sé að styðja við bakið á litl­um og meðal­stór­um fyr­ir­tækj­um. Í gær voru kynnt­ar sér­stak­ar bóta­greiðslur til fyr­ir­tækja sem var gert að hætta tíma­bundið starf­semi vegna bar­átt­unn­ar við veiruna ill­vígu. Þá verða sér­stök stuðningslán boðin fyr­ir­tækj­um sem hafa orðið fyr­ir veru­leg­um tekju­sam­drætti. Auk­in áhersla á ný­sköp­un, með hækk­un end­ur­greiðslu kostnaðar vegna þró­un­ar og rann­sókna, er einnig hluti af varn­araðgerðum, sem skipta ekki síst máli fyr­ir frum­kvöðla. Hér eft­ir sem hingað til er það eitt meg­in­verk­efnið að styðja við bakið á fram­taks­mann­in­um, sem hef­ur verið og verður aflvaki fram­fara og bættra lífs­kjara.

50 þúsund ein­stak­ling­ar

Á vef Vinnu­mála­stofn­un­ar kem­ur fram að aldrei hafi fleiri verið í þjón­ustu stofn­un­ar­inn­ar. Rúm­lega 50.000 ein­stak­ling­ar fá greidd­ar at­vinnu­leys­is­trygg­ing­ar að fullu eða að hluta á móti skertu starfs­hlut­falli. Þetta eru litlu færri en íbú­ar sam­tals í Kópa­vogi og Garðabæ. Stofn­un­in áætl­ar að at­vinnu­leysi verði um 17% í apríl. Nú hafa yfir 34 þúsund um­sókn­ir um hluta­störf borist og þar af var í byrj­un vik­unn­ar búið að af­greiða nær 30.400. Þá hafa um 2.200 nýj­ar um­sókn­ir um hefðbundn­ar at­vinnu­leys­is­trygg­ing­ar komið inn það sem af er apríl, sem er viðbót við þá u.þ.b. 14.200 ein­stak­linga sem þegar voru skráðir án at­vinnu í lok mars – alls 16.600 ein­stak­ling­ar sem er svipaður fjöldi og all­ir íbú­ar Garðabæj­ar.

Í skýrslu Vinnu­mála­stofn­un­ar um vinnu­markaðinn í mars kem­ur fram að yfir 40% af um­sókn­um um minnkað starfs­hlut­fall eru í grein­um sem tengj­ast flugrekstri og ferðaþjón­ustu. Stór hluti annarra um­sókna er úr þeim hluta versl­un­ar­geir­ans sem teng­ist ferðaþjón­ustu að ein­hverju marki.

At­vinnu­leysið leggst af mis­jöfn­um þunga á landið. Verst er staðan á Suður­nesj­um, þar sem stefn­ir í 24% at­vinnu­leysi í þess­um mánuði. Sveit­ar­fé­lög sem hafa treyst á ferðaþjón­ustu hafa orðið og verða illa fyr­ir barðinu á Covid-19. Staðan er t.d. sér­stak­lega erfið í Mýr­dals­hreppi, þar sem byggst hef­ur upp glæsi­leg ferðaþjón­usta á síðustu árum.

Veru­leg­ur sam­drátt­ur verðmæta

Íslenskt þjóðfé­lag hef­ur aldrei getað sætt sig við um­fangs­mikið at­vinnu­leysi. Ekki aðeins vegna kostnaðar­ins sem af því hlýst held­ur ekki síður vegna þess að at­vinnu­leysi er líkt og eit­ur sem seytl­ar um þjóðarlík­amann. Aukið at­vinnu­leysi er merki um vannýtta fram­leiðslu­getu sam­fé­lags­ins. Verðmæta­sköp­un­in verður minni og sóun­in meiri.

Hag­fræðing­ar eru treg­ir til að gefa út hagspár við þess­ar aðstæður, enda eng­in spálíkön til sem ná utan um þær efna­hags­legu aðstæður sem glímt er við. Nú draga þeir frem­ur upp sviðsmynd­ir.

Ef lands­fram­leiðslan dregst sam­an um 10% á þessu ári (sem því miður gæti verið skásta niðurstaðan) munu verðmæt­in sem ís­lenskt þjóðarbú býr til drag­ast sam­an á þessu ári um tæp­lega 300 millj­arða. Verði sam­drátt­ur­inn 15%, minnka verðmæt­in um nær 450 millj­arða. Lífs­kjör okk­ar verða lak­ari og mögu­leik­ar hins op­in­bera til að veita þá þjón­ustu sem ætl­ast er til verða minni.

Lífs­kjör okk­ar á kom­andi árum ákv­arðast af því hvernig tekst til við end­ur­reisn viðskipta­hag­kerf­is­ins – sem stend­ur und­ir öllu. Tak­ist okk­ur að verja innviði viðskipta­hag­kerf­is­ins – fram­leiðslu­getu at­vinnu­lífs­ins – verðum við fljót að ná okk­ur aft­ur á strik.

Að þessu leyti er verk­efnið skýrt, þótt það vefj­ist fyr­ir ein­hverj­um hvar og með hvaða hætti verðmæt­in verða til.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. apríl 2020.