Samvinna í baráttunni gegn Covid-19 er hagur okkar allra

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og þróunarmálaráðherrar Bretlands, Anne-Marie Trevelyan; Danmerkur, Rasmus Prehn; Finnlands, Ville Skinnari; Noregs, Dag Inge Ulstein; Svíþjóðar, Peter Eriksson; og Þýskalands, Gerd Müller.

Heimsbyggðin hefur orðið fyrir áfalli. Covid-19 virðir engin landamæri. Aðrar hnattrænar ógnir fyrirfinnast, eins og loftslagsbreytingar, en lífi okkar og heilsu stafar nærtækari hætta af þessum heimsfaraldri.

Eftir því sem veiran breiðist um hnöttinn, kemur betur í ljós hve vægðarlaus þróun hennar er og hve alvarlegar afleiðingar hennar eru fyrir efnahagslíf og mannúðarsjónarmið. Reynslan af öðrum smitsjúkdómum eins og alnæmisveirunni og ebólu sýnir að undirliggjandi samfélagsleg vandamál – einkum ójöfnuður, fátækt og átök – gera ástandið verra.

Anne-Marie Trevelyan

Afleiðingarnar sjást nú þegar og þær koma til með að aukast. Harðast koma þær niður á fátækum og óstöðugum ríkjum með veikburða heilbrigðiskerfi. Þær bitna líka sérstaklega á konum sem verða fyrir fjárhags-, félags- og heilsufarslegu álagi, auk þess sem þær eru í meiri hættu að verða fyrir ofbeldi.

Það er ekki aðeins samstaða með efnaminni hagkerfum sem hvetur okkur áfram. Hnattrænar aðgerðir varðandi Covid-19 eru nauðsynlegar ef við viljum vernda almenning í okkar eigin löndum og efnahagslíf. Við verðum að bregðast við ástandinu í okkar eigin löndum, en einnig er mikilvægt að við grípum til hnattrænna, fjölþjóðlegra viðbragðsaðgerða. Veikleikar í heilbrigðiskerfum þróunarríkja hafa í för með sér einna mesta áhættu hvað varðar hnattræna útbreiðslu veirunnar.

Rasmus Prehn

Náið samstarf okkar allra – ríkja innan sem utan ESB – er mikilvægt í því skyni að auka áhrif okkar, bæði fjárhagslega og á vettvangi. Þess vegna þurfa allir samstarfsaðilar á alþjóðavísu, meðal annars Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra, að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að berjast gegn faraldrinum, draga úr afleiðingum, efla viðbúnað og auka möguleika á endurreisn.

Við munum leggja áherslu á aðgerðir á eftirfarandi sviðum:

Tafarlaus viðbrögð

Ville Skinnari

Skjót, samræmd og öflug viðbrögð til hjálpar viðkvæmustu ríkjunum eru nauðsynleg. Stuðningur við marghliða kerfi og samstarfsaðila sem eru í framlínunni er skilvirkasta leiðin. Við styðjum Alþjóðaheilbrigðisstofnunina að fullu í hlutverki sínu sem leiðtogi og samræmingaraðili á heimsvísu vegna viðbragða við Covid-19 á heilbrigðissviðinu, og gerum okkur grein fyrir mikilvægi annarra hnattrænna heilbrigðisstofnana eins og Gavi-sambandsins, Heimssjóðsins (Global Fund) og Unitaid stofnunarinnar. Við styðjum eindregið hnattræna viðbragðsáætlun aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um mannúðaraðstoð til að hjálpa berskjaldaðasta fólkinu sem þegar býr við neyðarástand í mannúðarmálum, einkum flóttafólk og vegalaust fólk innan eigin lands. Við teljum einnig að nýr fjölþjóðlegur vörslusjóður Sameinuðu þjóðanna vegna viðbragða og endurreisnar sé nauðsynlegur til að hjálpa lág- og millitekjuríkjum að takast á við heilsufarsleg og efnahagsleg áhrif sjúkdómsins.

Lausnir fyrir alla

Dag Inge Ulstein

Skilvirkt viðbragð á heimsvísu verður að fela í sér aðgang að bóluefni, nýrra meðferða, og sýnatöku fyrir alla. Bandalag um nýsköpun í viðbúnaði vegna farsótta (CEPI) gegnir lykilhlutverki við þróun bóluefnis en það gera einnig vísindamenn í löndum okkar. Við ættum að vinna saman að því að þróa bóluefni eins fljótt og auðið er og sjá til þess að það sé tiltækt öllum, ekki einungis þeim sem hafa tök á að greiða fyrir það. Sérfræðiþekking og alþjóðleg staða Gavi-sambandsins mun þar skipta sköpum.

 

 

Lokun fjármögnunarbila

Peter Eiriksson

Við verðum að grípa til skjótra aðgerða og setja saman heildstæðan pakka með efnahagslegum, heilsufarslegum, næringarfræðilegum og félagslegum ráðstöfunum í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og aðrar alþjóðastofnanir. Við köllum eftir því að opinberir lánardrottnar vinni saman og með Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að því að kanna möguleika á tímabundinni frestun endurgreiðslna frá fátækustu ríkjunum sem eru hvað viðkvæmust. Við verðum að skuldbinda okkur til að leggja til og virkja frekari úrræði umfram opinbera þróunaraðstoð ef við viljum að sönnu auka viðnámsþrótt landa gegn kórónaveirunni. Einkageirinn mun leika mikilvægt hlutverk við að finna nýstárlegar lausnir og virkja fjármagn til að halda viðskiptum og aðfangakeðjum gangandi, til ábata fyrir bæði hátekju- og lágtekjuríki. Þetta hjálpar til við að halda hagkerfum uppi og að lokum styðja við endurreisn þeirra.

Enginn verði skilinn eftir

Gerd Müller

Við verðum að tryggja að þeir hópar sem verða fyrir mestum áhrifum fái tafarlausa aðstoð við að byggja upp félagslega vernd sem og heilsu- og næringartengda þjónustu. Við horfum einkum til Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að leiða á þessu sviði. Við verðum að vernda þá sem eru viðkvæmastir fyrir, þ.m.t. konur og stúlkur. Menntun ætti einnig áfram að vera forgangsatriði. Endurnýjun birgða hjá Gavi-sambandinu síðar á þessu ári er einnig brýn. Við þurfum reglubundna bólusetningu fyrir þær milljónir manna sem verða fyrir áhrifum af þessum heimsfaraldri í fátækustu ríkjunum. Til lengri tíma verðum við að auka stórlega viðleitni okkar til að ná fram meira félagslegu öryggi og tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir alla á heimsvísu.

Hvika ekki frá meginreglum

Mikilvægur og dýrkeyptur lærdómur stendur skýr eftir úr baráttunni gegn alnæmisveirunni og ebólu: öll viðleitni okkar og viðbrögð verða að byggja á grunni meginreglna um jafnræði, þ.m.t. varðandi kyn, fjölbreytileika, mannréttindi og alþjóðalög. Við skuldbindum okkur til að verja þessar meginreglur og væntum þess að samstarfsaðilar okkar deili þeim. Fjölmiðlar, aðgerðasinnar og óháðir sérfræðingar hafa allir hlutverki að gegna við að móta viðbrögð okkar.

Hrekja falsfréttir

Hvert ríki verður að bregðast við Covid-19 með sínum hætti, en við munum halda áfram að mæla með opinni, gagnsærri, ábyrgri og heiðarlegri nálgun. Við munum einnig takast af festu á við villandi upplýsingar og treysta á alþjóðlega samstarfsaðila okkar að gera slíkt hið saman.

Byggja betur upp á ný. Við höfum tækifæri til að styrkja heilbrigðisöryggi á heimsvísu. Fjárfesting í faraldsfræðilegu eftirliti í öllum ríkjum er augljós upphafsreitur. En þetta gæti líka verið tækifæri til að komast burt frá þeirri nálgun sem er svo ríkjandi í dag að einblína á veikindi og sjúkdóma, og stíga fyrsta skrefið í átt að því að hugsa um tengslin á milli heilbrigðs lífs, heilbrigðra samfélaga og heilbrigðs umhverfis – og verið besta vörn sem við höfum gegn farsóttum í framtíðinni.

Langtímahugsun frá byrjun

Félagslegar og hagrænar afleiðingar faraldursins verða reiðarslag. Milljónir hafa þegar misst atvinnu sína. Við verðum að grípa þetta tækifæri og hugsa til lengri tíma, einbeita okkur að loftlagsmálum og viðnámi gegn loftslagsbreytingum, grænum störfum og orku, betri félagslegri vernd og stjórnunarháttum. Við styðjum ákall aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um að gera endurreisnaráætlun til að halda okkur á réttri leið í átt að Heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030 og Parísarsamningsins um loftslagsbreytingar. Við styðjum einnig ákall hans um vopnahlé á heimsvísu.

Við skuldbindum okkur til að vinna að þessum markmiðum, og beita og virkja pólitískan vilja, tæknilega þekkingu og fjármuni. Við hvetjum allar þjóðir til að styðja þetta sameiginlega átak. Við eigum þann valkost einan að fást við þennan sjúkdóm í sameiningu.

Greinin birstist fyrst í Telegraph 9. apríl og á íslensku í Fréttablaðinu 16. apríl.