Að láta hjólin snúast að nýju

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Ekk­ert hag­kerfi fær staðist til lengri tíma ef komið er í veg fyr­ir efna­hags­lega starf­semi borg­ar­anna. Skipt­ir engu hversu öfl­ugt og stórt hag­kerfið er. Hægt og bít­andi byrja und­ir­stöðurn­ar að molna – vel­sæld breyt­ist í fá­tækt og ör­birgð, öfl­ugt heil­brigðis­kerfi brotn­ar niður, al­manna­trygg­ing­ar kom­ast í þrot. Póli­tísk­ur órói og sundr­ung þjóðar eru fylgi­fisk­ar efna­hags­legra þreng­inga. Þetta vita kjörn­ir leiðtog­ar lýðræðis­ríkja.

Í bar­átt­unni við kór­ónu­veiruna, sem ógn­ar lífi og heilsu al­menn­ings um all­an heim, hef­ur í raun verið slökkt á vél­um efna­hags­lífs­ins. Víða hef­ur fólki verið skipað að halda sig heima, ein­angra sig frá öðrum. Útgöngu­banni verið komið á. Stræti stór­borga eru mann­laus, kaffi­hús, bar­ir og veit­inga­hús lokuð, versl­an­ir hafa læst dyr­um sín­um. Þeir sem geta hafa komið sér upp vinnuaðstöðu heima. Í mörg­um lönd­um hafa börn og ung­ling­ar verið send heim úr skóla en há­skóla­stúd­ent­ar reyna að sinna námi í fjar­kennslu. Vél­ar í verk­smiðum hafa þagnað. Flest­ir skilja mik­il­vægi tveggja-metra-regl­unn­ar og eru hætt­ir að heilsa með handa­bandi. Eng­inn hleyp­ur til og faðmar gaml­an vin. Ferðalög milli landa eru aðeins til í minn­ing­um og draum­um fólks.

Allt þetta hef­ur reynst nauðsyn­legt til að ná tök­um á Covid-19 far­aldr­in­um. En fyrr eða síðar verða stjórn­völd að slaka á ströng­um regl­um, bæði af efna­hags­leg­um og fé­lags­leg­um ástæðum. For­senda þess að hægt sé að byggja upp og reka sterkt heil­brigðis­kerfi er öfl­ugt efna­hags­líf. Það er ein af skyld­um viðskipta­hag­kerf­is­ins að búa til verðmæti sem standa und­ir vel­sæld þjóða. Fé­lags­lega kemst maður­inn illa af án op­inna sam­skipta við annað fólk. Sál­ar­heill þjóða bygg­ist ekki síst á því að geta átt beint sam­neyti við aðra, á göt­um úti, á kaffi­hús­um, á vinnustað. Við get­um í skamm­an tíma kom­ist af með fjar­fundi og tryggt að sam­bandið við fjöl­skyldu og vini rofni ekki með því að nýta spjall­for­rit og sam­fé­lags­miðla. En tækn­in leys­ir aldrei af hólmi per­sónu­leg sam­skipti og nánd. Siðmenn­ing bygg­ist á opn­um sam­skipt­um og sam­vinnu ein­stak­linga.

Hag­kerfi end­ur­ræst

Á kom­andi mánuðum og árum munu vís­inda­menn átta sig bet­ur á því hvaða mis­tök hafa verið gerð í ein­stök­um lönd­um og í sam­starfi (eða sam­starfs­leysi) þjóða í bar­átt­unni við ill­víg­an vírus. Hag­fræðing­ar eiga eft­ir að meta efna­hags­leg­an skaða sem vírus­inn hef­ur valdið heim­in­um en ekki síður skrifa nýj­ar kennslu- og fræðibæk­ur um hvernig best sé að beita rík­is­fjár­mál­um og pen­inga­stjórn­un þegar tek­ist er á við heil­brigðisógn í framtíðinni.

Stjórn­völd um all­an heim standa hins veg­ar frammi fyr­ir mikl­um áskor­un­um. Það verður að end­ur­ræsa hag­kerfið en um leið tryggja að far­ald­ur­inn nái sér ekki á strik aft­ur með skelfi­leg­um af­leiðing­um. Ekki er hægt að bú­ast við öðru en stig­in verði var­fær­in skref í þá átt að koma sam­fé­lög­um í eðli­legt horf.

Sebastian Kurz, kansl­ari Aust­ur­rík­is, hef­ur þegar kynnt áætlan­ir um að aflétta tak­mörk­un­um á viðskipta­líf­inu. Í opnu bréfi á laug­ar­dag sagðist hann vilja „koma út úr krepp­unni eins fljótt og auðið er og verja hvert ein­asta starf í Aust­ur­ríki“. Versl­an­ir sem eru und­ir 400 fm að stærð, sem og bygg­inga­vöru­versl­an­ir og blóma­búðir hafa fengið að opna að nýju. End­ur­ræs­ing aust­ur­ríska hag­kerf­is­ins bygg­ist á skref-fyr­ir-skref áætl­un. Leyft verður að öllu óbreyttu að opna stærri versl­an­ir, versl­un­ar­miðstöðvar og hár­greiðslu­stof­ur að nýju 1. maí en veit­ingastaði og hót­el um miðjan maí. Enn verða í gildi strang­ar regl­ur um fé­lags­lega fjar­lægð og fólk er hvatt til að vera heima eins mikið og mögu­legt er. Í mat­vöru­versl­un­um og lyfja­búðum verður enn skylda að vera með and­lits­grímu.

Önnur lönd eru einnig að feta sig í átt að því sem hægt er að segja að sé eðli­legt ástand. Skref­in eru ekki stór en eru hluti af var­færn­um áætl­un­um um að koma hjól­um efna­hags­lífs­ins af stað. Spánn hef­ur m.a. leyft bygg­inga­verk­tök­um og verk­smiðjum að hefja aft­ur starf­semi og í Dan­mörku geta yngri börn snúið aft­ur í skóla. Jafn­vel á Ítal­íu er víða verið að slaka á tak­mörk­un­um.

Emm­anu­el Macron, for­seti Frakk­lands, hef­ur hins veg­ar til­kynnt að út­göngu­bann verði fram­lengt til 11. maí. Frá þeim tíma verði slakað á kvöðum og reynt að tryggja að hægt og bít­andi kom­ist dag­legt líf í eðli­legt horf. For­set­inn, sem sagði í sjón­varps­ávarpi að enn hefði ekki tek­ist að ná tök­um á far­aldr­in­um, til­kynnti að nán­ari áætl­un yrði kynnt í lok apríl.

Fyrstu skref­in í maí

Flest bend­ir til að heil­brigðis­yf­ir­völd­um hafi tek­ist vel upp í bar­átt­unni við kór­ónu­veiruna. Er­lend­ir vís­inda­menn og fjöl­miðlar hafa vakið at­hygli á ár­angr­in­um. Í há­deg­inu í gær kynntu ís­lensk stjórn­völd áætl­un um hvernig hægt og bít­andi höft­um verði lyft af þjóðarfé­lag­inu frá og með 4. maí. Þar er fylgt til­lög­um sótt­varna­lækn­is.

Hefðbundið skóla­hald í leik- og grunn­skól­um hefst og með nokkr­um tak­mörk­un­um verður unnt að opna fram­halds- og há­skóla. Fjölda­mörk sam­komu­banns hækka úr 20 í 50. Ýmis þjón­usta get­ur haf­ist, s.s. hár­greiðslu­stof­ur, nudd­stof­ur, sjúkraþjálf­un, snyrti­stof­ur. Tann­lækn­ar fá að taka til starfa og öll heil­brigðis­starf­semi sem ekki fel­ur í sér val­kvæðar skurðaðgerðir verður heim­il. Söfn verða að nýju aðgengi­leg al­menn­ingi. Með tak­mörk­un­um hefst íþrótt­astarf barna og ung­linga. Enn verða ferðatak­mark­an­ir milli landa a.m.k. fram til 15. maí.

Ekki þarf að fara mörg­um orðum um mik­il­vægi þess að vel tak­ist til við að lyfta íþyngj­andi tak­mörk­un­um á dag­legt líf al­menn­ings. Þau skref sem stíga á 4. maí skipta máli en ráða því miður ekki úr­slit­um um efna­hags­lega af­komu þjóðar­inn­ar. Við mun­um enn þurfa að glíma við efna­hags­leg­ar þreng­ing­ar. Efna­hags­leg­ar aðgerðir stjórn­valda, – rík­is, sveit­ar­fé­laga og Seðlabanka – hafa verið nauðsyn­leg­ar til að verja fyr­ir­tæki og heim­ili. En þær voru til að koma okk­ur í gegn­um fyrsta leik­hluta af nokkr­um. Ann­ar leik­hluti er að hefjast og ekki verður hjá því kom­ist að beita jafnt rík­is­fjár­mál­um og pen­inga­mál­um með rót­tæk­um hætti á kom­andi mánuðum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. apríl 2020.