Davíðssálmur 121 „Huggun guðlegrar verndar“

Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:

Þegar páskar nálgast verða mér Davíðssálmar umhugsunarefni. Það er 121. Davíðssálmur, sem ég reyni að fjalla um.

»Sagt hefur verið að boðskapur þessa sálms nái að dýpstu hjartarótum fólks á öllum tímum og veiti því hvatningu og styrk til að bera hita og þunga dagsins og leggjast til hvíldar í rósemd.« Þetta segir í »Áhrifasögu saltarans« eftir dr. Gunnlaug A. Jónsson. Þar segir jafnframt að sálminum hafi verið lýst með orðunum „huggun guðlegar verndar“.

Jafnt fjalla ég um dulúð og töfra Snæfellsjökuls í skáldsögum.

Tvær þýðingar

Það er áhugavert að skoða tvær þýðingar á 121. Davíðsálmi í mismunandi biblíuútgáfum.

Fyrri þýðingin er í biblíu Guðbrands Þorlákssonar:

Stígandi sálmur.

Eg lyfti mínum augum til fjallanna, hvaðan mín hjálp mun koma.

Mín hjálp kemur frá Drottni, sem gjörði himin og jörð.

Hann mun ekki láta þinn fót rasa, hann þinn vaktara syfjar ekki,

sjá! hann sofnar ekki, Ísraels vaktari sefur ekki.

Drottinn er sá sem vaktar þig, Drottinn er þín hlíf, hann er þér til hægri handar.

Á daginn mun sólin ekki ljósta þig, og ekki tunglið á nóttunni.

Drottinn mun varðveita þig frá öllu illu, hann mun geyma þína sál.

Drottinn mun varðveita þinn inngang og útgang frá því nú er og til eilífrar tíðar!

Í biblíu 21. aldar er þýðingin:

Helgigönguljóð.

Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.

Hann mun ekki láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.

Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.

Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.

Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein né heldur tunglið um nætur.

Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.

Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

Í „Áhrifasögu saltarans“ segir um 121. Davíðssálm:

„Sálmurinn er mjög skipulega uppbyggður. Þungamiðjan í sálminum er tvímælalaust setningin „Drottinn er þinn vörður“ (v.5). Bent hefur verið á að í hebreska textanum sé þessi setning nákvæmlega miðja sálmsins, 58 atkvæði á undan og 58 á eftir. Þannig haldist í hendur staðsetning setningar og efnisleg þungamiðja.“

Það er einnig athyglisvert að Guðbrandur biskup er sannfærður um að hjálpræðið komi frá fjöllunum. Þá horfir hann til himins, fullur lotningar fyrir hinu æðsta. Nútímamaðurinn er ekki eins sannfærður og spyr »hvaðan kemur mér hjálp?« Í þýðingu Guðbrands er áréttað hvaðan hjálpin kemur en í nýju þýðingunni er spurningunni svarað: „Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.“

Eftir stendur spurningin hvort ekki sé ástæða til að óttast fjöllin. Eða klífa fjöllin og sigrast á efiðleikunum.

Þingstaðurinn og fjöllin

Oft verður mér hugsað til hins forna þingstaðar á Þingvöllum, sem var helgaður fyrir kristnitöku. Helgi þingstaðarins verður hverjum manni ljós í lotningu Kjarvals andspænis Skjaldbreiði í morgunhúmi. Þannig verða fjöllin umhverfis Þingvelli jafnstæð fjöllum umhverfis Jerúsalem í Sálminum.

 

Snæfellsjökull í skáldskap

Sennilega hefur ekkert íslenskt fjall náð eins langt í bókmenntum og Snæfellsjökull. Þannig segir biskupinn í Kristnihaldinu:

„Finst yður ekki skrýtið að mestu höfundar frakka hafa skrifað um Ísland bækur sem hafa gert þá ódauðlega?« Og heldur svo áfram og nefnir þrjá franska rithöfunda og lýkur ræðunni »og Jules Verne rak á það rembihnútinn með þessu ógurlega meistaraverki af Snæfellsjökli Voyage au Centre de la Terre“.

 

Seinna segir biskup:

„Hvað segið þér um að bregða undir yður betri fætinum vestrundir Jökul og gera á þessu veraldarfjalli þá rannsókn sem mest hafi orðið síðan Jules Verne á vorum dögum?“

Þessa rannsókn átti að borga eftir embættismannataxta.

Það er eftirtektarvert á hvern veg nálgunin við jökulinn er orðuð; „vestrundir“. Alltaf er fjallað um mannlífið „undir Jökli“. Í lotningunni er maðurinn undirgefinn, undir hinu æðsta. Jökullinn verður hlutgerving hins æðsta.

Kristnihaldið fjallar um dulúð og kraftaverk nærri Jöklinum.

Í „Fegurð himinsins“ er Jökullinn helgaður dulúð, töfrum og fegurð. Þannig hefst bókin:

„Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg. Þar ríkir fegurðin ein ofar hverri kröfu.“

Jökullinn fer með hlutverk fegurðar og lotningar í sögunni. Þannig verður Jökullinn það eina sem unga máttlausa stúlkan sér.

„Dóttir okkar misti máttinn þegar hún var fimtán ára, sagði gamla konan. En guð hefur gefið henni þolinmæðina, og þolinmæðin er sigursælli en mátturinn. Speglinum er hagað þannig að hún geti séð í honum jökulinn. Hún horfir stundum allan daginn á jökulinn í speglinum. Jökullinn, það er hennar líf.“

Töfrarnir og goðsögnin er í fegurðinni. Nóbelsskáldið heldur áfram og segir um Jökulinn:

„Jökullinn var ekki nema í seilingarfjarlægð yfir skógarásnum, ímyndarhreinnar goðveru, sannfagurrar og án miskunn. Skáldinu fanst þeir ekki einhamir sem lifðu í nánd svo alhvítra töfra, heldur væri hér ríki goðsagnarinnar.“

Fjöll um páska

Þessir páskar eru haldnir hátíðlegir við sérkennilegar aðstæður. Hver og einn verður að leita sinnar lotningar, hins æðsta, og hefja augu sín til fjallanna, hefja augu sín til himinsins og vona að hjálpin komi. Og sigrast á efiðleikunum.

Lotningin verður alltaf óttablandin. Fegurð himinsins er okkar líf á þessum páskum!