Kristján Þór

Aðgerðir fyrir landbúnað og sjávarútveg vegna COVID-19

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í dag 15 aðgerðir á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs til að bregðast við áhrifum COVID-19 veirunnar á þessar greinar.

Markmið aðgerðanna er að lágmarka neikvæð áhrif á íslenskan landbúnað og sjávarútveg til skemmri og lengri tíma, en um leið skapa öfluga viðspyrnu þegar þetta tímabundna ástand er gengið yfir.

Það verður í forgangi í mínu ráðuneyti á næstu dögum og vikum að framfylgja þessum aðgerðum og aðstoða íslenska matvælaframleiðslu í gegnum þetta ástand. Grípa til frekari aðgerða sem nauðsynlegar verða. En mögulega er mikilvægasta aðgerðin af þeim öllum hins vegar sú sem hver og einn Íslendingur hefur í hendi sér á hverjum degi; að velja íslensk matvæli,“ sagði Kristján Þór.

Aðgerðir fyrir landbúnað

  1. Íslensk garðyrkja efld til muna með auknum fjárveitingum
  • Nú standa yfir samningaviðræður stjórnvalda og bænda um endurskoðun búvörusamnings um starfsskilyrði garðyrkjuræktar. Þar er gert ráð fyrir að íslensk garðyrkja verði efld til muna með auknum fjárveitingum og með tilheyrandi fjárfestingum í greininni. Aðgerðin er m.a. fjármögnuð með fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar á þessu ári. Aukin framleiðsla á íslensku grænmeti er forsenda þess að íslenskir garðyrkjubændur nái að halda í við þá þróun sem aukin neysla grænmetis hefur í för með sér og nái að halda við og auka markaðshlutdeild íslensks grænmetis.

2. Aukin þjónusta og ráðgjöf til bænda vegna COVID-19

    • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun í samráði við Bændasamtök Íslands gera bændum kleift að fá fjölþætta ráðgjöf á sviði rekstrar og nýsköpunar til að takast á við þær áskoranir sem nú blasa við vegna COVID-19 og til að tryggja öfluga viðspyrnu þegar að þessu tímabundna ástandi lýkur.

3. Tilfærslur á greiðslum samkvæmt gildandi búvörusamningum innan ársins 2020

    • Framkvæmdanefnd búvörusamninga verður falið að leita leiða til að færa til fjármuni í samræmi við gildandi búvörusamninga til að koma sérstaklega til móts við innlenda matvælaframleiðendur sem nú glíma við tímabundna erfiðleika.

4. Afurðatjón vegna COVID-19 skráð

    • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Bændasamtök Íslands og Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins munu vinna saman að því að skrá afurðatjón bænda vegna COVID-19.

5. Tryggja greiðslur til einstaklinga sem sinna afleysingarþjónustu fyrir bændur

    • Bændasamtök Íslands hafa sett á fót afleysingaþjónustu til að aðstoða bændur sem ekki geta sinnt búum sínum vegna veikinda af völdum COVID-19. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vinnur að því í samstarfi við félags- og barnamálaráðuneytið að tryggja greiðslur til þeirra einstaklinga sem sinna þessari þjónustu.

6. Mælaborð fyrir landbúnaðinn til að bæta framsetningu gagna um landbúnaðarframleiðsluna, birgðir og framleiðsluspár

    • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Bændasamtök Íslands munu vinna að gerð mælaborðs fyrir landbúnaðinn til að bæta framsetningu gagna um landbúnaðarframleiðsluna, birgðir og framleiðsluspár.  Markmiðið er að búa til nokkurs konar mælaborð landbúnaðarins þar sem dregnar eru saman hagtölur sem snerta framleiðsluna og þeim haldið við. Slíkt skiptir máli m.a. til að tryggja fæðuöryggi til lengri og skemmri tíma.

7. Óskað eftir liðsinni dýralækna í bakvarðasveit

  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Matvælastofnun og Dýralæknafélag Íslands hafa óskað eftir liðsinni dýralækna í bakvarðasveit. Leitað er að fólki sem hefur aðstæður og er reiðubúið að vera á útkallslista dýralækna og getur hlaupið til með skömmum fyrirvara, eftir því sem aðstæður leyfa.

8. Ráðstafanir til að heimila með skilyrðum ræktun iðnaðarhamps hér á landi

    • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið gera ráðstafanir til að heimila með skilyrðum ræktun iðnaðarhamps hér á landi til að auka verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði.

Aðgerðir fyrir sjávarútveg og fiskeldi

9. Komið til móts við grásleppusjómenn sem lenda í sóttkví eða einangrun varðandi lengd veiðitímabilsins

    • Ráðherra hefur undirritað breytingu á reglugerð um hrognkelsaveiðar 2020 sem heimilar hlé á grásleppuveiðum ef skipstjóri eða áhöfn þurfa að fara í sóttkví eða einangrun.

10. Afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi flýtt og eftirlit og stjórnsýsla styrkt

    • Fiskeldi hefur vaxið mikið á undanförnum árum og var útflutningsverðmæti fiskeldis 25 ma.kr. í fyrra eða sem nemur tæplega 2% af heildarútflutningi. Samhliða miklum vexti greinarinnar undanfarin ár hefur málsmeðferð rekstrarleyfisveitinga vegna fiskeldis þyngst umtalsvert. Því er mikilvægt að flýta afgreiðslu leyfa til fiskeldis enda gæti það á þessu ári og til framtíðar haft í för með sér mikla fjárfestingu hér á landi og ráðningu á fleira starfsfólki.

11. Aukið fjármagn í hafrannsóknir

    • Öflugar hafrannsóknir eru meginforsenda þess að gera megi verðmæti úr sjávarauðlindinni og nýta hana með sjálfbærum hætti. Í samræmi við samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar verður veitt viðbótarfjármagn til að efla hafrannsóknir við Ísland. Við ráðstöfun þessa viðbótarfjármagns verður sérstaklega litið til þess að auka rannsóknir á loðnu en um mikla þjóðhagslega hagsmuni er að ræða en útflutningsverðmæti loðnu árin 2016-2018 var að meðaltali um 18 milljarðar króna. Aðgerðin er fjármögnuð með fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar á þessu ári.

12. Aukið svigrúm til að flytja aflaheimildir milli fiskveiðiára

  • Aðgerðin miðar að því að stuðla að sveigjanleika við veiðar og vinnslu en slíkt er mikilvægt í því tímabundna ástandi sem nú gengur yfir.

13. Árskvótar deilistofna uppsjávarfisks gefnir út

    • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun hraða vinnu við útgáfu árskvóta til veiða úr þremur deilistofnum uppsjávarfisks, þ.e. síldar, kolmunna og makríls. Með því er stuðlað að auknum fyrirsjáanleika við þessar veiðar.

Almennar aðgerðir

14. Fallið frá áformum um 2,5% hækkun á gjaldskrá Matvælastofnunar til 1. september 2020

    • Fyrirséð er að eftirspurn eftir íslenskum matvælum mun dragast saman á næstu misserum, m.a. í ljósi fækkunar ferðamanna til Íslands, og mun slíkt hafa áhrif á rekstur íslenskra matvælaframleiðenda. Vegna þessa verður fallið frá áformum um 2,5% hækkun á gjaldskrá Matvælastofnunar til 1. september á þessu ári.

15. Ráðstafanir til að tryggja áframhaldandi starfsemi fyrirtækja í matvælaframleiðslu vegna samkomubanns o.fl.

    • Hertar kröfur um samkomur fólks, fjarvera starfsmanna frá vinnu vegna sóttkvíar og einangrunar og aðrar ráðstafanir yfirvalda geta haft neikvæð áhrif á fyrirtæki sem sinna íslenskri matvælaframleiðslu. Heilbrigðisráðherra hefur, eftir samráð við sóttvarnalækni, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Matvælastofnun, ákveðið að veita fyrirtækjum í þessum greinum undanþágu frá tilteknum ráðstöfunum að uppfylltum ströngum skilyrðum. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun áfram fylgjast með þessari þróun í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld og atvinnulífið.